Jónsmessuferð Fenris 2019

Jónsmessu­fundur hjá Rún Akureyri og hringferð um landið

Fenrir, vélhjóla­klúbbur frímúrara, fór í fimm nátta Jónsmessuferð hringinn í kringum landið  22. -27. júní sl. Þrettán brr. á jafnmörgum hjólum lögðu af stað ásamt fimm farþegum árla morguns laugar­daginn 22. júní sl. Stefnan var sett norður til Akureyrar í blíðskap­ar­veðri alla leiðina og megnið af hringnum. Tvö hjól bættust við daginn eftir en mest voru 16 hjól í ferðinni og 11 þeirra fóru allan hringinn.

Eknir voru 1.804 km í ferðinni en þeir sem ekki eru búsettir í Reykjavík óku enn lengra. Gist var í Sæluhúsum á Akureyri, Hótel Bláfelli á Breið­dalsvík og Hótel Laka á Kirkju­bæj­arklaustri. Félags­skap­urinn var góður eins og ávallt og hópurinn átti því góða daga á Akureyri sem og í hring­ferðinni allri.

 

Jónsmessuferð Fenris 2019

Jónsmessuferð Fenris 2019

Oft var stoppað, margt skoðað og ýmis tengsl voru nýtt til að allir fengju sem mest út úr ferðinni. Á fyrsta degi var stoppað á Blönduósi í boði „Húnanna“, Óskars Húnfjörð og co sem skipu­lögðu heimsókn í matvæla­verk­smiðjuna Vilko.  Kári Kárason framkvæmda­stjóri tók á móti hópnum og fór hratt yfir sögu fyrir­tæk­isins og verkefni þess sem eru fjölmörg. Það er ekki bara Vilko súpur og vöffludeig sem fyrir­tækið framleiðir, heldur pakkar það líka kryddi í fjölmörgum tegundum undir vörumerkinu Prima og fékk hópurinn krydd­stauka í kveðjugjöf. Fyrir­tækið framleiðir einnig bætiefna­hylki fyrir fjóra framleið­endur.

Á öðrum degi, 23. júní, var byrjað í morgunmat hjá br. Jóni Þór Hannessyni og Valgerði Lárus­dóttur í frábæru veðri; blár himinn og 19° hiti. Þar voru br. Árni Ólafur Lárusson og Sólveig Hannam líka mætt. Hópurinn fékk afar flottar móttökur hjá þessum heiðurs hjónum. Þaðan var hjólað upp á Hlíðar­fjall og naut hópurinn glæsilegs útsýnis. Næst var brunað í jólahúsið i og þaðan á Hauganes. Þar var smakkaður saltfiskur hjá br. Elíasi Reykjalín á Baccalá bar og góðar móttökur fékk hópurinn svo sannarlega. Þrjú hjól úr bænum mættu á Hauganes til viðbótar við hin 13 og saman fóru hópurinn á 16 hjólum til Siglu­fjarðar þar sem ætlunin var að skoða Segul 67 brugghús en þar var enginn mættur til að taka sýning­ar­túrinn. Brunað var því inn á Akureyri þar sem br. Addi og fleiri brr. tóku að sér að grilla fyrir hópinn. Br. Árni  Ólafur og br. Jón Þór mættu í grillið ásamt Sólveigu og Valgerði, eigin­konum sínum.

