Jónsmessu­skemmtun í Flatey

22. júní 2019

Flatey

Það var fyrir um ári síðan á afmæl­is­fundi í Borg 2018 að upp kom hugmynd, frá br. Willy Petersen, að halda Jónsmessufund í einhverri Breið­ar­fjarðareyjunni.  Strax við borðhaldið hófst vinnan, umræður fóru í gang, heimamenn töldu það engum vandkvæðum bundið, nóg væri jú af eyjum á Breiða­firði sem væru fundar­færar.  Skipuð var nefnd Akurs- og Borgar­bræðra þar sem  þetta var rætt fram eftir hausti án þess að niður­staða fengist.  Er stutt var til áramóta hittust þeir br. Hannes M Ellertsson og br. Baldur Ragnarsson á fundi á Akranesi og þá fyrst kom Flatey upp sem álitlegur kostur fyrir fundarstað.  Hófst nú vinnan við að afla leyfis frá stúkuráði þar sem vel var tekið í allar hugmyndir, málin rædd og niður­staða fengin, sem aðilar voru ánægðir með. Ákveðið var svo að stúkurnar Akur og Borg skildu bjóða til jónsmessu­skemmtunar í Flatey Laugar­daginn 22. Júní 2019 og í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að formlegt frímúr­arastarf hófst á Íslandi

Það var föngu­legur frímúr­ara­hópur sem lagði frá Stykk­is­hólmshöfn með ferjunni Baldri kl. 9:00 laugar­dags­morg­uninn 22. Júní 2019. Ferðinni var heitið til Flateyjar á Breiða­firði þar sem fara átti fram Jónsmessu­fundur og skemmtun á eftir með máltíð og söng. Mikil tilhlökkun skein úr andlitum enda sól á lofti og veðrið með okkur í liði. 

Siglingin tók um 1,5 klst. og á bryggjunni tók á móti okkur heima­mað­urinn br. Baldur Ragnarsson sem rekur út í Flatey verslun og veitingasölu ásamt konu sinni Guðrún Mörtu Ársæls­dóttur og fleira fólki. En br. Baldur hafði veg og vanda af undir­búningi út í Flatey í samráði við undir­bún­ings­nefnd ferðar­innar.

Þegar út í Flatey var komið var farangur hífður í land og hafist handa við að flytja dót sem samanstóð af stólum, hljóð­færum, mati og grill­búnaði. Húsið sem átti að hýsa fundinn og skemmt­unina er gamalt frystihús sem hefur nú verið gert myndarlega upp. Frysti­húsið var byggt á árunum 1946 – 1951. Það voru stórhuga menn sem um miðja síðustu öld vildu hefja Flatey til vegs sem miðstöð samgangna og atvinnu um norðan­verðan Breiða­fjörð, en í eyjunni bjuggu þá um 150 manns. Á þessum blómatíma Flateyjar var hafskipa­bryggja og hraðfrystihús reist. Starf­semin var mest í frysti­húsinu 1952 með tveim vertíð­ar­bátum og fiskvinnslu og með fjölmörgu af aðkomu­fólki þar sem vertíð­ar­stemming ríkti. Við hvarf fisksins af grunnslóð kom árabil lægðar og nýrrar viðleitni í Flatey.  Við þessar aðstæður á seinni áratugum aldar­innar hrörnaði húsið mjög. Til álita kom að rífa húsið og byggja annað minna. Talsmaður þess að heldur yrði gert við frysti­húsið í heild var Hafsteinn Guðmundsson núverandi ábúandi í Flatey. 

Ljóst var að þau hjón Guðrún og Baldur höfðu staðið í ströngu ásamt sínu fólki við undir­búning og að gera aðbúnað þannig að sem best færi um bræður og systur. Við komu í frysti­húsið biðu okkar samlokur og kaffi­hressing, sem tekið var vel í. Því næst var hafist handa við að undirbúa fund bræðra og setja saman mikið grill, smíðað og í eigu br. Magna Rúnars Þorvalds­sonar.

