Frímúrarareglan hyggst opna húsakynni sín í Reykjavík fyrir gestum og gangandi laugardaginn 24. ágúst næstkomandi. Það er sama dag og Menningarnótt er haldin hátíðleg í höfuðborginni.
Efnt er til þessa opna húss undir yfirskriftinni Frímúrarareglan söfn og saga. Þannig munu söfn Reglunnar taka höndum saman og sýna ýmsa merka og athyglisverða muni, bækur, myndir, skjöl og listaverk sem glatt geta augað og vakið um leið áhuga á merkri sögu reglustarfsins hér á landi.
Sagan rakin í máli og myndum
Á sýningunni er saga þessi einnig rakin með myndrænum hætti á nýrri tímalínu sem sett hefur verið saman. Setur hún starfið í samhengi og er sjónræn leið þess að glöggva sig betur á sögu frímúrarastarfs á Íslandi.
Tilefni þessa framtaks er það að í ár er þess minnst að 100 ár eru liðin frá því að fyrirrennari bókasafns Frímúrarareglunnar á Íslandi tók til starfa, það er bókasafn stúkunnar Eddu.
Hvetjum fólk á staðinn
Regluheimilið í Bríetartúni verður opið almenningi milli 11:00 og 15:00 fyrrnefndan laugardag. Eru áhugasamir hvattir til að fjölmenna á þennan merka viðburð.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Reglan efnir til opins húss af þessu tagi. Síðast var það gert árið 2019 þegar 100 ár voru liðin frá því að stúkan Edda varð fullgild St. Jóhannesarstúka innan dönsku frímúrarareglunnar.