Þörf fyrir félagsskap þar sem góðir menn hittast

Viðtal við Kristján Þórðarson, Stórmeistara Frímúrarareglunnar

Kristján Þórðarson var kjörinn Stórmeistari Frímúrarareglunnar á Íslandi 4. október 2019 og tók formlega við því embætti við innsetningarat­höfn í Regluheimilinu við Bríetartún 5 í Reykjavík laugardaginn 26. október 2019. Ég hitti Kristján á skrifstofu hans í Regluheimilinu í febrúarmánuði 2020 til að ræða við hann í tilefni af þessum tímamótum.

Samtal okkar hefst á almennri umræðu um bakgrunn Kristjáns, ætt hans og uppruna. Gefum Kristjáni orðið:

„Ég er fæddur 5. júlí 1950 í Reykjavík, en þótt ég sé borinn og barnfæddur Reykvíkingur rek ég ættir mínar út fyrir „mölina“. Móðir mín, Unnur Haraldsdóttir, var frá Siglufirði og í föðurætt er ég af svonefndri Arnardalsætt, en faðir minn, Þórður Þ. Kristjánsson, var frá Súgandafirði. Ætli það megi ekki segja um mig eins og marga aðra, að ég hafi verið fremur baldinn í æsku, en það eltist þó af mér, ekki síst vegna þess að ég átti því láni að fagna að vera sendur í sveit á sumrin og hafði gott af því. Þetta voru að mörgu leyti erfiðir tímar. Við vorum mörg systkinin, fimm alsystkini og eitt hálfsystkin. Ég og bróðir minn, sem var ári eldri en ég, fengum lömunarveikina 1955. Ég náði að rísa upp úr því en bróðir minn lá lengi í öndunarvél og var alltaf í hjólastól eftir þetta. Við vorum mjög nánir, bræðurnir og höfðum mikinn félagsskap hvor af öðrum. Hann náði ekki að ljúka stúdentsprófi en dó 19 ára sökum hjartabilunar.“

Kristján Þórðarson SMR
Kristján Þórðarson SMR

Úr húsasmíði í læknanám

Hvað geturðu sagt okkur um nám þitt og skólagöngu?

„Skólagangan hófst í Vogaskóla, en þar gekk ég bæði í barna- og gagnfræðaskóla, að því búnu fór ég að læra húsasmíði og lauk sveinsprófi í þeirri iðngrein frá Iðnskólanum  í Reykjavík. Síðan fór ég í Tækniskóla Íslands. Meðan á því námi stóð fékk ég mikinn áhuga á læknisfræði, en mér fannst að ég hefði fengið köllun í þá átt. Ég hef lýst því þannig að engill hafi vitjað mín í draumi og sagt mér að sinna læknisstörfum. Þetta kallaði á stefnubreytingu í mínu lífi, svo að ég innritaði mig í MH og lauk stúdents­prófi sama ár og sveinsprófinu en fór svo beint í læknisfræðina eftir það. Ég innritaðist  í læknisfræði 1972 í HÍ og lauk því námi í Danmörku. Fór þar einnig í  framhaldsnám í augn­lækn­isfræðum sem ég lauk 1986,  og hef starfað sem augnlæknir í Reykjavík síðan.“

Kristján Þórðarson á augnlæknastofu sinni.
Kristján Þórðarson á augnlæknastofu sinni.

Fjögur börn og níu barnabörn

Kristján hefur einnig verið gæfumaður í einkalífi sínu.

„Eiginkona mín heitir Guðrún Guðmunda Þórarinsdóttir, f. 1952, við giftum okkur 1972 og eigum 4 börn og 9 barnabörn. Elst er Guðlaug Þóra, doktor í erfðagreiningu og vinnur hjá Háskóla Íslands. Hennar maður er Örnólfur Þorvarðarson, háls-, nef- og eyrnalæknir, þau eiga 3 börn. Svo kemur Unnur Ýr, meistari í guðfræði og mannauðsstjórnun. Hennar maður er Bjarni Pálsson, doktor í vélaverkfræði, þau eiga 3 börn. Næstur er Þórður Örn, doktor í fuglafræði og er fyrsti heyrnarlausi frímúrara­bróð­irinn á Íslandi. Þórður er giftur Völu Gísladóttur, grunnskólakennara og eiga þau 3 börn. Það er gaman að segja frá því að Þórður er  einnig fyrsti heyrnarlausi Íslendingurinn sem fær doktorsgráðu og fyrsti heyrnarlausi einstaklingurinn sem gengið hefur í sænska frímúrarakerfið á Norður­löndum. Yngstur er Þórarinn Már,  tölvunarfræðingur og stjórnendaráðgjafi. Unnusta hans er Elsa Dóra Hreinsdóttir, iðnaðarverkfræðingur.“

Ég á Reglunni margt að þakka

Frásögn Kristjáns af framan­greindum högum sínum, lífi og starfi, einkennist af auðmýkt og þakklæti. Ég get því ekki annað en spurt hvort Reglan hafi verið honum styrkur á lífsins leið.