Brr. og systur á Jónsmessuskemmtun

Stúkufundur í Flatey

Stúkufundur bræðra hófst kl. 12:00 í stórum sal á annarri hæð frysti­hússins þar sem stólum, borðum og kerta­stjökum var komið fyrir eins og um stúkusal væri að ræða. Br. Magni Rúnar Þorvaldsson hafði smíðað kerta­stjaka í tilefni fundarins skreyttir skermum úr netakúlum, sem endur­vörpuðu ljósinu fallega. Br. Björgvin Þorvarð­arson hafði svo smíðað fagurlega fundar­hamra sérstaklega í tilefni fundarins. Hornmát og hringfara smíðaði br. Sævar Jónssyni.  Á fundinn voru mættir 75 bræður og klæðnaður var hefðbundinn útivist­ar­klæðnaður. Fundurinn var hátíð­legur og fór fram eins og ritúal Reglunnar gerir ráð fyrir. Stjórnun fundarins var í höndum Stm. Akurs, br. Sæmundar Víglunds­sonar. Á fundinum flutti br. Ólafur Adólfsson V.Rm. Akurs erindi. Meðan bræður funduðu héldu systurnar í gönguferð um eyjuna undir leiðsögn sr. Guðrúnar Mörtu. M.a. var farið í Flateyj­ar­kirkju þar sem sr. Guðrún Marta útskýrði skreyt­ingar í kirkjunni.

Heimsókn í Flateyj­ar­kirkju

Flateyj­ar­kirkja

Eftir góðan fund bræðra var kveikt upp í grillinu og haldið í göngu um Flatey undir leiðsögn Gunnars Sveins­sonar (íbúi Eyjólfshús Flatey) þar sem Flateyj­ar­kirkju var gerð góð skil. (Sjá nánar viðauka um Flateyj­ar­kirkju)

Í heimsókn bræðra í Flateyj­ar­kirkju kom ýmislegt forvitnilegt í ljós, en í málverki Baltasars ber Brynj­ólfur biskup hvíta hanska með rauðum kross og hring í líkingu við hring stórmeistara Frímúr­ar­a­regl­unnar. 

Á Altarinu er kerta­stjaki smíðaður af br. Sigurjóni Jóhannssyni en hann gaf stúku sinni, St.Jóh.st. Eddu samskonar kerta­stjaka. Sigurjón Jóhannsson fæddist í Flatey á Breiða­firði árið 1898 og hvarf til austursins eilífa 1994. Hann gekk í Regluna 1946 og tók virkan þátt í starfinu.

Til gamans má geta þess að við heimsókn systranna í Flateyj­ar­kirkju sagði Guðrún Marta frá því að hún hefði spurt br. Baltasar eitt sinn, þar sem hún hafði bæði heyrt að hann sjálfur væri fyrirmynd Krists á altar­is­töflunni  og að það væri sonur hans, hvað væri rétt í þessu? Hann svaraði henni svo: Eru ekki , faðir og sonur eitt‘‘.

Veðrið lék við okkur og eftir góðan göngutúr um eyjuna og plássið eða miðbæinn í Flatey eins og sumir kusu að kalla var sest undir frysti­hús­vegginn þar sem sólin skein og yljaði fólki. Þar hélt br. Gísli S. Einarsson uppi gleði og glaum með fjöldasöng og undir­spili á harmonikkuna. Nú var glatt á hjalla og stíginn bryggjudans og dansað frá frysti­húsinu og fram á bryggju­sporð.

Veisluhöld

Jónsmessu­skemmtun í Flatey 2019

Þá var komið að veislu­máltíð uppi á annarri hæð frysti­hússins. Boðið var upp á heilgrillaða lamba­skrokka á teini og læri ásamt góðu meðlæti en Stjbr. Borgar, br. Sæþór Þorbergsson, vertinn á Narfeyr­ar­stofu í Stykk­is­hólmi, sá um matreiðsluna. Honum til aðstoðar voru br. Magni Rúnar Þorvaldsson og br. Egill Ragnarsson.

