Á menningarnótt efndi Frímúrarareglan til opins húss í regluheimilinu við Bríetartún. Var það gert í tilefni þess að 100 ár eru nú liðin frá því að bókasafn Reglunnar tók til starfa. Í tengslum við opnunina var sett upp sýning sem ber yfirskriftina Frímúrarareglan – söfn og saga.
Um 1.700 gestir lögðu leið sína í Bríetartún í tilefni dagsins en sýningin stóð almenningi opin milli 11:00 og 15:00. Jafngildir aðsóknin því að sjö gestir hafi farið um sýninguna á hverri mínútu meðan opnunin varði.
Sýningin var í grófum dráttum þrískipt. Í forsal veislusala á jarðhæð var búið að koma upp ítarlegu yfirliti yfir sögu og þróun Reglustarfsins hér á landi auk ýmiskonar fróðleiks sem varpar ljósi á starfið með myndrænum og athyglisverðum hætti.
Þá gátu gestir skoðað húsakynnin, m.a. skjaldarmerkjasal, skrifstofu Stórmeistara og fundarherbergi æðstaráðs Reglunnar. Ljóst er að skjaldarmerki bræðra, sem prýða stigagang sem liggur frá jarðhæð og upp í skjaldarmerkjasal og hátíðarsal, vöktu mikla athygli gesta sem rýndu í þau tákn og einkunnarorð sem þar er að finna.
Í þriðja lagi höfðu öll söfn Reglunnar komið í sameiningu upp glæsilegri sýningu í hátíðarsal og þar mátti berja augum merka gripi og skjöl sem tengjast Reglunni og eru í hennar eigu. Má þar helst nefna Guðbrandsbiblíu frá 1584, málverk eftir Jóhannes Kjarval, auk fyrstu fundargerðabókar Eddu, ljósmyndum úr safni og borðsilfur það sem nýverið fannst í fórum Reglunnar og ber hið fágæta skjaldarmerki Ásmundar Sveinssonar, sem smíðað var í tilefni alþingishátíðarinnar 1930.
Á meðan opna húsinu stóð léku söngstjórar á vettvangi Relgunnar á flygil sem staðsettur er í fordyri skjaldarmerkjasalarins. Setti það hátíðlegan svip á daginn sem þótti heppnast afar vel í alla staði.
Fjöldi bræðra lagði hönd á plóginn, bæði við undirbúning þessa dags og stóðu sömuleiðis vaktina meðan húsið stóð opið. Margar hendur vinna létt verk og enn á ný sýndi bræðrahópurinn hvers hann er megnugur.
Má ljóst vera að margir hafa fengið nýja og betri sýn á Frímúrararegluna þennan dag.
Meðfylgjandi myndir tók br. Jón Svavarsson meðan á deginum stóð.