Bræðralag sem hefur mannrækt að markmiði

Bræður í Regluheimili Frímúrarareglunnar á Íslandi.
Bræður í Regluheimili Frímúrarareglunnar á Íslandi.

Fyrsta frímúrarastúkan á Íslandi var stofnuð í janúar árið 1919 en hún starfaði innan dönsku Frímúrareglunnar. Frímúrarareglan á Íslandi var stofnuð 23. júlí 1951 og í dag eru félagsmenn um 3.500 talsins um allt land. Fundir eru haldnir reglulega í félagsheimilum sem staðsett eru víða um land, þar koma félagar í Frímúrarareglunni saman og funda eftir svo kölluðu stigkerfi. Frímúrarareglan er ekki leynifélag eða hagsmunahópur, en byggir starf sitt og tilveru á kristnum grundvelli þar sem boðið er upp á leiðir til andlegs þroska, vaxtar, íhugunar og tækifæri til að taka sér frí frá áreiti hins daglega lífs.

Frímúrarareglan tekur enga afstöðu í stjórnmála-, trúar- eða hagsmunadeilum í þjóðfélaginu, er óháð öllum en lýtur löglegum yfirvöldum hér á landi. Félagar í Frímúrarareglunni stunda einnig fjölbreytt félagsstarf, en innan hennar eru til að mynda starfandi ferðafélög, mótorhjólaklúbbur, hjólaklúbbur, golfklúbbur og fótboltaklúbbur.