Páska­hug­vekju Hamars­bræðra streymt á netið

Þriðjudag 7. apríl kl. 21.00

Það hefur verið siður hjá okkur Hamars­bræðrum að halda sérstakan og einstakan páskafund í dymbilviku. Hæstuppl. bróðir Sigurgeir heitinn Guðmundsson R&K, fyrrverandi stólmeistari stúkunnar, kom þessum ágæta sið á í dymbilviku árið 1976 og hefur hann verið haldinn óslitið síðan þá. Þar sem svo hagar til að við getum ekki haldið páska­fundinn á þriðjudag hef ég ákveðið að halda páska­hug­vekju í staðinn og streyma henni á fésbók á þriðjudag kl. 21.00 þannig að þú og fjölskyldan getið horft á í tölvunni eða nettengdum tækjum heima í stofu. Það verður að sjálf­sögðu ekkert siðbundið efni og þú þarft hvorki að fara í kjólfötin sérstaklega né setja upp hatt meðan horft er á, en það sakar þó ekki. 

Þar sem myndataka er ekki leyfð í musterinu þá verður athöfninni streymt frá Víðistaða­kirkju sem bróðir okkar sr. Bragi veitti góðfúslega leyfi fyrir. Við munum hafa tónlist og mun bróðir Bjartmar Ingi Sigurð­usson syngja fyrir okkur við undirleik Hákons Leifs­sonar. Bróðir Gísli Kr. Björnsson v. Rm mun flytja okkur páska­guð­spjallið og bróðir Magnús Gunnarsson Sm mun kveikja á páska­kertinu. Kraft­mikið og áhrifaríkt páska­há­tíðarávarp mun bróðir okkar Kristján Björnsson R&K víglu­s­biskup flytja okkur og verður því streymt beint frá Skálholts­kirkju. Það getur verið að eitthvað fleira verði á dagskrá. Ég á von á að þetta verði jákvæð og uppbyggileg dagskrá sem gæti tekið um 50 mínútur. 

Við höfum ráðið sérhæfða tæknimenn til að sjá um útsend­inguna. Efnið verður væntanlega aðgengilegt á vef Reglunnar fram yfir páska. 

Til að geta horft á páska­hug­vekjuna verður sett upp slóð á heimsíðu Reglunnar en einnig verður hægt að fara inn á fésbók­arsíðu Hamars eða fésbók­ar­síðuna Frímúrarar á Íslandi – Facebook. Ég hef séð að nokkrir bræður eru ekki skráðir inn á fésbók Hamars sem er þar undir skrán­ingunni: St.Jóh. Hamar frímúr­ara­stúka. Ef þú ert ekki skráður þá farðu inn á síðuna og sæktu um að fá aðgang því þar er ýmislegt efni sem bæði er gagn og gaman af. Einnig er vert að benda á fésbók­arsíðu sem mikið er notuð af bræðrum: Frímúrarar á Íslandi – Facebook og sækja um aðgang að henni. 

Ég hef heyrt af bræðrum sem hafa fengið símtal og frá öðrum sem hafa verið að hringa í bræður sína og allir er mjög ánægðir og glaðir að vera í sambandi. Ég vona að þú bróðir minn hafir verið duglegur að hringja í aðra bræður og átt með þeim gott samtal. 

Ég óska þér og þínum góðrar helgar og vona að þið verðið með okkur á þriðjudag kl. 21.00 á verald­ar­vefnum. Klukkan 22.00 á þriðjudag grípum við bolla eða glas og drekkum öllum fjarstöddum bræðrum til, en það erum við allir, og hugsum hlýtt til samveru okkar í Ljósatröð og með tilhlökkun að hittast þar á ný í bróður­legum kærleika. 

Ólafur Magnússon Stm 

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?