Öll starfsemi innan Frímúrarareglunnar tímabundin stöðvuð — Uppfært 7. nóvember Sjá nánar.

Kveðja frá stólmeistara Njarðar.

Ásamt erindi annars ræðumeistara Njarðar.

Sendi þér kæri bróðir kveðjur mínar með ósk um að þú hafir það gott.
Í gær var haldinn afmæl­is­fundur Hamars og var honum streymt á heimasíðu Reglunnar, en Hamar átti að vera með H&V fund í gær og átti stúkan 57 ára afmæli. Það er mitt mat að þessi fundur hafi farið vel fram og eftir settum reglum en á fundinn voru skráðir rúmlega 75 bræður og komu þeir víða að af landinu.

Í framhaldi af þessum fundi, sem var prufu­keyrsla fyrir ný tæki sem stúkurnar í Ljósatröð eru að fjárfesta í, þá munum við Njarð­ar­bræður senda út þann 4. desember jólahug­vekju sem inniheldur erindi og ritning­ar­lestur sem bróðir okkar Friðrik J. Hjartar flytur okkur.

Einnig verður tónlist sem verður flutt af okkar frábæru söngstjórum og hennar er alltaf hægt að njóta, því að þeir eru gullmolar allir sem einn. Það er ósk mín að sem flestir skrái sig þegar skráning hefst og taki þátt í fundinum með okkur og njóti vel, ég sendi ykkur nánar um það síðar.

Ég ætla ekki að hafa orð mín mikið fleiri hér í dag en bið ykkur að líta eftir þeim sem minna mega sín og þurfa aðstoð á þessum skrítnum tímum.

Valgerður Hjart­ar­dóttir, hjúkr­un­ar­fræð­ingur og djákni skrifaði þessi orð í Tímarit hjúkr­un­ar­fræðinga árið 2006:
„Kærleik­urinn er fólginn í svo mörgu eins og því að vera góður við náungann. Það þarf ekki að fela í sér stórar og dýrar gjafir. Það þarf ekki endilega að vera einhver hlutur, það er svo margt annað sem er dýrmætt og gefur meira af sér og endist betur. Góður vinur gefur sér tíma til að hlusta, hann hlustar með hjartanu og sýnir skilning með hlýju og hann sýnir það með snertingu, faðmlagi og orðum.“

Hér að neðan er erindi frá bróður okkar Stein­grími B. Gunnarssyni einum af ræðumeisturum Njarðar.
Með bróður­legri kveðju
Ásgeir Magnússon
STM. Njarðar

Kæri bróðir.

Það er ekki mikið um ferðalög þessa dagana. Ég hef heyrt að margir sakni þeirra og þess að geta ekki ferðast um heiminn að vild, meðan á baráttunni við COVID-19 stendur. Og sumir sakna þess mikið að geta ekki ferðast eins og þeir voru vanir að gera, stundum oft í hverjum mánuði.

Ég heyrði einu sinni sagt að ekkert gerðist í bók, ef ekki væri sagt frá ferðalagi í henni. Það eru bæði gömul og ný sannindi að manneskjan sé í endalausri leit að sjálfri sér og ferðist þess vegna stundum heimsendana á milli. Stundum er reyndar sagt að það sé ferða­lagið sjálft sem skipti mestu máli en ekki ákvörðunar­staðurinn. Þessu er ég að nokkru leiti ósammála. Ég er reyndar sammála því að sjálft ferða­lagið sé mikilvægt, en ekki að ákvörð­un­ar­stað­urinn skipti ekki máli, það er nefnilega ákvörð­un­ar­stað­urinn sem skilgreinir hvernig ferða­laginu er háttað. Það skiptir máli hvert maður stefnir og maður þarf að vita hvers vegna stefnan er tekin á þann stað.

Í bók nokkurri er saga um mann sem var að undirbúa langt og mikið ferðalag til þess að leita af Sannleikanum. Hann hafði heyrt orðróm um að Sannleik­urinn væri í felum eftir að hafa verið plataður af Lyginni. Þessi orðrómur var búinn að vera lengi á sveimi í sveitinni og það pirraði manninn að öllum virtist bara vera sama!

Orðróm­urinn sem hann hafði heyrt var á þá leið að dag einn, endur fyrir löngu, hefðu Sannleik­urinn og Lygin hist. Lygin var yfir sig hrifin að hafa hitt Sannleikann og sagði við hann: „Þetta er nú algjörlega frábær dagur!“ Sannleik­urinn leit upp til himins, og andvarpaði, vegna þess að hann sá að hann var þessu alveg sammála. Þetta var virkilega fallegur dagur.

Sannleik­urinn og Lygin spjölluðu saman smá stund og gengu eftir mjóum stíg þar til þau komu að lítilli og fallegri laug með tandur­hreinu og bláu, tæru vatni. Lygin stakk strax upp á því að þau böðuðu sig saman í lauginni. Og þó að Sannleik­urinn hefði verið efins um að það væri góð hugmynd, afréð hann að gera það og þau afklæddust, og stigu saman út í laugina. Eftir smá busl og skvettur, stökk Lygin skyndilega upp úr vatninu, klæddi sig í föt Sannleikans og hljóp í burtu. Sannleikanum brá mjög þegar hann sá hvað Lygin hafði gert og reiddist að sjálf­sögðu og hljóp kviknakinn hrópandi á eftir Lyginni og vildi fá fötin sín aftur.

Heimurinn, sem þá sá nakinn Sannleikann leit undan hneykslaður og hæddist að honum.

Sorgmæddur og skömm­ustu­legur snéri Sannleik­urinn tilbaka til laugar­innar, steig út í hana og faldi sig í henni.

Síðan þetta gerðist hefur Lygin ferðast um heiminn, íklædd fötum Sannleikans vegna þess að heimurinn vildi ekki sjá nakinn Sannleikann.

Maðurinn í bókinni sem ég var að segja frá, vissi að hann var ekki að fara í skemmtiferð heldur kannski frekar hina mestu svaðilför. Hann undirbjó sig þess vegna af kostgæfni og ferðast nú um heiminn, meðvitaður um þá stefnu sem hann kaus og leitar Sannleikans og berst gegn Lyginni sem svo oft sveipar um sig stolnum klæðum.

Bróðir minn, góðar stundir.

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?