Yfir borðhaldi var slegið á létta strengi m.a. með söng kórs, sem samsettur var úr hópi Akurs- og Borgar­bræðra. Um stjórnun og undirspil sáu br. Gísli S. Einarsson. og br .Friðrik Krist­insson. Br. Gísli S. Einarsson hélt svo uppi skemmtun með gamanefni, fjöldasöng og harmonikku­und­ir­spili með aðstoð br. Eyjólfs Stefáns­sonar, sem spilaði undir á gítar. Br. Gísla eru færðar miklar þakkir fyrir hans skemmtiframlags yfir daginn og þá sérstaklega fyrir að hafa ofan fyrir systrunum meðan bræðurnir skoðuðu Flateyj­ar­kirkju og eyjuna.

Eftir frágang settust sumir undir frysti­hús­vegginn og nutu náttúru og fugla­söngs meðan aðrir brugðu sér í stuttan göngutúr.  

Kl. 20:00 var komið að því að stíga um borð í Baldur og sigla heim á leið. Sólin skein á hafflötinn og Breiða­fjörð­urinn skartaði sínu fegursta með fuglalífi og náttúru­fegurð. Létt var yfir andlitum bræðra og systra og minningar um góðan stúkufund bræðranna og ekki síður máltíð og gleði­stund með systrunum verða vel geymdar. Heild­ar­fjöldi þátttakenda var 135, 74 bræður og 61 systir.

Takk fyrir okkur Breiða­fjörð­urinn fagri, Flatey, br. Baldur og Guðrún Marta.

Fróðleikur um Flateyj­ar­kirkju

Flateyj­ar­kirkja — Úr ferð brr. á Jónsmessufund 2019.

Flateyj­ar­kirkja stendur þar sem eyjan  er hæst. Hún var vígð 19. desember 1926  og er eitt fegursta minnisverk Guðjóns Samúels­sonar, húsameistara og arkitekts. Flateyj­ar­kirkja er falleg, en það sem vekur mesta athygli eru myndir í lofti kirkj­unnar sem lista­mað­urinn Baltasar Samper gerði fyrst árið 1964. þær myndir eyðilögðust alveg vegna raka og annarra ófull­kominna aðstæðna í kirkjunni. Árið 1992 málaði Baltasar ásamt eiginkonu sinni nýjar myndir á kirkju­loftið, en myndirnar sýna, sem hinar fyrri, þætti úr atvinnulífi og sögu hins forna Flateyj­ar­hrepps.

Þegar horft er inn kirkjuna eru myndir sem sýna atvinnu­hætti til hægri en myndir úr sögu og menningu Vestureyja til vinstri.  Innst til hægri má sjá bátasmíði.  Bátasmið­urinn er Jón Daníelsson fyrrum bóndi í Hvallátrum, en Hvallátramenn voru löngum þekktir bátasmiðir og eru enn.  Neðantil við bátana er sauðfé, en sauðfé hefur ávallt verið mikil­vægasta búfé í eyjunum.
Ofantil við sauðféð er útsýn­is­varðan á Kastala í Sviðnum.  Hana reisti Ólafur Teitsson sem bjó í Sviðnum 1841-1889.  Vörðuna sem stendur enn þann dag í dag, reisti Ólafur til að geta fylgst betur með bátsferðum, en einnig til að sjá betur yfir hólma og sker í Sviðnum, sérstaklega þar sem flæði­hætta var.  Einnig þjónaði varðan sem þurrk­hjallur.

