Nokkur félög háskólanemenda hafa undanfarið sýnt mikinn áhuga á að heimsækja Frímúrararegluna og kynnast starfsemi hennar. Það sem af er þessu starfsári hafa tvö nemendafélög komið í heimsókn. Nítján nemendur í nemendafélagi Tónlistardeildar Listaháskóla Íslands (Fermata) heimsóttu Regluheimilið föstudaginn 24. janúar sl. og viku síðar komu sautján nemendur í nemendafélagi heimspekinema (Soffia).
Gestirnir voru mættir kl. 16 og hófst þá kynning á starfsemi Reglunnar sem var í höndum br. Jóhanns Heiðars Jóhannssonar, br. Magnúsar Eðvalds Halldórssonar og br. Guðmundar Kr. Tómassonar. Að því loknu var boðið upp á óformlegt spjall og svör við spurningum gestanna. Síðan var gengið um opin rými og starfssalur skoðaður. Að lokum var Minjasafn Reglunnar skoðað undir leiðsögn br. Einars Thorlacius og gestirnir yfirgáfu síðan Regluheimilið margs vísari um kl. 18:30. Á meðan á kynningunni stóð var boðið var upp á brauð- og sætmeti frá br. Sigurði Má Guðjónssyni bakara.
Það kom mörgum gestum án efa á óvart að einn af þeim sem önnuðust kynninguna var 27 ára gamall ungbróðir en tæpt ár er síðan br. Magnús Eðvald gekk í Regluna og stúkuna Fjölni. Lýsti hann upplifun sinni af stúkustarfinu á þessu fyrsta starfsári.
Fleiri nemendafélög hafa lýst yfir áhuga á að koma í heimsókn og reynt verður að finna tíma fyrir þær síðar á starfsárinu, eftir því sem aðstæður leyfa.
Rétt er að vekja athygli bræðra á að Fræðaráð getur skipulagt almenna upplýsinga- og kynningarfundi fyrir aðra hópa sem áhuga hafa á að kynna sér Regluna og starfsemi hennar. Hafa má samband við oddvita Fræðaráðs br. Guðmund Kr. Tómasson fyrir nánari upplýsingar.

