Frímúrarareglan styrkir flóttafólk frá Úkraínu
Stórmeistari Frímúrarareglunnar á Íslandi, Kristján Þórðarson, samþykkti í dag, 12. apríl 2022, að veittur yrði fjárstuðningur til Rauðakrossins á Íslandi til stuðnings við flóttafólk frá hinu stríðshrjáða landi, Úkraínu. Styrkurinn kemur úr sjóðum Reglunnar, sem eru byggðir upp á beinum fjárframlögum bræðra innan hennar.
Við afhendingu styrksins í dag, kom fram hjá Kristínu S. Hjálmtýsdóttur framkvæmdastjóra Rauða krossins, að þörfin á stuðningi væri mikil, bæði hér innanlands, í löndum Evrópu og síðast en ekki hvað síst í Úkraínu. Þétt net stuðnings- og hjálparfólks alþjóða Rauða krossins sé byggt á mjög langri sögu og reynslu þúsunda sjálfboðaliða, sem njóti eða að minnsta kosti eigi að njóta alþjóðlegrar friðhelgi stríðandi afla og því sé samtökunum mögulegt að veita aðstoð við fólk á átakasvæðum sem og flóttafólki vítt og breytt um heiminn, sem yfirgefið hefur vígvellina í heimalandinu.
Að sögn Kristínar má gróflega áætla að fjöldi flóttafólks hér á landi sé kominn yfir 800 einstaklinga, en ýmsar sviðsmyndir geri ráð fyrir því að sá fjöldi geti margfaldast. Styrkur Frímúrarareglunnar kæmi sér ákaflega vel og væri virkilega þakkarverður. Bað hún fyrir einlægar þakkir til bræðra og fjölskyldna þeirra.
Styrkurinn nemur þrem milljónum króna.

Á myndinni sem teknin er í höfuðstöðvum RKÍ í dag, eru talið frá vinstri: Þorsteinn G. A. Guðnason, Kristín S. Hjálmtýsdóttir og Eiríkur F. Greipsson.