Nú vinnur birtan á

Mánað­ar­heitið mars er komið úr latínu. Fyrir daga Júlíusar Sesars byrjaði árið hjá Rómverjum með marsmánuði. Þá fór að vora suður í Róm. Mánuð­urinn var helgaður herguðinum Mars og heitir eftir honum. Nöfn mánaðanna september, október, nóvember og desember (þ.e. sjöundi, áttundi, níundi og tíundi mánuður) skýrast af því að mars var fyrstur í röðinni innan ársins. Þetta er líka orsök þess að hlaupárs­dagur er síðasti dagur febrúar, sem þannig var síðasti dagur ársins, sem verður að teljast eðlilegur staður fyrir innskotsdag.

Vorjafn­dægur verða á norður­hveli jarðar þann 20. mars. Á vorjafn­dægri er sólin beint yfir miðbaug jarðar og dagurinn því jafn langur nóttunni. Í kjölfarið verða dagarnir lengri en nóttin. Íslend­ingar þekkja skamm­degið og gleðjast jafnan við þessi tímamót.

Páskar geta verið á rúmlega mánað­ar­tímabili á vorin. Páska­dagur er fyrsti sunnu­dagur eftir fyrsta fulla tungl eftir vorjafn­dægur. Páska­dagur getur í fyrsta lagi fallið á 22. mars og í síðasta lagi á 25. apríl en allar dagsetn­ingar þar á milli koma til greina. Páskadag í ár ber upp á 4. apríl. Páska­dagur er mikill gleði­dagur í hugum kristinna manna en þá er upprisu Jesú minnst.

Eins og fram hefur komið á heimasíðu reglunnar var nýverið gefin út ný reglugerð um sóttvarnir vegna COVID-19 farald­ursins. Tilkynntar breyt­ingar eru allra góðra gjalda verðar, en þær eru þó ekki nægjan­legar til þess að unnt sé að halda stúkufundi í Reglu okkar. Við þurfum því enn að bíða eftir frekari tilslökunum til að geta hafið siðbundið stúku­starf.

Hvernig sem fer með stúku­starfið á komandi vori þá skulum við frímúr­ara­bræður vera bjart­sýnir. Í mars vinnur birtan á, vorjafn­dægur nálgast og svo koma páskar.

Jónas Þórðarson

Eldra efni

Golfmót Fjölnis 2022
Því er lokið
Líður að lokum
Vorferð Fjölnis

Innskráning

Hver er mín R.kt.?