Öllum fundum á vegum Reglunnar hefur verið frestað til og með 27. apríl 2020. Sjá nánar.

Stórkostlegt systra­kvöld Stt. Mímis og Fjölnis — Myndir

15. febrúar 2020

Systra­kvöld Mímis og Fjölnis 15. feb 2020

Að venju héldu Stt. Mímir og Fjölnir systra­kvöld saman og var ekki annað að heyra á brr. og systrum að kvöldið hafi tekist afbragðs vel. 350 gestir mættu í hús og hófst dagskráin með fallegri og skemmti­legri stund í hátíð­arsal Reglunnar. Þar leiddi Stm. Mímis, Guðmundur R. Magnússon, með því að bjóða alla velkomna í hús. Br. Eiríkur Ronald Jósefsson talaði til gesta og kvennakórinn Katla kom öllum skemmtilega á óvart með frábærum flutningi á nokkrum lögum.

Því næst var systrum boðið að heimsækja Jóhann­es­ar­salinn, þar sem þær fengu tækifæri að spyrja Stmm. Stt. spjörunum úr um starfið, Regluna og annað sem þeim hugnaðist. Á meðan hinkruðu brr. og tóku svo aftur á móti þeim, meðan farið var yfir lokaund­ir­búning á matsalnum. Eftir að dyrnar í matsalinn voru opnaðar og allir höfðu fundið sitt sæti hófst síðan formleg kvöld­dagskrá undir stjórn Stm. Fjölnis, Leópolds Sveins­sonar.

Kvöldið var fullt af skemmti­legum uppákomum, ræðum, söng og augljóst var að gaman var á öllum borðum. Minni Íslands var flutt af br. Þorsteini Þorgeirssyni, þar sem hann sótti í sögu landsins og flutti landi fallega og fræðandi tölu. Br. Magnús B. Jóhannsson talaði til systra og Anna Sigríður Guðna­dóttir talaði að lokum til brr. Bæði töluðu þau greinilega frá hjartanu og það var mál manna að margir tengdu vel við orðin þeirra.

Systra­kvöld Mímis og Fjölnis 15. feb 2020

Söngfuglinn og leikk­konan Katrín Halldóra Sigurð­ar­dóttir kom og söng nokkur lög, sem Ellý Vilhjálms gerði þekkt á árum áður. Eftir dúndrandi lófaklapp, þar sem salurinn reis allur á fætur fyrir flutn­ingnum … ekki einu sinni, heldur tvisvar … var Katrínu og meðleikara hennar hleypt út og kvöldið hélt áfram.

Undir lok kvöld­dag­skrár­innar var að venju happa­drætti, þar sem ýmsir voru leystir út með verðlaunum, sem voru oft ferðalög hingað og þangað. Ýmist í versl­un­arferð niður í bæ, menning­arferð með mat út á Granda eða eins og ein heppin systir vann; ferð með br. John Snorra Sigur­jónssyni alla leið á K2. En sú heppna fylgdi John Snorra þá strax af stað, frá háborðinu að sætinu sínu aftur … sem var einmitt á borði K, sæti númer 2.

Á innri vef R. má skoða myndir frá kvöldinu.

Eftir að formlegri dagskrá lauk fengu margir sér göngu um húsið, heimsóttu brr.stofu, minja­safnið og fleiri góða staði. Stuttu seinna opnaði svo dansgólfið og hin frábæra hljóm­sveit Allt í einu hóf að spila hvern slagarann á fætur öðrum. Klukkan var orðinn ansi margt þegar síðustu pörin yfirgáfu svo danns­gólfið og stigu út í nóttina heim á leið.

Aðrar fréttir

Innskráning

Hver er mín R.kt.?