Öll starfsemi innan Frímúrarareglunnar tímabundin stöðvuð — Uppfært 7. nóvember Sjá nánar.

Miðviku­dagspistill Stólmeistara Njarðar

„Við höldum áfram að vera bjart­sýnir og hugrakkir og höldum í staðfestu og trú, á betri tíma, þeir koma aftur fljótlega."

Nú er gengin í garð enn einn miðviku­dag­urinn þar sem við getum ekki komið saman í stúku­húsinu okkar að Ljósatröð. En við höldum áfram að vera bjart­sýnir og hugrakkir og höldum í staðfestu og trú, á betri tíma, þeir koma aftur fljótlega. Það er einlæg ósk mín, að ykkur öllum líði sem best og að heilsa og orka sé næg til að sinna daglegu lífi.

Bróðir minn . Við erum ekki að hittast eins og venjulega og allir söknum við vinátt­unnar og bræðra­lagsins í stúkunni sem við erum vanir að njóta hver með öðrum, en verum í sambandi hver við annan og veitum stuðning þrátt fyrir að vera hver á sínum stað, símtal og eða rituð kveðja er alltaf vel þegin og lyftir manni upp í skamm­deginu.

Bræður mínir ég hvet ykkur til að vera duglegir að tala saman, og láta vita af ykkur og þið megið senda mér hugvekjur og eða góðar sögur sem hægt væri að senda út til bræðranna, en munið að það má ekki tengjast stúku­starfinu beint eða óbeint. Við erum hér hver fyrr annan, og hugsum til hvers og eins og styrkjum okkar bönd og bræðralag hér eftir sem hingað til.

Ég vil biðja ykkur um að taka frá daginn 4.desember en þá ætluðum við að halda okkar hefðbundna jólafund, við munum senda á ykkur jólahug­vekju og tónlist þann dag kl. 19:30 þar sem söngstjórar okkar flytja okkur lög og erindi og hugvekjur verða flutt. Nánar um það hvernig hægt verður að nálgast þá útsendingu verður ykkur sent með góðum fyrirvara.

Ég óska þess að hinn hæsti geri okkur kleift að koma saman sem allra fyrst og njóta samver­unnar um aldur og æfi.

Rósin

Undir háu hamra belti
höfði drúpir lítil rós.
þráir lífsins vængja víddir
vorsins yl og sólarljós.

Ég held ég skynji hug þinn allan
hjarta­sláttinn rósin mín.
Er krist­alls­tærir daggar­dropar
drjúpa milt á blöðin þín.

Æsku minnar leiðir lágu
lengi vel um þennan stað,
krjúpa niður kyssa blómið
hversu dýrðlegt fannst mér það.

Finna hjá þér ást og unað
yndislega rósin mín.
Eitt er það sem aldrei gleymist,
aldrei það er minning þín.

Friðrik Jónsson / Guðmundur Halldórsson

Hér að neðan er stutt saga frá bróður Elíasi J. Bjarnasyni.

Með bróður­legri kveðju
Ásgeir Magnússon
STM. Njarðar

Naglaklippan !

Það er sælla að gefa en þyggja var sagt og ritað fyrir margt löngu og stendur enn fyrir sínu. Það getur stundum verið snúið eða vandræðalegt að þyggja og oft á tíðum eigum við ekki auðvelt með að þyggja, því okkur þykir sælla að gefa! En það breytir því ekki að við þyggjum ansi oft eitthvað frá okkar nánustu fjölskyldu­með­limum, vinum og eða samstarfs­fé­lögum.

Fyrir rösklega 38 árum stóð ég á tímamótum, varð tvítugur! Þá gat ég, samkvæmt lögum, gengið inní „Ríkið“ og keypt „yfir borðið“ eins og tíðkaðist þá í verslunum ÁTVR, og þóst vera maður með mönnum.
Þessi ,,merkis­dagur‘‘ var í sjálfu sér ekkert merki­legri en aðrir dagar árið 1982, nema ég átti 20. ára afmæli!

Yngsti bróðir minn kom þá til mín og færði mér litla gjöf, ekkert sérstaklega vel innpakkaða að mér fannst, og eins og ég sagði, var gjöfin lítil. Þegar ég tók utan af pakkanum kom í ljós ,, naglaklippa‘‘! Tvítugum höbðingjanum fannst nú ekki mikið til koma, en þáði þó gjöfina með kurteis­is­legum þökkum eins og manni var kennt.

Naglaklippan fór fljótlega í „bjútí-boxið“ (lesist snyrtitaska) sem ungir menn eins og undir­ritaður voru nýlega búnir að koma sér upp undir helstu nauðsynjar eins og tannbursta og tannkrem, tveggja­blaða Gillette og raksápu, kölnarvat (Old Spice) og svarta hárgreiðu úr plasti. Árin liðu og alltaf var „naglaklippan“ í boxinu góða, flutti meira að segja yfir í nýtt box þegar hið eldra var orðið gauðslitið eftir skíða­ferðalög, flutninga lands­hluta og landa á milli og ótaldar sjóferðir.

Það var svo, ekki fyrir margt löngu, er ég handlék ,,naglaklippuna‘‘ einu sinni sem oftar, pírði augun og mundaði yfir hægri stórutánni, til að gera aðför að ofvexti á þeirri stóru, að ég áttaði mig á því að enn var sama ,,naglaklippan‘‘ í mínum fórum, eftir öll þessi ár!
Þá rifjaðist upp þetta augnablik fyrir rösklega 38 árum þegar yngsti bróðir minn færði mér þessa, að mér fannst þá, ómerkilegu gjöf.

Ég áttaði mig þá á að stundum mætti maður nú kannski hugsa sig aðeins um, þegar eitthvað væri að manni rétt með góðum huga, þótt ekki þætti merkilegt. Lítil gjöf, gefin af góðum huga, eins og naglaklippan, getur gefið manni mikið og kennt manni að vera nægju­samur og sáttur við sjálfan sig og aðra.

Naglaklippan góða fylgir mér enn og mun, ef að líkum lætur og Guð lofar, fylgja mér um ókomna tíð og hvert sinni ég handleik þenna litla kostagrip mun ég hugsa til stund­ar­innar þegar ég tók á móti þessari litlu gjöf, sem hefur reynst mér svo vel í gegnum tíðina. Þá hugsa ég með þakklæti um allt það litla sem stóra sem mér hefur verið gefið í lífinu.

Góðar stundir.
Elías J. Bjarnason.

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?