Allt stúkustarf frá 11. mars til loka starfsársins 30. júní 2020 fellur niður. Sjá nánar.

Óður í tali og tónum til vinátt­unnar

Einstaklega fallegur vinafundur í stúkunni Fjölni

Þriðju­daginn 12. mars héldu Fjöln­is­bræður vinafund sem tókst með eindæmum vel. Á fundinn mættu 81 br. og þar af voru 14 gestir frá ýmsum stúkum. Umgjörð fundarins var framkvæmd í tali og tónum og tókst einstaklega vel. Í upphafi flutti Vm. ávarp um fundinn og vináttuna og í framhaldi fluttu fjórir bræður erindi sem tengdist vináttunni, ýmis á fundinum sjálfum eða við bræðra­mál­tíðina. Á milli erinda var svo flutt tónlist og söngur sem hæfði tilefninu í hvívetna.

Bræðurnir Guðbrandur Magnússon, Þorsteinn Þorgeirsson, Eiríkur Finnur Greipsson og Magnús Eðvald Kristjánsson sáu um flutning erindanna og Helgi Bragason, Ásgeir Páll Ágústsson og Sigurður Helgi Pálmason sáu um tónlistar­flutning og söng. Allur flutn­ingur tókst einstaklega vel og var þessum bræðrum vel fagnað fyrir þeirra framlag.

Á fundinum voru fjórum bræðrum veitt heiðurs­merki Fjölnis. Þessir bræður eiga það sammerkt að teljast sérstakir vinir Fjölnis og hafa í störfum sínum unnið náið með Fjöln­is­bræðrum í gegnum tíðina. Hér var því vandað til verks við val þessara bræðra sem nú bera heiðurs­merki Fjölnis.

Og þá var komið að bræðra­mál­tíðinni sem var sér kapituli út af fyrir sig. Á borð var borinn vinasnitsel sem smakk­aðist afskaplega vel. Eins og fram hefur komið var spurning um hvort vinasnit­selinn myndi standa upp í hárinu á frænda sínum Vínarsnit­selnum og sigra bragð­lauka bræðranna. Og það gekk án vandræða, enda hafði vinasnit­selinn valið sér frábæran þjálfara sem tryggði honum sigurinn. Þjálf­arinn var enginn annar en br. okkar Reynir Magnússon sem stjórnaði sínum snitsel til sigurs með fumlausum vinnu­brögðum.

Eins og fram hefur komið voru 14 gestir á fundinum. Fulltrúar þeirra ávörpuðu vinafundinn og þökkuðu fyrir sig með glæsibrag. Og orð þeirra glöddu okkur Fjöln­is­bræður.

Þá var athygli bræðranna vakin á því að sunnu­daginn 24. mars mun bróðir okkar Þórarinn Þórar­insson flytja lokaer­indið um dyggð­irnar fjórar sem sérhverjum frímúrara er skylt að iðka. Og erindi hans fjallar um miskunn­semina. Þessi fræðslu­er­inda­flutn­ingur hefur vakið mikla athygli og hefur verið afar vel sóttur af bræðrum. Bræður voru hvattir til að fjölmenna og njóta þess að hlusta á bróðir Þórarinn, og ljúka með því þessum einstaka flutningi erindanna fjögurra.

Við lok fundar var svo boðið upp á AVEC með kaffinu, þar sem br. okkar Kristján Þórarinn Davíðsson skenkti í staup dýrindis vökva sem hæfði vel að loknu snitseláti.

Þegar brr. gengu svo af fundi var þeim afhent bókin Undir stjörnu­himni en sú bók var gefin út af Frímúr­ar­a­reglunni í tengslum við 100 ára afmæli Reglunnar. Allar frekari upplýs­ingar um þá bók má finna með því að smella hér

Þannig lauk þessum einstaka fundi og ljóst að þeir bræður sem hann sátu munu ekki gleyma þeim áhrifum sem hann kallaði fram.

MYNDA­TÖKUR

Áður en vinafund­urinn hófst gafst bræðrum tækifæri til að láta mynda sig hver með öðrum og var þessi möguleiki vel nýttur. Í framhaldi verður svo búið til mynda­albúm þar sem bræðrum gefst tækifæri til að skoða og panta myndir sem þá langar til að eignast. Allar upplýs­ingar hvernig staðið skuli að pöntunum verður að finna á síðunni þar sem mynda­al­búmið verður staðsett.

 

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?