Nokkur félög háskólanemenda hafa undanfarið sýnt mikinn áhuga á að heimsækja Frímúrararegluna og kynnast starfsemi hennar. Það sem af er þessu starfsári hafa þrjú nemendafélög komið í heimsókn, nú síðast nemendafélagið Fróði, félag sagnfræðnema, sem heimótti Regluheimilið föstudaginn 21. mars.
Gestirnir voru mættir kl. 16 og hófst þá kynning á starfsemi Reglunnar sem var í höndum br. Jóhanns Heiðars Jóhannssonar og br. Guðmundar Kr. Tómassonar. Að því loknu var boðið upp á óformlegt spjall og svör við spurningum gestanna. Síðan var gengið um opin rými, kíkt í hátíðarsal Reglunnar þar sem Frímúrarakórinn hafði nýlokið æfingu fyrir tónleika sína laugardaginn 22. mars sl. Þá var Jóhannesarsalurinn skoðaður. Að lokum var Minjasafn Reglunnar skoðað undir leiðsögn br. Einars Thorlacius og gestirnir yfirgáfu síðan Regluheimilið margs vísari um kl. 18:30. Á meðan á kynningunni stóð var boðið var upp á brauð- og sætmeti frá br. Sigurði Má Guðjónssyni bakara.
Rétt er að vekja athygli bræðra á að Fræðaráð getur skipulagt almenna upplýsinga- og kynningarfundi fyrir hópa sem áhuga hafa á að kynna sér Regluna og starfsemi hennar. Hafa má samband við oddvita Fræðaráðs br. Guðmund Kr. Tómasson fyrir nánari upplýsingar.
