Heilbrigð­is­ráðu­neytið gefur út nýja reglugerð sem tók gildi 10. maí 2021 Sjá nánar.

Vorið kemur heimur hlýnar

Sumar­dag­urinn fyrsti er á næsta leiti

Bróðir okkar Kristján Davíðsson fékk sér morgun­göngu með hundinum Lísu í Undralandi að morgni 20. apríl á því undarlega ári 2020. Hughrif göngunnar er að finna í Fésbókar­færslu frá honum. Full af gleði og von eins og hans er vísa.

Örfáum dögum eftir að lífvana, helkalt og nístandi norðan fárviðrið með snjókomu og hvínandi skafrenningi ofan af jöklum miðhá­lend­isins er loksins gengið niður er skyndilega, rétt eins og hendi sé veifað, komið ilmandi vor með suðaustanáttinni og rakt og vorhlýtt stafalogn og loftið er hreinlega þrútið af iðandi lífi, sem ber með sér loforð um og þakkar­gjörð fyrir bjartari tíð með blóm í haga. Bólgin brum á runnum og trjám þakka fyrir hlýnunina, rakann og vaxandi birtuna með því að búast til að springa og breiða úr ljósgrænum lauflöðum.

Hrafnar sem eru óðum að para sig sveima um gargandi af gleði og sjá sér út vænlegan stað fyrir laup ársins.

Ótrúlega bústnir þrestir sitja í nánast öðrum hverjum trjátoppi sunnan við hús, á milli þess sem þeir stinga sér eins og sundkappar til flugs í geggjaðri meist­ara­keppni um athygli hins kynsins, allir kappsyngjandi og sumir hverjir strax byrjaðir bygging­ar­fram­kvæmdir af kappi.

Maríu­erlan er líka mætt og þótt hún sé að eðlisfari hlédræg vinkar hún vinalega með síkviku stélinu fyrir utan gluggann, svona eins og til að láta vita af komu sinni, áður en hún stingur sér í felur undir húsið til að byggja aftur á hreið­ur­stæðinu frá því í fyrra.

Gjallandi stelkar og stéls­mellandi hrossa­gaukar steypast um loftið í tilsýndar geggjaðri gleði í æðisgenginni fegurð­ar­sam­keppni, fyrst í hópum og svo í pörum, eins og vera ber.

Meira að segja okkar góða kría er komin langt sunnan úr heimi og þyrlast eins og risavaxinn engisprettu­svermur yfir sandinum á árbakkanum, í ofurhraðri keppni um bæði maka og hreið­ur­stæði.

Túnin eru þakin álftum og gæsum að hvíla lúin bein eftir langflugið yfir hafið og heim og nærast í leiðinni á nýsprettandi jarðar­gróðri áður en þær fljúga í misstórum flokkum í vísindalega og loftfræðilega hannaða vafflaga oddafluginu inn á hálendið til hreið­ur­gerðar og fjölskyldulífs.

Og yfir þessu öllu sveimar tignar­legur fálkinn ofur rólega uppi í hæstu hæðum, líklega að sjá út hvar verður best að finna girni­legustu bráðina til að ala með komandi kynslóð unga.

Einn fugl er þó svolítið eins og hálf utanveltu í allri þessari galsa­fengnu gleði og blússandi tilhugalífi, nefnilega blessuð rjúpan. Fyrir nokkrum dögum kom hún út úr hvítu fárviðrinu, ósýnileg og ein á ferð. Nú vappar hún um vorgulan móann þar sem hún faldi hreiðrið sitt í fyrra og leitar að sálufélaga til að byggja með hreiður í ár og ala með ungahóp. Enn er hún nánast skjannahvít, ein eða tvær dröfnur komnar á fínu dragtina og skæri rauði liturinn um augun er á sínum stað. Stöku sinnum flýgur hún upp, eins og við truflun og þá brakar eða marrar í henni, eins og hún sé að láta vita að hún sé nú komin hingað, tilbúin í ástar­ævintýri, hjónaband og barna­uppeldi.

Sumar­dag­urinn fyrsti er á næsta leiti og vonandi rætist úr fyrir henni og vorar á ný í hennar lífi, rétt eins og rættist úr veðrinu hér.

Eldra efni

Páskahugvekja 2021
Óheppin ár
Einstakur vinafundur
Vinafundur Fjölnis

Innskráning

Hver er mín R.kt.?