Vorferð Helga­fells — Myndir

Hvalfjörður, 18. maí 2019

Laugar­daginn 18. maí sl. fór föngu­legur og vaskur hópur Helga­fells­bræðra og –systra í hina árlegu vorferð sína. Að þessu sinni lá leiðin um Kjalarnes, og fagrar og söguríkar sveitir Hvalfjarðar. Allir þátttak­endur höfðu orð á því að þetta hefði verið ein besta vorferð Helga­fells. Þáttak­endur voru um fimmtíu, leiðsögumenn þau Einar Kristinn Jónsson og Ingigerður Anna Konráðs­dóttir, og hinn ljúfi bílstjóri okkar eins ávallt Matthías Daði Sigurðsson.

Á leið okkar út úr borginni var áhugavert að fræðast um jarðfræði Esjunnar og megin­eld­stöðv­arnar í nágrenni borgar­innar, svo og jöklana á ísöld, sem allt hefur mótað lands­lagið eins og við þekkjum það í dag, og jafnframt fært okkur jarðhitann á höfuð­borg­ar­svæðinu. Á Kjalarnesi var farið yfir sögu hinna kristnu landnáms­manna, sem hér settust að, bæði Örlyg Hrappsson og Helga bjólu, bróður Auðar djúpúðgu, og hin keltnesku áhrif sem víða er hér að finna (þeir gætu allt eins hafa orðið Frímúrarar!).

Þegar komið var inn í mynni Hvalfjarðar fræddumst við um jarðmyndun fjarð­arins, af áhrifum skrið­jök­ulsins sem hér var og skildi eftir sig djúpt lón hið innra, en grynn­ingar í fjarð­ar­mynninu, sem Hvalfjarð­ar­göngin eru byggð á. Við fræddumst líka um mikilvægi iðnaðar sem einnar af þremur megin­stoðum efnahags­lífsins og um iðnað­ar­svæðið á Grund­ar­tanga, m.a. um notkun áls héðan í Mercedes-Benz bifreiðar, og áhuga­verða nýsköpun járnblendi­verk­smiðj­unnar í tengslum við græna orkugjafa.

Þegar inn í Kjós var komið, blasti Laxvogur við okkur og Maríuhöfn, þar sem var einn umfangs­mesti hafnar­staður landsins fram á 14. öld. Þar var fyrsti áning­ar­staður okkar og boðið upp á morgun­hressingu. Þó að við hefðum lagt af stað úr Reykjavík í tvísýnni veðurspá um dumbung og rigningu, þótti okkur öllum merkilegt að í Maríuhöfn braust sólin fram og gæddi stopp okkar mikilli hjarta­hlýju.

Þegar komið var yfir Reyni­valla­hálsinn fórum við fram hjá Hvammsvík og áttum hlýlega áning­ar­stund við Steðja (Staupa­stein), sem um margt minnir á biðjandi hendur. Útsýnið hér er einstakt yfir fjörðinn og við fræddumst um þá miklu starfsemi sem hér fór fram á árum síðari heims­styrj­ald­ar­innar, þ.e. í Hvalfirði, í Hvammsvík, á Hvítanesi og Miðsandi. Þegar komið var fyrir mynni Brynjudals og inn í Botnsdal blasti við okkur Hvalfellið, rifjuð var upp saga illhvel­isins Rauðhöfða, og saga Geirs­hólma sem hér blasir við. Við hvalstöðina fræddumst við um sögu hennar og hvalveiða á Íslandi.

Að loknum ljúffengum hádeg­is­verði í Hótel Glym var haldið í Hernáms­setrið að Hlöðum í Hvalfjarð­ar­sveit þar sem Gauji litli tók á móti okkur og fræddi okkur um safnið, sem hann hefur byggt upp af mikill ástríðu. Þar á eftir heimsóttum við Hallgríms­kirkju í Saurbæ þar sem Jón Valgarðsson formaður sóknar­nefndar tók á móti okkur og fræddi okkur um sögu kirkj­unnar og kenni­leiti á staðnum tengdum Hallgrími Péturssyni, sem hér þjónaði í tvo áratugi og samdi hér m.a. Passíusálmana. Að því búnu heimsóttum við Brugg­húsið að Kalastöðum, fræddumst um nýsköp­un­ar­starfsemi, sem þar fer fram, og gæddum okkur á afurðum þeirra.

Þrátt fyrir dumbungs- og rigning­arspá dagsins rættist hún ekki hót fyrr en komið var aftur inn í Kolla­fjörð. Öll vorum við sammála um að vel hafi til tekist og við einkar ánægð með daginn. Ferðanefndin hafði veg og vanda af skipu­lagningu þessarar skemmtilegu og fróðlegu vorferðar, og færum við þeim Þórði Heimi Sveinssyni, Magnúsi Inga Stefánssyni og Sigmari Gíslasyni okkar innlegustu þakkir fyrir.

Við hlökkum öll til næstu ferðar!

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?