Starfsemi innan Frímúrarareglunnar tímabundin stöðvuð — Uppfært 24. febrúar 2021 Sjá nánar.

Jólakveðja 2020

Kæru bræður.

Það er komin vetrartíð með veður köld og stríð,
ég stend við gluggann, myrkrið streymir inn í huga minn.
Þá finn ég hlýja hönd, sál mín lifnar við
eins og jurt sem stóð í skugga en hefur aftur litið ljós,
mín vetrarsól.

Það kannast flestir við þetta fallega ljóð sem Ólafur Haukur Símon­arson orti.  Lífsins ganga er margslungin og við ferðumst um fjöll og dali.  Stundum er leiðin greið og gatan breið en stundum er dalurinn dimmur og djúpur og við sjáum jafnvel ekki hvernig við komumst upp úr honum.  Þá er gott að eiga vin, bróðir sem réttir fram hlýja hönd, bróðir sem hughreystir og leiðbeinir.  Síðasta ár hefur verið mörgum erfitt. Hefðbundið starf bræðra­lagsins okkar hefur riðlast verulega og samveru­stundir að mestu horfið. Við höfum þó nýtt okkur tæknina eftir fremsta megni og þannig reynt að halda einhverjum tengslum.  

Við getum huggað okkur við það að það virðist vera að birta til í þeim dimma dal sem heims­byggðin öll er að ganga í gegnum.  Lífsins skóli getur verið harður en öllum upplifunum fylgir lærdómur og það er mikilvægt að reyna draga fram jákvæðan lærdóm úr öllum kring­um­stæðum.  Að hittast, faðmast og snerta hvort annað án þess að hafa áhyggjur var sjálfsagt og eðlilegt fyrir ári síðan en varð allt í einu varasamt og óæskilegt.  Ég held t.d. að margir muni kunna betur að meta það að geta aftur átt nánari samskipti við ættingja og vini, farið í leikhús og á mannamót.  

Í dag höfum við lifað hinn dimmasta dag vetrarins og sól fer aftur að hækka á lofti.  Og með hækkandi sól og bóluefni mun lífið vonandi falla í eðlilegan farveg og við bræður mínir, aftur hafið störf með hefðbundnum hætti.  Jólahá­tíðin er framundan og verður hún eflaust með breyttu sniði hjá mörgum en verum minnug þess að við erum fyrst og fremst að minnast og fagna komu Frels­arans. „Ég er ljós heimsins“ sagði Jesús og um jólin fögnum við fæðingu hans.  Hans sem kom með hið sanna ljós og innri frið sem öllum mönnum stendur til boða sem trúa og vilja þiggja.

Brátt nálgast sú helgasta hátíð í bæ
með heilögu ljósunum björtum.
Andi Guðs leggst yfir lönd yfir sæ
og leitar að friði í hjörtum.

En nú virðist fegurðin flúin á braut
friðurinn spennu er hlaðinn.
Lífsgæðakapp­hlaup og kauphall­ar­skraut
er komið til okkar í staðinn.

Þó vill hann oft gleymast, sem farveg oss fann
fæddur í jötunnar beði.
Við týnum úr hjartanu trúnni á hann
og tilefni jólanna gleði.

Vökvaðu bróðir kærleikans rós
þá veitist þér andlegur styrkur.
Kveiktu svo örlítið aðventuljós,
þá eyðist þitt skamm­deg­is­myrkur.

Það ljós hefur tindrað, aldir og ár
yljað um dali og voga.
Þó kertið sé lítið og kveik­urinn smár
mun kærleikur fylgja þeim loga.

Láttu svo kertið þitt lýsa um geim,
loga í sérhverjum glugga.
Þá getur þú búið til bjartari heim
og bægt frá þér vonleys­is­skugga.

Hákon Aðalsteinsson

Kæru vinir. Jólin snúast um það að feta í fótspor hirðingjanna. Fara til Betlehem og veita barninu í jötunni lotningu.  Sjálfum Guði. Það er hinn mikli leynd­ar­dómur jólanna,  að Guð sjálfur gerðist maður.  Það Betlehem og það fjárhús sem við erum kölluð til, er ekki á ákveðnum landfræði­legum stað eða á ákveðnum tíma.  Það Betlehem og það fjárhús er í hjarta okkar.  Þar þráir Jesú að fæðast.  

Bestu óskir um gleðileg jól til þín og fjölskyldu þinnar.  Megi nýtt ár færa ykkur aukna samveru, hamingju og frið í hjarta.

Jakob Kristjánsson Rm. Hamars

 

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?