Á næstu mynd má sjá mann skafa selskinn.  Maðurinn er Þórður Benja­mínsson sem síðastur manna bjó í Hergilsey.  Þórður bjó síðar í Vestur­búðum í Flatey. Selskinn voru áður mikilvæg tekjulind í eyjunum. Hægra megin við Þórð Benja­mínsson er kona að krafsa dún. Þessi kona hét Guðrún Torfa­dóttir.  Hún var húskona og átti m.a. heima í Sviðnum og Svefn­eyjum.  Bæði konur og karlar kröfsuðu dún, oftar þó konur, og gott dagsverk var talið 2 kg af hreinum dún.  Lengst til hægri er maður að háfa lunda en þar neðan við er kona að taka dún og hagræða hreiðri.  

Innst vinstra megin standa tveir heiðursmenn og sá þriðji situr við skriftir.  Sá sem stendur lengst til hægri og styðst við staf er Ólafur Bergsveinsson bóndi í Hvallátrum 1894-1935.  Ólafur var merkis­bóndi, lista­smiður og frammá­maður í sinni sveit alla sína daga.  Sá sem stefndur við hlið Ólafs með nótnablöð í hendi er Sigvaldi Kaldalóns, en hann var læknir í Flatey 1926-1929.  Sigvaldi samdi mörg þekkt sönglög sín í Flatey.  Meðal annarra má nefna “Ísland ögrum skorið” sem frumflutt var við vígslu kirkj­unnar árið 1926 og sálminn “Kirkjan ómar öll” en hann var frumfluttur í Flateyj­ar­kirkju á jólum sama ár.  Sá sem situr við skriftir er sagna­þul­urinn Gísli Konráðsson.  Gísli var Skagfirð­ingur en Framfara­stofnun Flateyjar gerði samning við Gísla um að hann kæmi til Flateyjar til að skrá sögur og sagnir, en honum yrði í staðinn séður farborði.  Gísli sat síðan að mestu við skriftir frá árinu 1852 þar til hann lést árið 1877.  Það var tilskilið að Framfara­stofnunin eignaðist handrit hans eftir hans dag og þau eru nú varðveitt í Lands­bóka­safninu.

Næst til vinstri eru tvær konur, maður og að baki þeim gulmálað hús.  Þetta eru séra Ólafur Sívertsen prestur og prófastur í Flatey 1823-1860, kona hans Jóhanna Friðrika Eyjólfs­dóttir og Herdís Benedictsen.  Ólafur Sívertsen og Jóhanna Friðrika stofnuðu árið 1833 Framfara­stofnun Flateyjar. Framfara­stofnunin átti eftir að marka djúp spor í menningar- og menntalífi Vestur­eyinga og áhrifa hennar gætti víðar á héraðsvísu og jafnvel landsvísu.  Framfara­stofnunin gat síðar af sér t.d. Bókhlöðuna í Flatey. Árið 1864 var Bókhlaðan í Flatey reist til að hýsa bókasafnið.  Það voru hjónin Brynj­ólfur og Herdís Benedictsen sem lögðu mest til bygging­ar­innar, bæði að framkvæmd og fjármunum, en Framfara­fé­lagið lagði fram 2/5 af kostnaði við húsið.  Myndin á að sýna þegar Herdís Benedictsen afhendir fjárframlag þeirra hjóna.

Á næstu mynd til vinstri má sjá mann sem lyftir bók og hempu­klæddur maður lítur upp til bókar­innar.  Sá sem heldur á bókinni er Jón Finnsson bóndi í Flatey á fyrri hluta 17. aldar.  Jón Finnsson var barna­barna­barnabarn Björns hirðstjóra og Ólafar Lofts­dóttur ríku á Skarði og Flateyj­arbók, sem hann heldur á, var ættar­gripur.  Sá hempu­klæddi er Brynj­ólfur biskup Sveinsson í Skálholti, en hann kom til Flateyjar árið 1647 gagngert þeirra erinda að fala bókina af  Jóni bónda.  Sagan segir að biskup hafi boðið lönd og lausa aura en bókin ekki verið föl.  En þegar biskup gekk til skips gaf Jón honum bókina en biskup mun þó hafa launað hana að fullu.  Árið 1856 sendi svo Brynj­ólfur biskup Danakonungi bókina að gjöf og átti hún ekki aftur­kvæmt til Íslands fyrr en árið 1971 er hún og Konungsbók Eddukvæða voru afhentar Íslend­ingum við hátíðlega athöfn í Háskólabíói í upphafi handrita­skila.

