Starfsemi innan Frímúrarareglunnar tímabundin stöðvuð — Uppfært 13. janúar 2021 Sjá nánar.

Hátíð­ar­fundur Frímúr­ar­a­regl­unnar — Myndir

Eldborg 7. apríl 2019

Hátíð­ar­fundur Frímúr­ar­a­regl­unnar á Íslandi — 100 ára starf frímúrara — 7. apríl 2019

Hátíð­ar­fundur Frímúr­ar­a­regl­unnar á Íslandi fór fram í Eldborg­arsal Hörpu sunnu­dags­kvöldið 7. apríl 2019 en þar var minnst 100 ára afmælis frímúr­ara­starfs á Íslandi. Hann var þétt setinn bekkurinn og er óhætt að fullyrða að Eldborg hafi skartað sínu allra fegursta þetta kvöld. Mikil­fengleg ljósa­sýning tók á móti hátíð­ar­gestum og skreytti gólf og veggi salarins þar sem frímúr­aratákn dönsuðu í rökkrinu, tónlist liðaðist um salinn og smeygði sér inn um hlustir gesta og  sviðið var sem nýr og áður óþekktur stúku­salur. Dagskráin var stórglæsileg, viðamikil og fjölbreytt og þurfti ekki nema nokkur andartök af henni til að greina að undir­bún­ingur að þessum hátíð­ar­fundi hafði staðið yfir um nokkurra missera skeið. Dagskrár­stjórn var í höndum Magnúsar Viðars Sigurðsson og Björns Þóris Sigurðs­sonar og tónlist­ar­stjórn í höndum Jónasar Þóris og er heldur dregið úr þegar sagt er að þeim hafi farnast verkið afar vel úr hendi.

Einvalalið tónlist­ar­manna og söngvara kom fram og má þar nefna Frímúr­arakórinn, félaga úr Sinfón­íu­hljóm­sveit Íslands, Kristján Jóhannsson, Egil Ólafsson, Kolbein Jón Ketilsson, Valdimar Hilmarsson, Ívar Helgason, Ásgeir Pál Ágústsson, Sigurð Helga Pálmason, Guðrúnu Gunnars­dóttur, Hjörleif Valsson, Sigríði Ósk Kristjáns­dóttur, Eddu Borg, Hrafnkel Pálmarsson, Ísold Ötlu Jónas­dóttur, Birgi Hrafnsson, Bjarna Svein­björnsson, Friðrik Sturluson, Gunnar Gunnarsson, Gunnlaug Briem, Hannes Friðbjarn­arson og Örnólf Kristjánsson.

Þá var frumsýnd ný heimild­armynd um sögu og starf frímúrara á Íslandi síðustu 100 ár eftir Jón Þór Hannesson, Rúnar Hreinsson, Rafn Rafnsson og Steingrím Sævarr Ólafsson. Er hægt að staðhæfa að meiri og nánari innsýn í starf frímúrara á Íslandi hafi líklega aldrei áður verið veitt. Var myndinni afar vel tekið af hátíð­ar­gestum og má telja líklegt að myndin eigi eftir sjást víðar en eingöngu á stóra tjaldinu í Eldborg­arsal.

Ávörp fluttu Valur Valsson, stórmeistari Frímúr­ar­a­regl­unnar á Íslandi, Allan Vagn Magnússon, hersir Stórmeistara, Guðmundur Kr. Tómasson, merkisberi R. og Ólafur Sæmundsson, flutti gamanmál.

Ekki þarf að fjölyrða um ánægju gesta fundarins að honum loknum, bros var á hverri vör og ánægjublik í auga. Frímúrarar, makar og aðrir gestir streymdu út í svala vornóttina sem tók á móti þeim í stillu og birtu. Svona eiga hátíð­ar­fundir að vera.

Ljósmyndarar Ljósmynda­safns Frímúr­ar­a­regl­unnar voru á staðnum og tóku myndir af gestum og hátíð­ar­fundinum sjálfum.

Þá voru einnig til myndir sem áður höfðu verið teknar við undir­búning hátíð­ar­fund­arins og gefa innsýn inn í þá miklu vinnu sem unnin var við undir­búning þessa stórglæsilega hátíð­ar­fundar.

Í mynda­al­búmunum tveimur sem fylgja þessari frétt er hægt að skoða þessar myndir gestum og gangandi til ánægju.

Aðrar fréttir

ZOOM fundur
Um vonina
Að leggja við hlustir
Falleg saga

Innskráning

Hver er mín R.kt.?