Hátíð­ar­fundur Frímúr­ar­a­regl­unnar — Myndir

Eldborg 7. apríl 2019

Hátíð­ar­fundur Frímúr­ar­a­regl­unnar á Íslandi — 100 ára starf frímúrara — 7. apríl 2019

Hátíð­ar­fundur Frímúr­ar­a­regl­unnar á Íslandi fór fram í Eldborg­arsal Hörpu sunnu­dags­kvöldið 7. apríl 2019 en þar var minnst 100 ára afmælis frímúr­ara­starfs á Íslandi. Hann var þétt setinn bekkurinn og er óhætt að fullyrða að Eldborg hafi skartað sínu allra fegursta þetta kvöld. Mikil­fengleg ljósa­sýning tók á móti hátíð­ar­gestum og skreytti gólf og veggi salarins þar sem frímúr­aratákn dönsuðu í rökkrinu, tónlist liðaðist um salinn og smeygði sér inn um hlustir gesta og  sviðið var sem nýr og áður óþekktur stúku­salur. Dagskráin var stórglæsileg, viðamikil og fjölbreytt og þurfti ekki nema nokkur andartök af henni til að greina að undir­bún­ingur að þessum hátíð­ar­fundi hafði staðið yfir um nokkurra missera skeið. Dagskrár­stjórn var í höndum Magnúsar Viðars Sigurðsson og Björns Þóris Sigurðs­sonar og tónlist­ar­stjórn í höndum Jónasar Þóris og er heldur dregið úr þegar sagt er að þeim hafi farnast verkið afar vel úr hendi.

Einvalalið tónlist­ar­manna og söngvara kom fram og má þar nefna Frímúr­arakórinn, félaga úr Sinfón­íu­hljóm­sveit Íslands, Kristján Jóhannsson, Egil Ólafsson, Kolbein Jón Ketilsson, Valdimar Hilmarsson, Ívar Helgason, Ásgeir Pál Ágústsson, Sigurð Helga Pálmason, Guðrúnu Gunnars­dóttur, Hjörleif Valsson, Sigríði Ósk Kristjáns­dóttur, Eddu Borg, Hrafnkel Pálmarsson, Ísold Ötlu Jónas­dóttur, Birgi Hrafnsson, Bjarna Svein­björnsson, Friðrik Sturluson, Gunnar Gunnarsson, Gunnlaug Briem, Hannes Friðbjarn­arson og Örnólf Kristjánsson.

Þá var frumsýnd ný heimild­armynd um sögu og starf frímúrara á Íslandi síðustu 100 ár eftir Jón Þór Hannesson, Rúnar Hreinsson, Rafn Rafnsson og Steingrím Sævarr Ólafsson. Er hægt að staðhæfa að meiri og nánari innsýn í starf frímúrara á Íslandi hafi líklega aldrei áður verið veitt. Var myndinni afar vel tekið af hátíð­ar­gestum og má telja líklegt að myndin eigi eftir sjást víðar en eingöngu á stóra tjaldinu í Eldborg­arsal.

Ávörp fluttu Valur Valsson, stórmeistari Frímúr­ar­a­regl­unnar á Íslandi, Allan Vagn Magnússon, hersir Stórmeistara, Guðmundur Kr. Tómasson, merkisberi R. og Ólafur Sæmundsson, flutti gamanmál.

Ekki þarf að fjölyrða um ánægju gesta fundarins að honum loknum, bros var á hverri vör og ánægjublik í auga. Frímúrarar, makar og aðrir gestir streymdu út í svala vornóttina sem tók á móti þeim í stillu og birtu. Svona eiga hátíð­ar­fundir að vera.

Ljósmyndarar Ljósmynda­safns Frímúr­ar­a­regl­unnar voru á staðnum og tóku myndir af gestum og hátíð­ar­fundinum sjálfum.

Þá voru einnig til myndir sem áður höfðu verið teknar við undir­búning hátíð­ar­fund­arins og gefa innsýn inn í þá miklu vinnu sem unnin var við undir­búning þessa stórglæsilega hátíð­ar­fundar.

Í mynda­al­búmunum tveimur sem fylgja þessari frétt er hægt að skoða þessar myndir gestum og gangandi til ánægju.

Aðrar fréttir

Innskráning

Hver er mín R.kt.?