Heilbrigð­is­ráðu­neytið gefur út nýja reglugerð sem tók gildi 10. maí 2021 Sjá nánar.

Muster­isridd­ar­arnir og líkklæðið í Tórínó

Líkklæðið í Tórínó (e. Shroud of Turin) er talið af mörgum, sérstaklega hinum trúuðu, vera klæði það sem notað var til að sveipa líkama Jesú Krists eftir að hann var tekinn niður af krossinum og færður í grafhýsi. 

Líkklæði þetta er línstrangi sem er 4,36 m langur og 1,10 m breiður. Það er til samræmis við það sem kemur fram í guðspjöllum nýja testa­mentsins (19. kafla Jóhann­es­ar­guð­spjalls, 23. kafla Lúkas­ar­guð­spjalls, 27. kafla Matteus­ar­guð­spjalls og 15. kafla Markús­ar­guð­spjalls), en þar segir að Jósef frá Arímaþeu hafi fengið heimild Pílatusar til að taka líkama Krists af krossinum og undirbúa til greftrunar. Hann lét sveipa líkama Krists í hreint línklæði og leggja í gröf, höggna í kletti. 

Varðandi möguleg afdrif klæðisins, má geta sér til að daginn eftir, þegar Kristur var upprisinn, hafi líkklæðið verið í grafhýsinu, þar sem einhver hefur tekið það. Það er í samræmi við frásagnir um að ýmsum öðrum munum sem tengjast kross­festingu Krists  hafi einnig verið safnað saman, eins og þyrnikór­ónunni, nagla sem rekinn var í gegnum hold Krists og viðarbút af krossinum.

Vandinn við sögu líkklæð­isins er að lítið er vitað með vissum um afdrif þess fram á miðja 14. öld. Lengi vel var talið að þess væri fyrst getið í rituðum heimildum frá þeim tíma. Hins vegar hafa síðar komið fram gögn að líkklæðið hafi verið í Konst­antínópel árið 1204, þegar kross­farar fóru ránshendi um borgina. Þaðan barst klæðið til Frakk­lands. Einhverjir telja að það hafi verið komið til Konst­antínópel á 10. öld, en áður hafi það verið varðveitt í múrvegg borginnar Edessu í margar aldir. Þangað á það að hafa komið með óþekktum lærisveini Jesú, Thaddeus að nafni. 

Snemma komu fram efahyggjuraddir sem töldu að líkklæðið væri falsað. Vísindamenn samtímans hafa reynt að svara spurn­ingunni um það hvort líkklæðið sé falsað eða ekki. Klæðið var aldurs­greint árið 1988. Niður­staðan var að það gæti verið frá ofanverðri 13. öld. 

Vandinn við þá rannsókn er að teknir voru bútar til endanna á líkklæðinu sem gætu hafa verið komnir með samtíma­mengun. Talið er að aðeins 2% mengun nægi til að klæðið greinist yngra en það raunverulega er. 

Jafnframt véfengja aðrir þá niður­stöðu á grund­velli þess að einn þriðji þeirra frjór­korna sem fundist hafa í klæðinu er aðeins að finna í Palestínu. Það eitt bendi sterklega til uppruna þess. 

Einnig er myndin í klæðinu í þrívídd. Árið 1884 var tekin ljósmynd af því og þá kom fram í negatífunni mun skýrari mynd af manni með sterka andlits­drætti og önnur einkenni sem eru í samræmi við upplýs­ingar úr Biblíunni um ástand líkama Krists eftir kross­fest­ingunna. Það þykir með ólíkindum að falsara hafi tekist að búa til svo raunverulega mynd. 

Það sem ætti að vekja sérstakan áhuga frímúrara er að samkvæmt gögnum úr Páfagarði, er talið líklegt að klæðið hafi verið varðveitt af Muster­isriddurum frá hvarfi þess í Kostantínópel fram á miðja 14. öld í Frakklandi, þegar það var skráð í fórum Geoffroi de Charney, aðals­manns og leiðtoga Muster­isriddara í Normandí.

Líkklæðið verður næst til sýnis í dómkirkjunni í Tórínó árið 2025. Mögulega hafa einhverjir frímúr­ar­bræður áhuga á að skipu­leggja ferð á þá sýningu?

Hér að neðan er hin stórkostlega tónverk Beethovens um dauða og upprisu Krists: Kristur á Ólíufjallinu.

 

Eldra efni

Páskahugvekja 2021
Óheppin ár
Einstakur vinafundur
Vinafundur Fjölnis

Innskráning

Hver er mín R.kt.?