„Já, Reglan hefur verið mikil og góð kjölfesta í mínu lífi og okkar hjónanna. Ég á Reglunni margt að þakka. Við hjónin höfum verið samstiga og náð að halda vel utan um okkar börn. Enginn siglir sléttan sjó í gegnum lífið og á erfiðum stundum hef ég fundið sterkt fyrir því hvað starfið í Reglunni og bræðurnir hér hafa gefið mér. Hjón þurfa að átta sig á nauðsyn þess að leggja rækt við grunninn, hjónabandið og fjölskylduna. Og svo má ekki gleyma því að eiga góðar stundir  saman! Við höfum haft mikinn áhuga á náttúrunni og eigum jörð á Breiðafirði ásamt öðrum þar sem við höfum sinnt æðarrækt, hlúð að fuglinum, stundað dúntekju og verið í mikilli útivist. Konan mín er doktor í sjávarlíffræði og starfar sem sérfræð­ingur í lindýrum á Hafrannsóknastofnun. Rannsóknir hennar hafa gefið okkur tilefni til útiveru og ferðalaga, börnin voru oft með í slíkum ferðum.

Auk alls annars hef ég í frístundum stundað trjárækt og nautgriparækt á jörð sem við eigum ásamt öðrum hjónum í Mýrdalnum. Þar erum við með Galloway-ræktun og plöntum nokkur hundruð trjáplöntum á hverju ári með aðstoð barnabarnanna, sem fá svo að njóta þess að sjá hvernig landið breytist og batnar við ræktun.“

Ekki hægt að kvarta undan ­mætingum mínum

Talið berst nánar að starfi Kristjáns í Frímúrarareglunni./i>

„Ég var áður í Rótarý hreyfingunni og m.a.s. einn af stofnfélögum Rótarýklúbbsins í Mosfellsbæ, en mæt­inga­skyldan sem þar var þá hentaði mér illa þar sem ég var að byggja mér hús og var í annasömu starfi sem aðstoð­arlæknir. Ég gekk í St. Jóh.st. Eddu 1984 og þótt hér sé engin mætinga­skylda hefur ekki verið hægt að kvarta yfir mætingum mínum hér! Frímúr­ara­starfið hefur fært mér mikla gleði og ég hef alla tíð verið duglegur að sækja fundi og sinnt ýmsum embættum, bæði í Jóhannesar- og Andrésar­stúkunni, en einnig í Landsstúkunni. Ég starfaði lengi í St. Andr.st. Helgafelli og gegndi þar ýmsum embættum, allt þar til að ég fékk það verk­efni að stofna nýja St. Andr.stúku, St. Andr.st. Heklu. Við unnum að undirbúningi stofnunarinnar í u.þ.b. ár og stúkan var svo stofnuð 20.02.2002. Þar var ég Stólmeistari í 6 ár þar til ég varð R&K.“

Hef notið þess að vera hér

En af hverju gekk Kristján Þórðarson í Frímúrararegluna á Íslandi?

„Ég naut engrar guðlegrar leiðbeiningar í þeim efnum! Ástæðan var sú að ég þekkti marga góða menn í Reglunni og spurði þá hvort þeir teldu að ég ætti eitthvert erindi þangað. Meðmælendur mínir, Sigurður Sigur­geirsson, þáverandi Stm. í St.Jóh.st Eddu, og sr. Gísli Brynjólfsson, studdu mig á þessari vegferð. Sigurð hafði ég þekkt frá barnæsku og verið heimagangur hjá honum þar sem sonur hans, Sigurgeir, var vinur minn  og skólabróðir. Ég kunni strax vel við mig í Reglunni og hef notið þess að vera hér.“

Kristján Þórðarson SMR
Kristján Þórðarson SMR

Fjölskyldan skiptir miklu máli

Hvað finnst þér starfið hafa gefið þér?

„Ég tel að ég sé þroskaðri og betri maður, yfirvegaðri og rólegri, en það hefði kannski komið hvort sem er. En eins og við þekkjum, þá er eitt af markmiðum Reglunnar að gera góða menn enn betri. Ég held að það takist í flest öllum tilvikum. Bræður  þurfa auðvitað að vinna í því og keppa að því marki, enda gerist þetta ekki alveg af sjálfu sér! Fjölskyldan skiptir auðvitað miklu máli í þessu samhengi,  hversu mikið bræður  geta sinnt starfinu  og hver skilningur fjölskyldunnar er á því.“

Vill efla enn frekar tengsl ­Reglunnar við bræðurna

Hverjar verða helstu áherslur þínar í embætti SMR?

