Í tilefni systra­kvöldsins sem ekki varð…

Kveðja stólmeistara Njarðar til bræðra og systra á systra­kvölds­tímum.

Góðan dag bróðir minn.
Á morgun lauga­daginn 13. febrúar ætluðum við að halda systra­kvöldið okkar, en vegna aðstæðna í landinu okkar góða og um allan heim, þá verður ekkert af því að sinni. Bræður mínir ég hvet ykkur til að minnast systranna og gera ykkur glaðan dag eins og mögulegt er.

Að minnast góðrar móður
er mannsins æðsta dyggð
og andans kærsti óður
um ást og móður­tryggð.
Hjá hennar blíða barmi
er barnsins hvíld og fró.
Þar hverfa tár af hvarmi
:,: og hjartað fyllist ró. :,:

Og hér við glaum og gaman
á gleðin æðstu völd.
Vér syngjum allir saman
vort systr­aljóð í kvöld.
Vér biðjum gæfu og gengi
að gleðja þeirra sál.
Þær allar lifi lengi.
:,: Vér lyftum þeirra skál. :,:

Það er markmið Frímúr­ar­a­regl­unnar að göfga og bæta mannlífið og óhætt er að segja að félagar í Frímúr­ar­a­reglunni á Íslandi séu þverskurður af þjóðfé­laginu. Við inngöngu í Frímúr­ar­a­regluna eru þeir hvorki betri né verri en aðrir þjóðfé­lags­þegnar og líta ekki á sig sem slíka, en markmiðið með veru sinni í Reglunni er að verða betri þjóðfé­lags­þegnar til hagsbóta fyrir sjálfa sig, fjölskyldur sínar og þjóðfé­lagið í heild.

Böðvar Jakobsson skáld hafði þetta að segja:

Svífur minn hugur heim,
hljótt yfir öldugeim,
unz honum birtist þar eyland í sænum.
Há fjöll með hvítar brár,
heiðar með vötn og ár,
dunandi fossar í dölunum grænu.

Hátt yfir heiðaland,
hraunið og breiðan sand,
fannhvítur jökullinn ber sína bungu.
Sólin má þýða þann
þegar hún bræðir hann.
Steypast til sjávarins straum­vötnin þungu.

Víða um hæðarheim,
hveranna sé ég eim,
lækina smáu og lindirnar tæru.
Finn ég þar fjallagrös,
fer út á klettasnös;
lít yfir brekkur með blómunum kæru.

Tengi ég bróðurband
betur við sólarland,
þjóðina góðu sem þar er að starfa.
Andans við orkulind
er hún nú fyrirmynd,
smáþjóðin fjölhæfa, frjálsa og djarfa.

Ég læt fylgja með smá gamansögu af Akureyr­ingum sem eru ekki áttavilltir í firðinum.

Sölumaður fer Norður til Akureyrar.

Hann tók flugvél Norður og var sölumaður í bygging­ar­vörum. Þegar hann lendir á Akureyri er hið besta veður sól og sunnan blíða. Út frá því ákveður hann að sleppa bílaleigu­bílnum og ganga um bæinn, jú það tekur ekki langan tíma og því ekki að njóta veður­blíðunar sem var þennan dag og haft eftir Akureyr­ingum (…svona er þetta alltaf).

Sölumaðurin gengur í átt til bæjarins og nýtur veður­blíð­unnar og hlakkar til dagsins og ekki síst kveldsins þar sem hann hefur ákveðið að gista á Hótel KEA og njóta þar mat og drykkjar og góðs svefns.

Nú er hann komin fyrir neðan Bautan og þarf að spyrja til vegar því jú hann hefur aldrey komið til Akureyrar áður. Hann sér mann álengdar og gengur til hans og spyr hvar er Gránu­fé­lagið og maðurinn svarar; labbaðu til Norðurs og næstu götu til vesturs stutt og svo beint norður og þá ertu komin og er búðin austan­megin á götunni. Úps, en honum tekst að finna búðina og selur bara vel.

En svo er það út aftur en áður spyr hann versl­un­ar­mannin í Gránu­fé­laginu hvar er Bygginga­verslun Tómasar? Og svarið er: Labbaðu út og farðu í norður og svo í austur næstu götu og svo aftur í norður eftir tvær götur og þá labbarðu í norður þar til verslunin er þér á austur hlið áður en þú kemur að Glerábrú.

Minn maður labbaði af stað og villtist nokkrum sinnum og spurði til vegar en alltaf var honum bent í allar áttir en honum tókst loks að finna leiðina til BT. Þaðan bað hann um leiðbein­ingar til að finna Slippinn og sama sagan þar, austur og norður. Svona gekk dagurinn fram og aftur búð eftir búð, þar til að KEA hótelið var innan seilingar og hann bókaði sig inn. En nú var það barinn og svo matur og þægilegheit sem komu sér vel eftir vel áttaðan dag.

Settist hann niður og naut matarins þar til þjónninn kom og bauð honum ábót á matinn, hélt hann á fati með mat á. Þjónninn spyr kurteislega; „Má bjóða þér ábót?“ Já, takk segir sölumað­urinn og setur þjónninn kjét á disk hans og spyr, viltu líka grænmeti? Já, segir okkar maður og settu helvítis grænmetið norðan­megin á diskinn!

Bræður mínir, við hugsum til sjúkra bræðra með ósk um skjóta endur­fundi og höfum þá með í bænum okkar.

Með bróður­legri kveðju
Ásgeir Magnússon
Stm. Njarðar

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?