Fyrra tölublað Frímúrarans, tímarits Reglunnar, fyrir árið 2024 er komið út og er dreifing á blaðinu nú hafin til bræðra vítt og breitt um landið.
Eins er blaðið nú aðgengilegt á vefnum, bæði innri- og ytri hluta hans.
Smellið hér til að skoða blaðið í heild sinni, sem og eldri tölublöð.
Í þessu blaði kennir ýmissa grasa og er rætt við frímúrarabræður úr ýmsum áttum. Þá er fjallað um margt af því sem bar á góma á liðnu starfsári, ekki síst Regluhátíð og Stórhátíð sem marka ætíð stóran sess í starfinu. Þá er einnig fjallað um klúbbastarf bræðranna og skemmtilegri hjólaferð Sleipnis gerð skil, jafnt á forsíðu blaðsins og í grein á síðu 2. Þá er í blaðinu að finna skemmtilega ferðasögu sem formaður Fenris, bifhjólaklúbbs frímúrarabræðra, skrifaði í blaðið ásamt eiginkonu sinni, Jóhönnu Rúnarsdóttur.
Umfjöllun um bókasafnið
Stefán Einar Stefánsson er ritstjóri Frímúrarans og segist hann ánægður með útgáfuna.
„Við erum glaðir með hvernig til hefur tekist. Blaðið er stærra nú en nokkru sinni fyrr eða 64 síður og það gerir okkur kleift að fjalla um málin vítt og breitt úr reglustarfinu. Við gerum meðal annars grein fyrir 100 ára afmæli bókasafns Reglunnar en haldið verður upp á það með glæsilegu opnu húsi og sýningu í Bríetartrúni á menningarnótt, 24. ágúst næstkomandi.“
Segir Stefán Einar að mikil vinna liggi að baki útgáfu sem þessari og að margar hendur komi þar að.
„Það þarf vissulega að skrifa textann í blaðið en það væri til lítils ef ekki væri fyrir allar þær frábæru ljósmyndir sem flestar hverjar koma úr smiðju ljósmyndavarða Reglunnar. Blaðið er fjármagnað með auglýsingum og feikileg vinna fer í að ala þeirra úr ýmsum áttum. Þá er ekki komist hjá því að nefna aðkomu bróður okkar, Harðar Lárussonar, sem hannar blaðið og brýtur það um. Þar liggja mjög mörg handtök að baki,“ útskýrir Stefán Einar.
Nýtt útlit og endurbætt
Líkt og fjallað hefur verið um, tók Frímúrarinn stakkaskiptum, ef svo má segja, í síðasta tölublaði ársins 2023. Þá voru miklar útlitsbreytingar gerðar á blaðinu sem hafði lítið breyst allt frá því að það kom fyrst út fyrir 20 árum.
Hafa ritstjórn Frímúrarans borist ábendingar um hvað betur megi fara í hinni nýju útgáfu og tillit hefur verið tekið til þess í nýjasta tölublaðinu.
„Okkar helsta markmið er að gefa út læsilegt og fróðlegt blað sem um leið geti glatt augað. Frímúraranum er ætlað að glæða áhuga bræðrahópsins á starfinu og halda honum upplýstum um það sem hæst ber í starfinu á hverjum tíma. En blaðið er einnig hugsað sem gluggi inn í starfið, bæði fyrir eiginkonur bræðra en einnig karlmenn sem eru að velta fyrir sér þeim möguleika að knýja dyra í stúkustarfinu,“ segir Stefán.
Mega liggja víðar frammi
„Við hvetjum bræður til þess að taka auka eintök og koma þeim fyrir á biðstofum og annarsstaðar þar sem það getur vakið athygli á því góða starfi sem stundað er innan og utan veggja Frímúrarareglunnar á Íslandi og í hennar nafni,“ segir Stefán Einar.
Að lokum vill hann koma á framfæri þakklæti til allra þeirra fyrirtækja sem leggja blaðinu lið með auglýsingum og styrktarlínum í blaðinu. Án þessara bakhjarla segir Stefán Einar að tómt mál væri að tala um að halda jafn glæsilegri útgáfu úti og raun ber vitni.