Allt stúkustarf frá 11. mars til loka starfsársins 30. júní 2020 fellur niður. Sjá nánar.

Opið hús í Reglu­heim­ilinu við Bríet­artún á Menning­arnótt

Fjöldi gesta kom í heimsókn — sjá myndir

Opið hús Menning­arnótt 2019

Frímúr­ar­a­reglan á Íslandi opnaði húsakynni sín, Reglu­heimilið við Bríet­artún í Reykjavík, fyrir almenningi á Menning­arnótt, 24. ágúst 2019. Var húsið opið frá klukkan 14 til 17. Tilefnið eru þau ánægjulegu tímamót að á þessu ári fagna Frímúr­ararar eitt hundrað ára afmæli reglulegs og fullgilds frímúr­ara­starfs á Íslandi. Það var sem sagt þann 6. janúar 1919 sem stúkan Edda fékk fullgildingu sem Jóhann­es­ar­stúka og starfaði hún sem slík undir dönsku Frímúr­ar­a­reglunni allt til ársins 1951, en þann 23. júlí það ár var Frímúr­ar­a­reglan á Íslandi stofnuð.

Veður var sérlega gott á Menning­arnótt og fjölmargt í boði fyrir gesti og gangandi. Þrátt fyrir mikið úrval viðburða, þá var áhugi almennings mikill á að heimsækja Reglu­heimilið og voru 1.379 gestir taldir inn í húsið. Tvisvar sinnum áður hefur Reglu­heimilið verið sýnt almenningi, í fyrsta skipti var það á Menning­arnótt 2005.

Sérlega ánægjulegt var að fylgjast með gestum og heyra þau jákvæðu viðbrögð sem fólk sýndi eftir að hafa farið um húsið og kynnt sér húsakynnin og notið þess sem í boði var. Frímúr­ara­bræður í kjólfötum voru víða um húsið til að upplýsa gesti um það sem fyrir augu bar. Í hátíð­arsal á þriðju hæð var gestum boðið upp á fræðslu­erindi um starfið innan Reglunnar og lifandi tónlist flutt þess á milli. Sýnt var herbergi Æðsta Ráðs og viðhafn­ar­skrif­stofa Stórmeistara Reglunnar. Á jarðhæð var opið inn í Jóhann­es­ar­salinn og hljómaði ljúf og lifandi tónlist af söngloftinu um stjörnu­bjartan salinn. Þá var Minja­safnið opið og á göngum var búið að stilla upp nýjum sýning­ar­skápum með munum úr söfnum Reglunnar.

Opið hús Menning­arnótt 2019

Veislusal á jarðhæð var skipt í þrennt og í „vestur­salnum“ var tækniliðið búið að stilla upp hágæða sýning­ar­tjaldi og búnaði, þar sem ný heimild­arkvikmynd um Reglu­starfið í 100 ár, var sýnd stöðugt á meðan húsið var opið. Í „miðsal“ var boðið uppá veitingar, tímaritið „Frímúr­arann“ og fræðslu­bæk­lingur um Regluna lágu þar einnig frammi. Á veggjum í miðsal voru kynning­ar­spjöld um einstakar stúkur innan Reglunnar en á gangi framan við veislusal voru fjölmörg kynning­ar­spjöld um uppruna og sögu frímúr­ara­starfs, sögu íslensku Reglunnar, sænska kerfi Frímúrara og fleira. Í „austursal“ var áhuga­sömum gestum boðið upp á samtal við bræður, ef þeir höfðu áhuga á að fræðast enn betur um reglu­starfið og að leggja fram skrif­legar óskir um að fá frekari upplýs­ingar.

Auk þessa voru systur í Maríu­reglunni (stúku nr. 1), með kynningu á starfi sínu á opna húsinu, en systurnar leigja húsnæði í Reglu­heim­ilinu fyrir starfsemi sína. Maríu­reglan er hins vegar algerlega óháð Frímúr­ar­a­reglunni.

Afmæl­is­nefnd hefur í langan tíma undirbúið viðburða­dagskrá þessara merku tímamóta og er þeirra minnst með mjög fjölbreyti­legum hætti, svo sem hátíð­ar­fundum, útgáfu afmæl­isrits og rits um Ludvig Emil Kaaber, tónleikum Frímúr­arakórsins, hátíð­ar­samkomu í Hörpu og gerð nýrrar heimild­ar­myndar um Frímúr­arastarf á Íslandi í eina öld. Einnig verða öll stúkuhús landsins ásamt Reglu­heim­ilinu í Reykjavík opnuð og sýnd almenningi. Utan Reykja­víkur eru stúkuhús á 12 stöðum, Akureyri, Húsavík, Egils­stöðum, Vestmanna­eyjum, Selfossi, Reykja­nesbæ, Hafnar­firði, Akranesi, Stykk­is­hólmi, Ísafirði, Sauðár­króki og Siglu­firði. Í dag starfa 30 stúkur innan íslensku Reglunnar í þrem deildum og eru um 3.600 starfandi félagar í henni.

Gestum eru færðar einlægar og miklar þakkir fyrir heimsóknina um leið og von Frímúr­ara­bræðra er að þeir hafi fengið innihalds­ríkari upplýs­ingar um Regluna og starfið innan hennar en þeir höfðu fyrir heimsóknina. Öllum þeim fjölmörgu bræðrum sem að opna húsinu komu eru færðar innilegar þakkir fyrir undir­búning og framkvæmd á þessum ánægjulega viðburði.

Aðrar fréttir

Innskráning

Hver er mín R.kt.?