Heilbrigð manneskja á sér þúsund óskir, veikur maður eina, er spakmæli sem þau þekkja vel sem hafa upplifað að missa heilsuna. Ekki síst nú á tímum kófsins er okkur gjarnan og eðlilega tíðrætt um heilsuna. Áhyggjur af eigin og annarra líkamlegu og ekki síður andlegu heilsu kannast margir við um þessar mundir. Enginn vill fá bévítans flensuna og flestir vilja eitthvað á sig leggja til að verjast vágestinum.
Eftir óvissu í byrjun hefur þekking á smitgát aukist eftir því sem tíminn líður og reynsla byggist upp. Ýmis góð ráð eru orðin vel þekkt og fagorð læknavísindanna, sem mörg hver eru okkur óinnvígðum sum hver eins og nýyrði eru orðin okkur töm í munni. Grímuskylda, sóttkví, sóttvarnaþreyta og mörg fleiri álíka þykja orðið jafn sjálfsögð og sú nýbreytni að núorðið er það talið til fyrirmyndar að mæta neikvæður og ilmandi af alkóhóli til vinnu. Við erum hætt að taka í hendina á fólki, rekum í besta falli olnbogann í næsta mann og erum búin að steingleyma að mamma harðbannaði það í uppeldinu, að viðlögðum brottrekstri frá matarborðinu. Öðru vísi mér áður brá. Fundarhöld og ferðalög hafa nánast aflagst, alls kyns fjarvinna, streymi og fjarfundir hafa komið í staðinn.
Eftir því sem tíminn líður koma áhrif þessarar nýju hegðunar á heilsuna betur í ljós, bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar. Sýklalyfjanotkun minnkar og smákvillum fækkar, við erum loksins búin að læra að þvo okkur almennilega um hendurnar og alls kyns smitnæmar pestir hafa snarminnkað. Í apótekum tæmast vítamínhillur hraðar, ekki síst lýsi og D-vítamín selst vel, eftir að fréttir af góðum áhrifum þess á ónæmiskerfið hafa birst. Gönguferðum og samverustundum innan fjölskyldna hefur fjölgað og bækur, spil og leikir hafa í auknum mæli verið dregin fram úr misrykugum hillum. Nýtt G vítamín er komið fram á sjónarsviðið, í boði Geðhjálpar, frábært framtak sem vert er að gefa gaum að og tileinka sér.
Mikilvægi mannlegra samskipta eru gömul sannindi og ný, margsönnuð vísindalega og þekkja flestir á eigin skinni að það er gott að eiga góða að, sem hægt er að leita til. Einn er maðurinn bara hálfur og með öðrum meiri en hann sjálfur.
Fjölbreytilegir mannfagnaðir og mannamót hafa liðið illilega fyrir smitgátina. Leikhúsferðir, tónleikar, þorrablót, árshátíðir, systrakvöld, vinafundir, listinn er langur yfir starfsemi í dróma þessi misserin. Maður er manns gaman og félagsleg einangrun er óholl og slæm fyrir bæði andlega og líkamlega heilsu. Ýmis góð ráð eru þó í boði og á mörgum sviðum. Aukin meðvitund er um nauðsyn jákvæðra viðbragða við þyngra andlegu álagi sem óneitanlega fylgir kófinu og áhyggjum af því, svo sem um mikilvægi hvíldar, góðrar samveru við fólkið sitt, góðs mataræðis, ræktunar andans og jákvætt viðhorf til lífsins. Við þurfum að þrauka um sinn og læra að fást við dag í senn, eitt andartak í einu.
En öll él styttir upp um síðir og eftir tilkomu bóluefnis eykst okkur bjartsýni og með hækkandi sól sjáum við fram á bjartari tíma í bæði eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Við hjónin fórum í leikhús á dögunum í fyrsta skipti í langan tíma. Með grímur og tveggja metra bili sáum við leiktritið «Vertu Úlfur» sem fjallar á áhrifamikinn hátt um líf manns með geðsjúkdóm. Verkið er á allan hátt vel gert og hiklaust hægt að mæla með því. Upplifunin sjálf, að komast loks aftur í leikhúsið, var ekki síst dásamleg og mér leið svolítið eins og ég væri að koma úr djúpu kafi aftur upp á yfirborðið þar sem súrefni er nægt. Dásamleg tilfinning!
Aldraðir og sjúkir á stofnunum hafa nú loks fengið bóluefni og þau okkar sem þekkja til þar finna léttinn og feginleikann yfir að mega loks aftur hitta ástvini og jafnvel fara af bæ, í bíltúr eða út að ganga. Það styttist óðum í að röðin komi að okkur hinum og á endanum fáum við aftur þéttingsfast handartak, faðmlag og koss. Við megum ekki gleyma varkárninni, sem hefur komið samfélagi okkar svo vel undan vetri sem raun ber vitni, alveg strax. Fyrst er að þreyja Þorrann og Góuna og svo kemur vorið með betri tíð og blóm í haga. Síðasti dagur Þorra, Þorraþræll er í dag (20. febrúar). Hann var jafnan feginsdagur til forna, enda harðasta vetrarmánuðinum þar með lokið og bjartara framundan.
Ég óska okkur öllum góðrar heilsu og bjartra daga framundan.
Kristján Davíðsson