„Með vísnasöng eg vögguna þína hræri“

Jólafundur Fjölnis

Þá er jólafundi St. Jóhann­es­ar­stúk­unnar Fjölnis lokið þetta árið og var fundurinn í senn fallegur og hátíð­legur eins og við mátti búast. Jólafund­urinn var þó sérstaklega kærkominn í ár þar eð skemmst er þess að minnast að enginn slíkur var haldinn fyrir síðustu jól vegna veirunnar skæðu. Með jólafundinum setur Fjölnir punkt aftan við starf­semina á þessu almanaksári og siglir yfirvegað inn í seinni hluta starfs­ársins. Við tekur nýtt ár með nýjum hlekkjum í bróður­keðjuna — ný ljós kvikna og önnur slokkna — og þannig heldur lífið áfram sinn vanagang varðað ljúfum og fallegum stundum eins og þeirri sem Fjöln­is­bræður upplifðu í kvöld.

Sem fyrr sagði var fundurinn hátíð­legur og voru allar embætt­is­færslur fumlausar og traustar – segja má að taumhaldið hafi verið þétt og traust – en fundinn sóttu 70 bræður og þar af voru tveir embætt­ismenn úr æðstaráði Reglunnar. Ræðumeistari stúkunnar, br. Magnús E. Kristjánsson, flutti einstaklega fallega jólahug­vekju og Sr. Svein­björn R. Einarsson, góður gestur úr St. Jóhann­es­ar­stúkunni Mælifelli, las úr upphafi Jóhann­es­ar­guð­spjalls. Tónlist­armenn úr röðum Fjöln­is­bræðra fluttu hugljúfa jólatónlist en um söng sá br. Ragnar Á. Sigurð­arson, br. Sigurður Hafsteinsson lék á sópran-saxófón og að vanda fór söngstjóri stúkunnar, br. Ólafur W. Finnsson, fimum höndum um orgelið.

Segja má að Jóhann­es­ar­stúk­urnar séu vagga þess mannrækt­ar­starfs sem fram fer í Frímúr­ar­a­reglunni. Þar fá enda innsækj­endur upptöku í Regluna og þaðan er þeim síðan fylgt fyrstu sporin á frímúr­ara­brautinni. Það er því viðeigandi að rifja hér upp jólasálminn Nóttin var sú ágæt ein, eftir Einar Sigurðsson prest og skáld, lengst af að Eydölum í Breiðdal, fæddur 1539 og látinn 1626.

Einar er talinn eitt mesta skáld sinnar tíðar, og eftir hann liggur meira varðveitt en nokkurn annan samtímamann hans, en um sr. Einar skrifaði Valdimar V. Snævarr, í Vorið 4. tölubl. 1946, að það sem helst einkenndi skáldskap Einars væri “guðstraustið, mildin, mannúðin og samúðin”. Nóttin var sú ágæt ein, sem raunar heitir upphaflega “Kvæði af stallinum Kristí sem kallast Vöggu­kvæði”, var tekið upp í sálmabók Þjóðkirkj­unnar árið 1945 sem sálmur nr. 72, og þá 7 erindi af 28. Ljós það sem sr. Einar kveikti hefur logað ár frá ári — ljós frá ljósi — allt frá síðmiðöldum og til dagsins í dag og mun um ókomna tíð færa kærleik jólanna inn í hjörtu Íslendinga. Kvæðið er eins og áður segir tæp þrjátíu erindi en þau sem helst eru sungin eru þessi:

Nóttin var sú ágæt ein,
í allri veröldu ljósið skein,
það er nú heimsins þrautar mein
að þekkja hann ei sem bæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

Fjármenn hrepptu fögnuð þann,
þeir fundu bæði Guð og mann;
í lágan stall var lagður hann
þó lausn­arinn heimsins væri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

Lofið og dýrð á himnum hátt
honum með englum syngjum þrátt;
friður á jörðu og fengin sátt,
fagni því menn sem bæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

Þessi fallegi jólasálmur er feiki­vinsæll en vinsældir hans má helst þakka hinu ljúfa lagi Sigvalda Kaldalóns sem hann samdi við kveðskap sr. Einars. Lag Sigvalda hentar mjög til bæði kórsöngs og einsöngs en hér má heyra Karla­kórinn Fóstbræður, af plötunni Með helgum hljóm frá 1981, flytja þennan fallega sálm.

Vefnefnd Fjölnis óskar öllum frímúr­ara­bræðrum nær og fjær gleði­legra jóla og gæfuríks árs. Næsti fundur í Fjölni verður á III° þann 11. janúar 2022.

Eldra efni

Golfmót Fjölnis 2022
Því er lokið
Líður að lokum
Vorferð Fjölnis

Innskráning

Hver er mín R.kt.?