Frímúrarinn í nýjum búningi

Nýtt tölublað Frímúrarans er komið út og hefur verið sent á alla bræður innan Reglunnar. Er þetta þriðja tölublað ársins en alla jafna koma út tvö blöð á ári. Er þetta 19. útgáfuárið og því ljóst að innan tíðar siglir tímaritið inn í afmælisár. Allt frá því að blaðið kom fyrst út hefur það þjónað til upplýsingagjafar fyrir meðlimi í Reglunni en einnig gefið fólki sem stendur utan hennar tækifæri til þess að kynnast því starfi sem ekki ríkir sérstakur trúnaður um.

Frímúrarinn kemur nú út í nokkuð breyttri mynd frá því sem verið hefur. Hafa talsverðar útlitsbreytingar verið gerðar á blaðinu og áhersla í efnistökum hefur einnig tekið nokkrum breytingum.

Stefán Einar Stefánsson tók við sem ritstjóri blaðsins á vormánuðum og hefur ásamt hópi öflugra bræðra úr ólíkum áttum leitt vinnu við þessar breytingar.

Einnig má skoða blaðið rafrænt, með því að smella hér.

Frímúrarinn — 19. árgangur, 3. tölublað
Frímúrarinn — 19. árgangur, 3. tölublað

Kynslóðaskipti

„Í útgáfu sem þessari þarf gjarnan að gera breytingar og laga hana að breyttum áherslum. Ferskir vindar geta hleypt krafti í útgáfuna og það var markmiðið með þessum breytingum. Hörður Lárusson leiddi hönnunarvinnuna og tekur nú við keflingu af Guðbrandi Magnússyni sem hefur haft veg og vanda að umbroti og útliti blaðsins um langt árabil,“ segir Stefán Einar aðspurður um þá vinnu sem nú lítur dagsins ljós.

„Forsíða blaðsins er nú með breyttu sniði og myndefnið látið njóta sín út í ystu æsar. Við eigum frábært samstarf við ljósmyndavörð Reglunnar og þá mörgu öflugu ljósmyndara sem skrásetja sögu reglustarfsins á hverjum tíma. Án þeirra framlags væri blaðið mun fátæklegra,“ segir Stefán og bendir á að breytingarnar sem nú hefur verið ráðist í séu í samræmi við aðrar áherslur í hönnun sem birtist á heimasíðu Reglunnar og í öðru útgefnu efni hennar.

Hefði getað verið mun stærra

Blaðið er að þessu sinni 56 síður og er skreytt fjölda mynda, áhugaverðra greina og glæsilegra auglýsinga sem gera útgáfustarfið mögulegt.

„Við fengum þrjá öfluga bræður til liðs við okkur þegar kom að auglýsingasölunni. Erling Adolf Ágústsson, Andri Stanley Sigurðsson og Jón Kristinn Jónsson leystu þetta verkefni vel af hendi og við höfum aldrei fengið viðlíka viðbrögð og nú,“ segir Stefán.

Blaðið er 56 síður að lengd og segir ritstjórinn að það hefði verið hægt að gefa út mun stærra blað ef allt efni hefði átt að komast fyrir með góðu móti. Geyma þurfi athyglisverðar greinar og viðtöl milli tölublaða og það eru forréttindi fyrir þá sem að útgáfunni koma.

Næsta tölublað Frímúrarans, sem verður 20. árgangur, er fyrirhugað í lok apríl næstkomandi. Eru bræður hvattir til þess að vekja athygli á áhugaverðu umfjöllunarefni eða beina auglýsingabeiðnum á netfangið frimurarinn@frimurarareglan.is