Enn lengra til vinstri sést vopnaður maður með sverð og skjöld og stendur á bergbrún.  Ekki eru allir á einu máli hver maðurinn sé.  Sumir segja Ingjaldur í Hergilsey en flestir að þetta sé Gísli Súrsson og stendur hann á brún Vaðsteina­bjargsins í Hergilsey. Ingjaldur bóndi í Hergilsey (sem var sonur Hergils hnapprass Þránd­ar­sonar mjóbeins er nam Vestur­eyjar) leyndi Gísla Súrsyni í Hergilsey í þrjú ár eftir að Gísli var orðinn útlægur. Hergilsey var síðan í eyði um aldir eða allt til þess er Eggert Ólafsson “hinn betri” fékk hana til ábúðar á 18. öld.

Altar­is­taflan er mynd af bryggjunni í Flatey og sýnir Krist með fiski­mönnunum.  Kristur sem er íklæddur lopapeysu líkist talsvert lista­manninum sjálfum og fiski­menn­irnir eru þeir Hafsteinn Guðmundsson bóndi í Flatey og Jóhannes Gíslason bóndi í Skáleyjum.  Á bryggjukantinn er letrað Mt. 4. 18-22, en í Matteus­ar­guð­spjalli, kafla 4, versunum 18-22 segir:  “Hann gekk með Galelíu­vatni og sá tvo bræður, Símon, sem kallaður var Pétur, og Andrés, bróður hans, vera að kasta neti í vatnið, en þeir voru fiskimenn.  Hann sagði við þá:  “Komið og fylgið mér, og ég mun láta yður menn veiða”.  Og þegar í stað yfirgáfu þeir netin og fylgdu honum.  Hann gekk áfram þaðan og sá tvo aðra bræður, Jakob Sebedeusson og Jóhannes, bróður hans.  Þeir voru í bátnum, með Sebedeusi föður sínum, að búa net sín.  Jesús kallaði þá, og þeir yfirgáfu jafnskjótt bátinn og föður sinn og fylgdu honum”.

Í loftinu svífur svo örn ofar útsýn­is­vörðu Ólafs Teits­sonar í Sviðnum. 

Í kirkjunni var áður altar­is­tafla eftir danska málarann Anker Lund.  Í kirkjunni eru einnig ýmsir munir úr eldri kirkjum og munir sem gefnir hafa verið af sóknar­börnum og öðrum á ýmsum tímum. Predik­un­ar­stóllinn sem er frá árinu 1833 og sálma­töfl­urnar og litlu kerta­stjak­arnir eru úr gömlu kirkjunni.  Þegar gamla kirkjan var rifin fannst lítið marmara- eða alabast­urs­líkneski af Jóhannesi postula, en hann var vernd­ar­dýr­lingur Flateyj­ar­kirkju í kaþólskum sið.  Talið er að líkneskið sé frá 15. eða 16. öld, þ.e. kaþólskum tíma. 

Kirkja hefur staðið í Flatey frá 11. eða 12. öld.  Í Flatey stóð klaustur frá 1172-1184 en þá var það flutt að Helga­felli í samnefndri sveit.  Klaust­ursins sjást nú engin merki utan klaust­ur­steinsins sem svo er kallaður.  Steinninn er talin hafa verið í hliði klaust­ursins og í hann er klappaður bolli sem í mun hafa verið vígt vatn sem klaust­ur­bræð­urnir signdu sig með á morgnanna.

Samantekt þessa um Flateyj­ar­kirkju, lista­verkin og sögu hennar er unnin upp úr texta sem Guðmundur Stefánsson á Myllu­stöðum tók saman.

Aðrar fréttir

Innskráning

Hver er mín R.kt.?