Öll starfsemi innan Frímúrarareglunnar tímabundin stöðvuð — Uppfært 7. nóvember Sjá nánar.

Lykill að lífsham­ingju

Bróðir okkar, Páll Jakob Malmberg lagði land undir fót ásamt eiginkonu sinni og upplifði óvænta gleði. Lítið fell reyndist stærra í sniðum en hann hafði reiknað með. Hann deilir göngunni og þeirri upplifun sem hún gaf, með okkur. 

 

Allir kannast við að sumir dagar sem áttu ekki að marka neitt sérstakt verða að skemmti­legri minningu. Einn slíkan upplifði ég um daginn. 

Að sjálf­sögðu markast líf okkar af veirunni vondu þessa dagana, þar er ég engin undan­tekning. Smá sjálfs­vorkunn gerir vart við sig þó alls ekki sé alltaf tilefni til þess, margt gæti verið mun verra.  Samt má ekki gleyma að margir eiga verulega um sárt að binda þessa dagana sökum atvinnu­leysis, heilsu­brests o.fl. sem má beint eða óbeint til rekja til ástandsins.

En aftur að deginum góða. Vaknaði upp á laugar­dags­morgni, smá ryð í æðum eftir görótta drykki gærkveldsins og almennt slen í ljósi aðstæðna þar sem lífið er fast í lágum gír sökum veirunnar. Ég og konan mín ákváðum að ganga á lítið fell sem ég hef barið augum árum saman. Fellið ber ekki mikið yfir sér, stendur á sléttu þar sem nánast ekkert er. Mætti hugsa sér að almættið hafi sett það þarna bara til að stríða. Hvaða fell þetta heitir færðu ekki að vita strax, það myndu eyðileggja upplif­unina af  þessum lestri. 

Við keyrðum í humátt að fellinu, fyrst um góða vegi höfuð­borg­ar­svæð­isins og skömmu síðar út á grófan malarveg sem endaði um þremur kílómetrum frá fellinu. Þar hafði ég á orði: „þetta er nú meiri túndran, hér er ekkert“. Fellið blasti við og þangað ætluðum við. Við vorum vel skóuð og klædd. Leiðin var nokkuð torsótt þó slétt væri, grjót, mosi og mold. Hvað var það svo sem gerði þennan dag eftir­minni­legan? Jú, með hverju skrefinu í þessari túndru blasti við náttúran í allri sinni dýrð. Túndran reyndist m.a. uppfull af fallegum lautum, lyngi og skyndilega skartaði slétt­lendið  hinum ýmsu fallegu mynstrum.  Ekki skemmdi fyrir að veðrið var með eindæmum gott, algjör stilla og mjög svo víðsýnt. 

Lítil­fjörlega fellið nálgaðist. Þegar nær dró var það ekki eins ómerkilegt og það virtist vera úr fjarska, líkt og túndran breyttist það í höll. Falleg kletta­belti, gróður og lautir. Ekki skemmdi fyrir að í miðri hlíðinni mætti okkur rjúpa með bringuna sperrta. Það var eins og að hún væri að monta sig af nýju peysunni sinni sem var að færast úr brúna sumar­litnum í hvíta vetrar­litinn. 

Þegar uppá fjallið var komið voru launin greidd, kaffi og samloka. Ekkert er betra en nesti úti í náttúrunni. Síðan var gengið að bílnum og ekið heim. Okkur leið vel og höfðum við að orði að þetta hafi svo sannarlega komið á óvart. 

Þessi litla saga segir okkur að við eigum að kunna að meta litlu hlutina í lífinu og líta okkur nær. Má segja að það sé lykillinn að vellíðan.  Þetta leiðir að  nafni fellsins, það heitir nefnilega Lyklafell. Þið hafið séð það oft en ekki veitt því eftirtekt. Það stendur milli Sandskeiðs og vegarins til Nesja­valla. Líttu þangað næst þegar þú átt leið framhjá.

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?