Frímúrarasjóðurinn styrkir Hjálparstarf Kirkjunnar

Kæru bræður.

Jólin, fæðingarhátíð frelsarans, hátíð ljóss og friðar, nálgast hratt. Samhyggð, kærleikur og væntumþykja eru orð sem öðlast aukið rými í huga okkar á þessum árstíma. Eftirfarandi texta er því vel viðeigandi að rifja upp:

Gleymdu ekki þínum minnsta bróður
þó höf og álfur skilji að.
Kærleikurinn hinn mikli sjóður
í hjarta hverju á sér stað.
Í von og trú er fólgin styrkur
sem öllu myrkri getur eytt.
Í hverjum manni Jesú Kristur
er mannkyn getur leitt.

En svo segir í textanum við lagið „Hjálpum þeim“.

Í samræmi við starf okkar innan Frímúrarareglunnar á Íslandi er það mikilvægt að rétta bágstöddum hjálparhönd, ekki hvað síst barnanna vegna.

Stórmeistari Frímúrarareglunnar á Íslandi, Kristján Þórðarson, samþykkti tillögu stjórnar Frímúrarasjóðsins um að veita Hjálparstarfi Kirkjunnar fjárstuðning núna fyrir jólin, enda þörfin mikil. Á vegum Hjálparstarfs Kirkjunnar er unnið þrekvirki í aðstoð við barnafjölskyldur hér innanlands og við aðra. Starfið er mjög umfangsmikið og unnið af fagfólki eins og sjá má á heimasíðu Hjálparstarfsins.

Bjarni Gíslason framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins, veitti styrknum móttöku og óskaði sérstaklega eftir því að bræðrum innan Frímúrarareglunnar yrðu færðar sérstakar þakkir fyrir þennan mjög mikilvæga stuðning við skjólstæðinga hjálparstarfsins.

F.v. Eiríkur Finnur Greipsson, Bjarni Gíslason og Allan Vagn Magnússon
F.v. Eiríkur Finnur Greipsson, Bjarni Gíslason og Allan Vagn Magnússon

Hjá lögð mynd var tekin þegar formaður stjórnar Frímúrarasjóðsins Allan Vagn Magnússon, ásamt skrifstofustjóra Reglunnar, afhenti Bjarna Gíslasyni framkvæmdastjóra Hjálparstarfs Kirkjunnar styrkinn.

Kæru bræður, megi Himnasmiðurinn færa ykkur og fjölskyldum ykkar frið og blessun, gleðilega jóla- og nýárshátíð.
Stjórnstofa.