Öll starfsemi innan Frímúrarareglunnar tímabundin stöðvuð — Uppfært 19. október Sjá nánar.

Þolinmæði þrautir vinnur allar

Það fer ekki framhjá neinum að þetta eru óvenju­legir tímar sem við upplifum núna. Veiran skæða stingur sér niður þegar síst varir og þurfum við því að hafa varann á. „Þreyja þorrann“, ef svo má segja.

Undir venju­legum kring­um­stæðum værum við nú fullir tilhlökkunar að bjóða nýjan bróður velkominn í keðjuna okkar, en af því verður ekki um sinn. Þó að haustið boði hjá flestum upphaf að endi ársins þá er það hjá okkur bræðrum eiginlegt upphaf, sem markast af tilhlökkun, kærleik og fallegum boðskap.

Á einum af fundum þríeyk­isins svonefnda nýverið kom fram að það sem kæmi okkur í gegnum þessa erfiðu tíma væru þolinmæði og þraut­seigja og það eru vísast orð að sönnu og ætti ekki að koma okkur frímúr­ar­bræðrum á óvart. Það hefur eitt og annað verið ritað um þolin­mæðina og eflaust er máltækið um að hún þrautir vinni allar þekktast. En það eru ekki einungis þraut­irnar sem þolin­mæðin vinnur á. Leonardo da Vinci sagði eitt sinn þegar hann stóð framan við ófægðan marmara úr nálægri námu að eftir því sem meira væri slípað af þeim steini kæmi myndin skýrar í ljós. Í því felst speki sem við getum eflaust tengt við.

Að temja sér þolinmæði getur líka skilað sér í kærleika gagnvart náunganum og á tímum sem þessum skiptir þessi dyggð miklu máli. Ég rakst á sögu á dögunum, sem mig langar að deila með ykkur.

Leigu­bíl­stjóri í borginni sem aldrei sefur var að fara í síðustu ferð dagsins. Hann flautaði utan við húsið til að láta vita af sér – og beið – en enginn lét sjá sig. Hann flautaði aftur og íhugaði að láta þetta gott heita og halda heim á leið. Hann ákvað að lokum að leggja bílnum og fara að dyrunum.

Hann bankaði og heyrði eldri rödd segja, „Andartak.“ Töskur voru auðheyr­anlega færðar til á gólfinu og að lokum opnuðust dyrnar.

Fyrir innan var smávaxin kona á tíræðis­aldri með góðlegt bros, klædd mynstruðum kjól og með hatt. Fyrir innan var eins og enginn hefði átt þarna heima í áraraðir. Húsgögnin voru þakin lökum, veggirnir auðir og engir smáhlutir á borðum.

„Værirðu svo vænn að bera fyrir mig töskurnar?“ spurði konan.

Leigu­bíl­stjórinn leiddi hana rólega niður tröpp­urnar að stéttinni fyrir utan og að bílnum.

Þegar þau komu í bílinn lét hún hann hafa heimil­is­fangið með ákvörð­un­ar­staðnum og spurði bílst­stjórann hvort hann gæti ekið um miðbæinn. „Það er ekki stysta leiðin“ svaraði hann. „Það er allt í lagi“ svaraði hún. „Ég er ekkert að flýta mér. Ég er á leiðinni á líknar­deildina…“

Bílstjórinn og farþeginn horfðust í augu í baksýn­is­speglinum. Hún sá að honum var brugðið og sagði:

„Ég á enga fjölskyldu lengur og læknirinn minn segir að ég eigi ekki mikið eftir.“

Bílstjórinn slökkti á gjald­mælinum og spurði konuna, „ Hvað leið langar þig að fara?“

Næstu tvær klukku­stundir keyrðu þau um borgina. Hún sýndi honum hvar hún hafði einu sinni unnið, hverfið þar sem hún og eignmaður hennar bjuggu fyrstu búskap­arárin, húsgagn­verslun sem eitt sinn var dansstaður þegar hún var ung stúlka. Í sumum hlutum borgar­innar bað hún bílstjórann að hægja á sér og starði út í myrkrið án þess að mæla orð frá munni.

Skyndilega sagði hún, „Ég er þreytt. Drífum okkur.“

Þegar þau komu á áfangastað var tekið á móti henni af tveimur starfs­mönnum sem augljóslega höfðu verið að bíða eftir henni. Bílstjórinn sótti töskurnar í skottið á bílnum og þegar hann lokaði skottinu var hún komin í hjólastól.

„Hvað skulda ég þér?“ spurði hún og teygði sig í veskið.

„Ekkert“ sagði bílstjórinn. „En þú þarft að eiga fyrir salti í grautinn“ svaraði hún. „Það koma aðrir farþegar“ sagði hann.

Án þess að hugsa beygði hann sig og faðmaði gömlu konuna. Hún faðmaði fast á móti.

„Þú veittir gamalli konu andartaks ánægju“ sagði hún. „Þakka þér fyrir.“

Bílstjórinn þrýsti hönd hennar að lokum og þau hurfu í sitt hvora áttina. Þegar hann kom að bílnum leit hann í átt að dyrunum en þær höfðu lokast.

Hvað ef konan hefði fengið úrillan og óþolin­móðan bílstjóra? Hvað ef sá sem kom að heimili hennar þetta kvöld hefði ekki farið út úr bílnum og bankað á dyrnar? Ekki tekið það í mál að keyra hana um borgina?

Bílstjórinn gat ekki hætt að hugsa um hvað þetta andartak í hans lífi – og hennar – skipti miklu máli.

Allt sem við gerum skiptir í raun máli, en við vitum það ekki fyrr en á reynir hver áhrifin eru. Smáir hlutir virðast oft þarflitlir eða engu máli skipta, en smá þolinmæði, eins og í sögunni hér að ofan, sýnir að litlu hlutirnir í lífinu eru oft stórir.

Við gætum gefið okkur meiri tíma til að hlusta betur á þá sem standa okkur næst, maka eða foreldra, tala við og lesa fyrir börnin, ræða við nágrannana. Það er aldrei að vita hverju það gæti skilað, en mjög sennilega einhverju uppbyggilegu og mannbætandi.

 

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?