Jónsmessuferð Fenris 2019

Á þriðja degi, 24 júni, var ræst kl 10 og lagt af stað í átt að Goðafossi. Veðrið var þokkalegt á Akureyri eða 14° en skýjað. Frá Goðafossi var hjólað að Laxár­virkjun en þar var tekið á móti hópnum sem fékk að skoða innri kima í virkj­un­ar­innar. Frá Laxár­virkjun var hjólað til Húsavíkur þar sem dóttir Atla formanns bauð hópinn velkominn við húsið Skarð. Þar var boðið upp á grillaðar pylsur í glampandi sól og hita í garðinum. Frá Húsavík fóru sumir að Sjóböðunum að skoða og aðrir að bílasafninu á Ystafelli. Menn týndust svo í hús einn af öðrum seinnipart dags. Kl. 18 fóru svo brr. á Jónsmessufund Rúnar eftir viðamiklar mynda­tökur á hjólunum sínum, uppábúnir eins og hefð er fyrir. Systurnar níu fóru á meðan út að borða á veitinga­staðnum Rub23 og áttu góða stund saman. Br. Þórður ákvað að hjóla einn í bæinn eftir fundinn og gekk allt vel hjá honum.

Á fjórða degi voru þrjú hjól sem héldu suður og ellefu hjól lögðu af stað frá Akureyri áleiðis austur. Á Egils­stöðum var stoppað til að skoða Frímúr­ara­húsið hjá Vöku og tók Óskar Stm. á móti hópnum. Næsta stopp var á Fáskrúðs­firði. Franska sjúkra­húsið var skoðað og þótti uppgerð hússins hafa tekist afar vel. Fjóla safnvörður fór á kostum og sagði okkur m.a. söguna um frönsku sjómennina í stuttu máli. Nú var orðið nokkuð áliðið og stefnan tekin á Breið­dalsvík þar sem tekinn var fordrykkur og lambakjöt snætt. Gleði og léttleiki var í algleymingi en kíkt var meðal annars á heima­brugg­húsið Beljanda þar sem strák­arnir fóru að leika sér.

Jónsmessuferð Fenris 2019

Á fimmta og næstsíðasta deginum var lagt af stað frá Hótel Bláfelli í átt að Kirkju­bæj­arklaustri eða um 360 km dagleið. Veðrið var bjart alla leiðina og fór hitinn mest úr 13° í 21°. Þetta var nokkuð löng dagleið og því ekki tími til að stoppa oft. Á Höfn var br. Magnús Ingi Magnússon búinn að mæla með „street food“ matar­vagni við höfnina sem var alveg tilvalið enda veðrið mjög gott. Þar var aðalrétt­urinn Humar borgari og franskar. Gaman var að sjá uppbygg­inguna á Höfn þar sem margir flottir veitinga­staðir hafa skotið upp kollinum. Frá Höfn var farið í einum áfanga að Jökuls­árlóni, þar sem vart var þverfótað fyrir ferða­fólki. Lítið var um laus stæði, líkt og í Reykjavík. Nokkrar framkvæmdir voru á vegum og nýtt slitlag víða, sem var gróft og varhugavert, en allt fór vel hjá hópnum. Það voru því þreyttir en sælir hjóla­fé­lagar sem áðu á Hótel Laka á Kirkju­bæj­arklaustri. Þrír þurftu að halda áfram og yfirgáfu hópinn á Klaustri. Þá voru átta hjól eftir.

Hópurinn lagði af stað kl. 9.30 frá Hótel Laka. Veður var gott, hitinn 13° og léttskýjað. Fyrsta stopp var á Vík en þegar lagt var af stað þaðan kom úrkoma en það var aldrei meira en bara súld. Það þurfti því enginn að taka fram regngallann. Stutt stopp var á Hvols­velli og brunað á Selfoss þar sem br. Magnús var búinn að undirbúa komu okkar á Surf & turf hjá Baldri æskufélaga sínum. Aðalrétt­urinn var hrossa­mín­útu­steik sem rann ljúflega í þá sem vildu smakka. Á Selfossi skildu leiðir því Suður­nesjabúar (3 hjól) héldu Suður­stranda­veginn heim en Höfuð­borg­ar­bú­arnir (3 hjól) völdu Hellis­heiðina. Komið var í bæinn um kl 14.15 og er ekki annað hægt að segja en að ferðin hafi tekist vonum framar; allir komust heilir heim og engin óhöpp eða bilanir.

Aðrar fréttir

Innskráning

Hver er mín R.kt.?