„Ég vil leggja mig fram um að efla enn frekar tengsl Reglunnar við bræðurna. Reglan er fyrst og síðast bræðurnir sem byggja hana upp. Það þarf að vera gott samband milli SMR og bræðranna til að þetta geti yfirleitt gengið upp. Við þurfum að kappkosta að fá góða menn til liðs við okkur, unga menn en þó þroskaða. Nú er svo mikið framboð af alls konar félagsmálum að það er keppni um alla góða menn. Miklu skiptir að bræður séu góðir fulltrúar Reglunnar út á við og séu reiðubúnir til að greiða götu þeirra sem vilja knýja á um inngöngu. Ég tel að bræður  hafi hér áður  gengið of langt í því að þegja um starfið  í Reglunni. Reglan hefur síðustu ár opnað dyrnar meira, sem er gott enda fer hér ekkert fram sem er andstætt landslögum eða góðum siðum. Ásýndin skiptir máli en inntak starfsins er þó alltaf númer 1, 2 og 3. Á síðari árum hefur Regluheimilið  verið opnað fyrir heimsóknum úr ýmsum áttum og starfið kynnt á ýmsa lund. Ég tel jákvætt að Regluheimilið  hafi t.d. verið opið á menningarnótt, enda skapar það góða tilfinningu meðal þeirra sem hingað koma, skoða húsið og fræðast um starfið. Heimasíða Reglunnar hefur einnig verið spor í rétta átt.“

Frímúrarareglan hefur hlutverki að gegna

Hvaða erindi á félagsskapur eins og Frímúrarareglan á Íslandi nú á tímum?

„Í róti þjóðfélagsins, þar sem  hver höndin er uppi á móti annarri, er  þörf fyrir  félagsskap þar sem góðir menn hittast. Við stöndum frammi fyrir því að komið er  rót á kristna trú, sem þó er grundvöllur og kjarni okkar samfélagsgerðar og hefur verið um aldir. Sá kjarni er dýrmætur og má ekki tapast. Frímúrarareglan á Íslandi hefur þar hlutverki að gegna. Lög okkar og þjóðfélagið allt nýtur  góðs af þessu gildismati.  Okkur ber að hlúa betur að þessum grunni. Það getum við gert án yfirgangs, hroka og vandlætingar.“

Viltu nefna eitthvað fleira sem þú hefur á stefnuskránni í þessu hlutverki?

„Já, ég vil gjarnan halda áfram að efla og styrkja tengsl við frímúrara­reglur í öðrum löndum, sérstaklega við hin Norðurlöndin en samstarfið þar  hefur verið mjög náið og gott. Alþjóðlegt samstarf hefur aukist á síðari árum, sérstaklega eigum við í góðu samstarfi við Norður-Evrópu og England og höldum einnig sambandi við Bandaríkin. Við finnum að það er kraftur í frímúrarastarfi á heimsvísu.“

Okkur ber að bjóða fram útrétta hönd

Sérðu fyrir þér að Reglan geti verið virkari á almennum vettvangi, t.d. með því að rétta hjálparhönd til þeirra sem glíma við einsemd, þunglyndi, kvíða og finna lífi sínu ekki tilgang?

„Viðfangsefnið er hvernig Reglan getur náð til þeirra sem eru illa staddir. Menn verða sjálfir að knýja á um að komast inn í reglustarfið. Hver og einn bróðir ber ábyrgð að þessu leyti. Okkur ber að bjóða fram útrétta hönd til þeirra sem standa höllum fæti og  til þeirra sem við teljum að ættu erindi hingað inn. Það gerist sjaldan – en gerist þó – að einhver banki hér upp á einn og óstuddur. Reglan getur orðið jákvætt afl í lífi manna.“

Þegar samtali okkar Kristjáns lýkur er hann að undirbúa næstu embættisferð sína sem SMR, en dagskráin er þétt og ljóst að embætti SMR hlýtur á stundum að vera mjög annasamt. Kristján neitar því ekki:

„Eftir að ég var kjörinn SMR má segja að ég hafi skipt um gír. Ég minnkaði við mig á augnlæknastofunni og fór í hálft starf, en svo er ég hér í Regluheimilinu eftir hádegið. Mikill tími  fer í starfið hér innanhúss. Ég gæti sjálfsagt skautað léttar yfir margt, en ég vil setja mig vel inn í öll mál. Það er í mörg horn að líta í þessu samhengi; alls konar skipulagsatriði, ferðalög og fleira. En ég hef gaman að þessu. Ég væri ekki að þessu öðru vísi!“

Viðtalið er upprunalega birt í Frímúraranum, 
1. tbl. 16. árg.
Blaða­maður: Arnar Þór Jónsson