Kæru bræður, þegar allt stúkustarf var lagt niður þann 11. mars fyrr á þessu ári, held ég að fáir hafi gert sér grein fyrir því að COVID-19 ástandið yrði jafn langt ferli og það stefnir í að verða. Starfið hófst engu að síður með Stórhátíðarfundi þann 6. ágúst, eða mun fyrr en þekkt er frá liðnum árum í starfi innan R. Fundarhöld stóðu þó stutt yfir, hófust að nýju í byrjun september en stöðvuðust fljótt aftur. Nú er ljóst að engir fundir, né fjöldasamkomur verða á þessu ári – jafnvel ekki í byrjun næsta árs heldur. Ég hef því beðið vefnefnd um að stöðva birtingu á starfsskrá um óákveðinn tíma.
Á meðan ekki sér fyrir endann á takmörkunum eða afléttingu þeirra, verðum við engu að síður að halda lífsbaráttunni áfram. Bræðurnir hafa tekið hvatningu Stórmeistara R. af jákvæðni og sýnt í verki að þeir vilja og geta haldið sambandi við hvern annan og breytt samkvæmt áherslum R. um dyggðir Frímúrara, þó ekki sé um formlega stúkufundi að ræða. Alltaf er þó unnt að gera betur og ég sé ekki annað en að fjölmargir brr. vinni áfram hörðum og hröðum höndum að ýmsum verkefnum sem efla tengsl milli þeirra og fjölskyldna þeirra.
Okkur er það nefnilega mjög mikils virði að allir bræður, ungir sem aldnir, nýliðar í starfinu sem þeir lengra komnu, viðhaldi og efli tengslin sín á milli þrátt fyrir óværuna sem enn ógnar samfélagi okkar. Af þeim sökum hvet ég bræður til að bjóða nú systrunum og fjölskyldumeðlimum sínum til að hlýða saman og horfa á það efni sem stúkurnar hafa verið að senda frá sér á innri hluta heimasíðunnar okkar. Þar er að finna fjölbreytilegt og áhugavert efni sem höfðar til bræðra og fjölskyldna þeirra.
Aðventukaffi ekkna frímúrarabræðra sem áralöng hefð er komin á að halda í Regluheimilinu í Reykjavík, verður því miður ekki mögulegt að boða til í desember, en bræðranefnd Mímis sem hefur leitt undirbúninginn að þessu sinni mun stýra útsendingu jólagjafa til ekknanna. Það er þrekvirki því ekkjur látinna bræðra eru tæplega 500! Ég er þess fullviss að öll hjálp við það er vel þegin.
Því miður verður heldur ekki mögulegt að halda neinar jólatrésskemmtanir milli jóla og nýárs! Það er okkur auðvitað ekki síður erfitt að sætta okkur við, en augljóst að enginn gerir athugasemdir við að verði felldar niður.
Við gleðjumst yfir því að stjórn Frímúrarasjóðsins hefur nýlega samþykkt að gefa veglega styrki til nokkurra samtaka í velferðarþjónustu og verður þeim gjöfum gerð betri skil í Frímúraranum og á innri hluta heimasíðunnar fljótlega. Frímúrarasjóðurinn ef byggður upp af beinum framlögum bræðra og þó hann sé ekki mjög stór sjóður hefur hann á liðnum árum sinnt mjög merkilegum verkefnum með veglegum styrkveitingum. Þökk sé ykkur kæru bræður.
Bræður mínir, ég óska ykkur gleðilegrar aðventu, förum varlega í samskiptum okkar við aðra, við erum öll Almannavarnir, hugum að sjúkum og þeim sem eiga um sárt að binda vegna efnahags og eða annarra aðstæðna. Lítið bros, örstutt símtal, örstutt tölvuskeyti, jafnvel stutt SMS, gerir mikið fyrir þann sem gefur sér tíma til slíks og örugglega mikið fyrir þann sem þiggur.
Eiríkur Finnur Greipsson
Erindreki Reglunnar.