Skjálftaórói

Við sem búum hér á Reykja­nesskaganum höfum ekki farið varhluta af jarðskjálftum undan­farinna vikna. En spurn­ingin er, hvað er jarðskjálfti? Við vitum það nokkurn veginn en samt vitum við svo lítið og getum engan veginn spáð fyrir um framhaldið af nákvæmni. Forfeður okkar voru með margar skemmti­legar kenningar, svona barnatrú í raun þegar vísindi voru skammt á veg komin.  Hér er skemmtileg skilgreining frá fyrri tímum:

Fólk á Íslandi og í öðrum norrænum löndum trúði á marga guði eða goð. Loki var einn goðanna en hann var þó af ætt jötna. Loki var ódæll og stríðinn og hin goðin þurftu oft að atyrða hann. Þegar Loki kom því til leiðar að Baldur, sem var talinn bestur goðanna, var drepinn þá þótti hinum goðunum nóg komið. Þeir tóku Loka og bundu hann við steina inni í helli. Fyrir ofan hann settu þeir eiturorm þannig að eitrið úr orminum lak á andlit Loka. Kona Loka hét Sigyn. Hún stóð hjá Loka með stóra skál og lét eitur­dropana detta í hana. Þegar skálin varð full varð Sigyn að fara og hella úr skálinni. Þá draup eitrið úr orminum í andlit Loka og hann kipptist svo mikið við að Jörðin skalf. Það kölluðu menn jarðskjálfta.

Aðrar þjóðir voru líka með skemmti­legar kenningar. Í Vestur Afríku trúðu menn því að þegar ákveðinn risi faðmaði kellu sína kæmi jarðskjálfti, Kínverjar sáu fyrir sér uxa bera uppi jörðina og þegar hann færði jörðina frá annarri öxlinni yfir á hina þá yrði jarðskjálfti. Svipuð myndlíking kemur frá Kaliforníu, en þar töldu menn að skjald­bökur héldu jörðinni uppi og þegar þær syntu í sitthvora áttina eftir rifrildi þá hristist jörðin. Í Japan var það gedda, í Mongólíu var það stór froskur og á Indlandi var það samspil fíla, skjaldböku og gleraugnaslöngu sem var megin­þáttur í myndun jarðskjálfta. Já, ekki skorti ímynd­un­ar­aflið. 

Ákveðinn spenna og lotning fylgir jarðskjálftum og gosum. Allir eru spenntir og vísindamenn iða í skinninu. Þetta sameinar okkur, spurn­ingar líkt og þessar hljóma um alla ganga: „fannstu skjálftann í gær“? „Heldurðu að það fari að gjósa“? Kannski er þessi spenna tengd því að þetta er ástand sem við ráðum ekki við, þetta er engum að kenna. Við jafnvel vonumst eftir „túristagosi“ til að gleðja augað. En auðvitað eru jarðskjálftar og gos háalvarlegt mál sem ber að taka mjög alvarlega. Ekki er annað en hægt að dást að æðruleysi þeirra sem búa næst óróasvæðunum og vonandi þeirra vegna og annarra fer þessu að linna. 

Senn förum við bræður að hittast á ný, spurn­ingin er því sú hvort við munum hugsanlega upplifa jarðskjálfta á fundi? Vonandi ekki, ég treysti því að Sygin verði fljót að tæma skálina svo Loki haldi ró sinni, einnig vona ég að risinn láti vera að faðma kellu sína um sinn. 

Páll Jakob Malmberg

 

Eldra efni

Golfmót Fjölnis 2022
Því er lokið
Líður að lokum
Vorferð Fjölnis

Innskráning

Hver er mín R.kt.?