Starfsemi innan Frímúrarareglunnar tímabundin stöðvuð — Uppfært 13. janúar 2021 Sjá nánar.

Sálin og samfé­lagið

Erindi br. Hjálmars Jónssonar vRm Mímis

Hugleiðing

„Hjart­anlega hef ég þráð að neyta þessarar máltíðar með ykkur“
Þetta sagði Jesús Kristur forðum við lærisveinana. Þeir höfðu ekki getað sest niður einir saman í langan tíma. Þarna var allt í einu kominn tími til þess.

Þótt lágstemmdari atburðir í heims­sögunni séu kringum okkur en síðasta kvöld­máltíð Jesú með lærisveinum sínum er okkur sjálfsagt líka farið að lengja eftir bræðra­sam­fé­laginu, því samfélagi sem við eigum í stúkusal og regluhúsi. Okkur vantar vettvanginn til að hittast, staðinn og stundina til að vera bræður í sérstöku samfélagi. Stað sem við þekkjum svo vel og metum, samfélag sem við gengum til á sínum tíma. Þá var upp lokið leynd­ar­dómum, forvitni svalað en um leið varð okkur ljóst að margt væri enn á huldu og yrði þannig um ófyrir­sjá­anlega framtíð.

En það er eins og heimspek­ing­urinn góðkunni, Rudolf Otto, sagði um trúna, hún ætti dulda þræði og þætti. Trúin yrði ekki afgreidd út af borðinu, hún væri „mysterium tremendum et fascinosum.“ ( leynd­ar­dómur sem vekti ugg en drægi mann að sér um leið). Leynd­ar­dóm­urinn er bæði styrkur og veikleiki Reglunnar. Leynd­ar­dóm­urinn hefur aðdrátt­arafl, hann er spennandi. Forvitnin er hreyfiafl, fróðleiks­fýsnin er ástríða til að komast að hinu sanna. Og er það ekki einmitt forsendan fyrir framþróun í heiminum okkar? Og er þar ekki líka forsendan fyrir því að við öðlumst þekkingu og lífsreynslu? Að komast að hinu sanna, finna uppsprettur þekkingar, læra, fræðast til þess að öðlast visku. Eiginlega má segja þetta allt saman um alla sannleiksleit.

Nýlega er lokið frábærri sjónvarps­seríu um einn mesta vísindamann allra tíma, Albert Einstein. Um leið og hann rannsakaði heiminn og leitaðist við að skilja eðli hans kraup hann í lotningu fyrir óravíddum hans. Alla ævi sína, og ekki síður á efri árum, þegar vígbún­að­ar­kapp­hlaupið stóð sem hæst, varaði hann sterklega við að vísindunum yrði beitt gegn sköpuninni. Hann sá glögg merki þess að mannkynið væri á þeirri braut tortím­ingar að ekki einu sinni Guð gæti forðað manninum frá því að eyða sjálfum sér. Hann hvatti til ábyrgðar. Ábyrgðar hvers einstaks og hvers þjóðfélags.
Þessa sömu hugsun er að finna í eftir­farandi ljóði Gunnars Dal:

Í hvað munu mennirnir breyta manninum?
Úr þessu forna grjóti reistu sumir musteri
og aðrir kauphöll.
Úr þessu hvíta blómi vann býflugan hunang
og köngulóin eitur.
Og ávextir skiln­ingstrésins urðu sumum nýtt líf
og öðrum dauði.
Í hvað munu mennirnir breyta manninum?

Þarna eru sterkar líkingar hjá skáldinu, hin sama og okkur er tömust í Reglunni. Líkingin um bygging­ar­listina er rauði þráðurinn í kenningunni. Að við séum að höggva til steininn hrjúfa og með þá von í brjósti að úr verði sæmileg bygging, musteri, sem standist veður og vinda lífsins. Ég vitna í annan góðan mann, Ólaf G. Karlsson fv. stólmeistara okkar Mímis­bræðra. Í stúku­söngnum sem hann gaf Mími eru þessi bænarorð:

Því gef oss styrk í gleði jafnt sem þrautum
á göngu vorri austur Mímisveg.

Lifið heilir, kæru bræður.
Guð blessi ykkur og fjölskyldur ykkar.

Hjálmar Jónsson

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?