Reglu­hátíð laugar­daginn 18. janúar 2020

Fjöldi íslenskra bræðra og erlendra gesta sóttu hátíðina. Myndir á innri vef

Reglu­hátíð Frímúr­ar­a­regl­unnar á Íslandi fór fram laugar­daginn 18. janúar 2020. Uppselt var á hátíðina að vanda. Bræðrum á öllum stigum er heimil þátttaka. Vegna fjöldans er ekki unnt að koma öllum þeim sem taka þátt í hátíðinni í hátíð­ar­salinn í Reglu­heim­ilinu og því er brugðið á það ráð að fá bræður í „tækniliðinu“ til þess að setja upp flókið kerfi mynda­tökuvéla, hljóðnema og alls sem þarf til að taka upp fundinn og senda upptökuna til þeirra bræðra þurfa að vera í St.Jóhann­es­ar­salnum. Þetta er ákaflega mikið umstang, eins og allur annar undir­bún­ingur hátíð­ar­innar. 

Fjölmennt lið Siðameistara Lands­stúk­unnar er meira og minna alla vikuna á undan að vinna í húsinu að undir­búningi. Stjórn­stofa, dyraverðir og embætt­ismenn, allt á fullu. Með einstöku bræðraþeli og dugnaði gengur þessi undir­bún­ingsvél svo hljóð og örugg, að undrun sætir. Sviti, erfiði og svefn­leysi láta í minni pokann fyrir brosum, hlátri, hlýjum handtökum og faðmlögum. Svo rennur upp hin glæsilega stund – allt er tilbúið. 

Prúðbúnir bræður mættu tímalega fyrir fundinn, í kjólfötum, með borða og önnur stigtákn. Erlendir gestir, yfirmenn Frímúr­ar­a­reglnanna í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Þýskalandi og Eistlandi, auk bræðra frá USA og Grikklandi, settu hátíð­legan og virðu­legan svip á samkomuna.

Stórmeistari Frímúr­ar­a­regl­unnar (SMR) á Íslandi, Kristján Þórðarson, stjórnaði að þessu sinni fyrstu Reglu­há­tíðinni, eftir að hann tók við starfi SMR þann 26. október s.l. En bróðir Kristján, er þaulvanur stjórnandi stúkufunda, enda m.a. búinn að starfa lengi sem embætt­is­maður og Stólmeistari St. Andrésar stúkunnar Heklu og stjórna fundum í Lands­stúkunni sem Innsigl­is­vörður Reglunnar. Fjölbreytt dagskrá leið áfram, blönduð ljúfum tónum og talmáli.

Frímúr­arakórinn undir stjórn Friðriks S. Krist­ins­sonar söng nokkur lög, með og án einsöngv­aranna og bræðranna, Bjarna Atlasonar, Kristjáns Jóhanns­sonar og Valdimars Hilmars­sonar. Tónlistin var í höndum Jónasar Þóris Þóris­sonar, orgel, Hjörleifs Valssonar, fiðla og Bjarni Svein­björnsson, kontrabassi. Allt flutt með glæsibrag á heimsvísu.

Í ávarpi SMR þakkaði hann bræðrunum fyrir mikið starf á síðast­liðnu ári við undir­búning fjölmargra atburða, í tilefni 100 ára afmælis fullgilds Frímúr­ara­starfs á Íslandi,  svo sem afmæl­is­funda, útgáfu afmæl­isrita, gerð heimild­ar­myndar, opinna húsa í öllum 13 stúku­húsum á landinu og hátíð­arfund í Eldborg­arsal Hörpu ásamt fleiru. Þá hvatti hann bræður til að stunda hina konunglegu íþrótt af kostgæfni og sýna það í störfum sínum í samfé­laginu að starfið hjálpi bræðrunum til að vera betri útgáfan af sjálfum sér í daglegu amstri og brauð­striti. Einnig þakkaði hann stuðning við sig í nýbyrjuðu starfi Stórmeistara Reglunnar.

Á fundinum var kynnt ein breyting á embættum Reglunnar. Br. Þorsteinn Eggertsson sem hefur gengt embætti Stór Ritara Reglunnar frá  mars 2009, lét af störfum að eigin ósk og í hans stað var Eiríkur Finnur Greipsson skipaður í embættið og gegnir hann áfram störfum Staðgengils Ræðis­manns Reglunnar og starfi Erindreka Reglunnar.

SMR kynnti fjóra verðandi bræður til R&K stigs á komandi Stórhátíð í mars, en það eru bræðurnir: Guðmundur Már Stefánsson, Hákon Birgir Sigur­jónsson, Róbert W. Jörgensen og Þorsteinn G.A. Guðnason.

Kristján Þórðarson SMR útnefndi bróður Christer Persson Stórmeistara Frímúrara-reglunnar í Svíþjóð, heiðurs­félaga Frímúr­ar­a­regl­unnar á Íslandi.

Bróðir Jóhann Heiðar Jóhannsson var sæmdur heiðurs­merki Frímúr­ar­a­regl­unnar á Íslandi, en auk þess að hafa verið dugmikill embætt­is­maður í fjölmörg ár, hefur hann unnið að óteljandi verkefnum og rannsóknum sem hafa eflt og styrkt Regluna og starf bræðranna.

Fjórir bræður voru sæmdir merki fyrrverandi Stólmeistara, Þorsteinn G. A. Guðnason Glitni, Ómar Ásgeirsson Röðli, Guðmundur S. Sigur­björnsson Nirði og Már Friðþjófsson Hlé.

En allt þetta var svo fullkomnað í ramma bróður­mál­tíð­ar­innar að loknum fundi. Hefðbundin minni, ávörp, tónlist og söngur fylltu sali Reglu­heim­il­isins. En það sem enginn vildi missa af og fullkomnaði samver­stund bræðranna, var svo himnesk máltíð Reynis Magnús­sonar lista­kokks og hans aðstoð­ar­fólks. Ekki má gleyma hlut glæsi­legra ungra kvenna, dætra bræðra í Reglunni, við að þjóna til borðs, sem þær inntu af hendi eins og þær hefðu unnið við þetta árum saman.

Veislu­höldum lauk síðdegis og héldu hinir íslensku bræður og erlendir gestir þeirra sælir, rjóðir og þakklátir heim á leið.

Aðrar fréttir

Innskráning

Hver er mín R.kt.?