Öll starfsemi innan Frímúrarareglunnar tímabundin stöðvuð — Uppfært 7. nóvember Sjá nánar.

Í vetrar­byrjun

Kæri bróðir

Undan­farin ár höfum við safnast saman í stúkusal okkar á miðviku­dögum og látið birtuna umvefja okkur alla og stunda íhugun og njóta birtunnar í okkar starfi, sem við tökum svo með okkur heim til okkar nánustu.

Annar háttur er hafður á þessa dagana og hvet ég ykkur til að setjast niður í kvöld og íhuga það góða og fara yfir í huganum dyggðir okkar og birtuna í lífinu og njóta samver­unnar með ykkar nánustu til hins ýtrasta.

Ég verð þó að segja að fyrir mér er veturinn yfirleitt góður þegar snjór fellur á jörð og tekur yfir myrkrið, einnig er hægt að fara til fjalla og njóta náttúru­feg­urðar þessa árstíma, sem getur verið alveg einstök.  Jú allar árstíðir hafa sinn sjarma, hér var til dæmis einstök náttúru­fegurð í gærmorgun þega skýin sýndu sitt fegursta í morgunsárið, þegar sól reis í austri og kastaði geislum sínum á okkur öll.

Verum bjart­sýnir og gætum að okkar starfi utan stúkunnar með jákvæðni og visku að vopni og þá mun okkur farnast vel í starfi og leik. Hér að neðan eru hugleið­ingar bróður okkar Þóris Matth­ías­sonar til okkar bræðranna.

Með ósk um að við sjáumst sem allra fyrst við störf og leik.
Með bróður­legri kveðju
Ásgeir Magnússon STM. Njarðar

– – –

Kæri bróðir,
Upphaf vetrar er með allt öðrum hætti en áður, starfið liggur niðri og öllu hefur verið slegið á frest.  Það var dauf skíma í upphafi starfsárs sem gaf okkur veika von um að starfið gæti hafist með eðlilegum hætti en því miður varð sú ekki raunin, allir vitum við hver ástæðan er.  Í aðstæðum sem þessum er gott að láta hugann fara með sig á flug, já og jafnvel alla leið á fund, ekki síst á þeim dögum sem fundir áttu að vera samkvæmt fundarplani.  Í dag þann 28.  október átti að vera fundur hjá okkur í Nirði, fyrstu gráðu fundur, upptaka.

Við skulum því ferðast saman í huganum – hægt og rólega.  Vinnudegi að ljúka.  Með tilhlökkun hugsum við um klukku­stund­irnar framundan, þær sem eftir lifa dags.  Sækjum vinnu­fötin inn í skáp og undir­bún­ingur fyrir fundinn hefst.  Opna stóru hurðina í Ljósatröð, stíga innfyrir, á móti okkur tekur öðruvísi andrúmsloft eða einhvers­konar lykt sem erfitt er að útskýra.  Það gerir hver með sínum hætti, tilfinn­ingin er tilhlökkun, vellíðan og svolítil spenna.  Kunnugleg andlit, handarband, knús og faðmlag.

Allt á sínum stað og klukkan nálgast tíma.  Þetta er okkar staður og stund sem er um það bil að hefjast.  Ljósin slökkt, þögnin og myrkið tekur yfir, kertaljós þó.  Augunum lygnt aftur og dreginn djúpur andar­dráttur, etv. farið með stutta bæn innra með sér.  Fundur hefst, tónlist, innganga og upphaf fundar.  Á næstu mínútum, fundarsköp sem einkennast af öryggi, vandvirkni og aga. Friður, hvíld, ró.  Verkefnum lýkur.  Fundarslit á siðbundin hátt.

Að láta hugann leiða sig í gegnum fund er góð tilfinning, setjast niður á góðum stað, í næði og láta hann taka yfir og ráða för um stund.  Án efa eru bræður sem gera þetta og hafa etv. gert í langan tíma en alla hina vil ég hvetja til að gera slíkt hið sama.  Hvenær við fáum að hittast að nýju veit engin sem stendur.  Ýmislegt þarf að gerast áður, bæði hlutir sem við getum stjórnað og haft áhrif á og einnig hlutir sem engin getur stýrt.  Mikilvægt er þó að hafa í huga að við munum koma saman að nýju.

Japönsk speki segir í þessum fallegu orðum: „Margur er tálminn á leið fljótsins; Þó nær vatnið allt sem kvíslast um eyrar og björg að renna saman að nýju.“

Að lokum kæru bræður langar mig að senda ykkur þetta fallega ljóð með von um að H.H.H.H.o.J leiði okkur saman á ný sem fyrst.

Með bróður­legum kveðjum
Þórir Matth­íasson

Þegar næðir í mínu hjarta og í huga mér engin ró
og ég þrái að sjá hið bjarta sem að áður í mér bjó
þá er lausnin alltaf nálæg, ef um hana í auðmýkt bið
og með bæninni kemur ljósið og í ljósinu finn ég frið.

Ó, svo dapur er dagur vaknar, dægur­þrasið svo fjarri er.
Mundu þegar þú sárast saknar og sólin skín hvergi nærri þér
að í bæn er falinn máttur er þig magnar þúsundfalt
því með bæninni kemur ljósið og í ljósinu lagast allt.

Ég vil mæta þessum degi, fagna öllu sem fyrir ber
og ég bið þess að ég megi njóta alls sem hann gefur mér.
Ef ég bið á hverjum degi, hef ég von sem aldrei deyr
því með bæninni kemur ljósið og í myrkri ég geng ei meir.

Höf. Páll Óskar/Brynhildur Björns­dóttir

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?