Öll starfsemi innan Frímúrarareglunnar tímabundin stöðvuð — Uppfært 7. nóvember Sjá nánar.

Viðtal við Guðna Jónsson um stofnun Fjölnis

Fjölnir klikkar ekki á smáat­riðunum

Br. Guðni Jónsson, einn stofnenda St. okkar Fjölnis h.t.au.ei. í lok síðasta mánðar. Guðni var br. númer 2 og er í dag sá Stm. sem hefur setið lengst í embætti, eða í 7 ár — frá 1990 til 1997.

Þeir brr. sem muna eftir br. Guðna í embætti eru flestir sammála að hann lagði línurnar að þeim aga og vandvirkni sem Fjölnir hefur verið þekkt fyrir alla tíð síðan. Þeir brr. sem gengu inn eftir að Guðni lauk embættum hafa líklega allir heyrt af þessum góðu venjum — því við æfingar á fundum hefur oftar en einu sinni heyrst setning á borð við: „Nú gerum við þetta eins og Guðni vildi!“.

Í tilefni af 30 ára afmæli Fjölnis var gefin út bók sem inniheldur sögu stúkunnar, pistla, viðtöl og nokkuð magn mynda. Ein af þessum skemmtilegu sögum kemur fram í viðtali sem br. Þór Jónsson tók við br. Guðna, þar sem hann talar um þegar fv. SMR. Valur Valsson leitaði til hans dag einn og þeir eyddu kvöldinu úti í bíl fyrir framan heimili Guðna að leggja allra fyrstu drögin að St. okkar Fjölni.

Fjölnir klikkar ekki á smáat­riðunum

Guðni Jónsson

Stofnun nýrrar St. Jóh. st. í Reykjavík er sjald­gæfur atburður. Guðni Jónsson, þáverandi Vm. st. Mímis, þurfti því ekki að hugsa sig lengi um þegar fyrrverandi SMR, Valur Valsson, bauð honum fyrstum manna að taka þátt í því með sér að koma stúku á laggirnar. Stúkan fékk síðar nafnið Fjölnir.

„Það atvik­aðist þannig,“ segir Guðni, „að Valur, sem var sjálf­kjörinn leiðtogi og hafði hlotnast sá heiður að stofna hina nýju stúku, leitaðist eftir því við mig, þegar hann ók mér heim eftir frímúr­ar­afund í Mími, að ég yrði Vm. í stúkunni þar sem hann yrði Stm. Þetta var einstakt tæki­færi sem mér fannst einboðið að grípa þótt ég væri bundinn Mími sterkum böndum og gegndi þar embætti. Við sátum drykk­langa stund í bílnum fyrir utan heimili mitt og ræddum þetta ögrandi verkefni en ég varð að heita því að nefna það ekki við nokkurn mann í heilt ár. Og við það stóð ég.“

Síðla árs 1985, að loknu þagnar­bindindi, hófst formlegur undir­bún­ingur. Leitað var til bræðra sem gætu gegnt embættum með sóma og þeir mynduðu kjarnann í því sem átti eftir að verða hópur 39 stofn­félaga.

„Kom í minn hlut að hafa samband við flesta væntanlega bræður og bjóða þeim að taka þátt,“ segir Guðni. „Við höfðum aðallega í huga að þeir hefðu óbilandi áhuga, tækju virkan þátt og mættu vel. Fundarsókn í Fjölni bar þess líka merki. Hún var nánast 100% fyrstu árin. Kæmust menn ekki á fund létu þeir iðulega vita um ástæður.“

Bræðurnir báru sjálfir stofn­kostn­aðinn. Edda Jónsdóttir grafíker, sem er gift Erni Jóhannssyni, stofn­félaga í Fjölni, gaf grafíklistaverk eftir sig í fjáröfl­un­ar­skyni og fengu allir bræðurnir kauprétt að því með sínu númeri í stúkunni. Allir nýttu sér kaupréttinn. Einnig voru útbúin nokkur gjafa­eintök af verkinu en svo var mótinu eytt.

„Þetta var virkilega falleg mynd, kúbískur steinn að koma upp úr jörðinni, og vísaði til þess að ný stúka var að verða til. Þessar myndir eru dýrgripur fyrir þá sem þær eiga.“

Ekkert bókhald er til frá undir­bún­ings­tímanum.

„Það var ekki haldið. Við ræddum ekki fjármál. Menn spurðu einskis, tóku bara upp tékk­heftið og skrifuðu það sem vantaði. Því er ekki að neita að í Fjölni voru ýmsir þekktir menn í þjóð­félaginu og aflögu­færir. Eitt sinn datt ljósmynd af manni niður af vegg og einhver beygði sig eftir henni og spurði Karl Guðmundsson, þá hersir Reglunnar, sem þar var viðstaddur, hvaða stúku hún tilheyrði. Hvað stendur á myndinni að maðurinn geri? spurði Karl. Hann er forstjóri, svaraði hinn. Hún tilheyrir þá Fjölni, sagði Karl.“

Einatt var gestkvæmt hjá Fjölni og vildu stúku­­bræður sýna út á við ekki síður en inn á við að þeir hefðu í heiðri formfestu og aga.

„Gestir voru oft fleiri en stúku­bræður,“ segir Guðni. „Ég held að þeir hafi fundið hvað sam­heldnin var sterk í Fjölni og menn agaðir. Mér finnst gott að sjá að embætt­ismenn í Fjölni mættu tilbúnir og vel æfðir til leiks.“

Heimsóknir í aðrar stúkur voru algengar í byrjun, bæði innan lands og utan, m.a. af því að upp­töku­fundir í Fjölni voru þá færri en síðar varð.

„Við fórum til Kaupmanna­hafnar og Edinborgar, en ég sló af ferð til Washington. Hún varð svo dýr að aðeins þeir efnameiri gátu leyft sér að fara. Það fannst mér ekki vera í anda frímúrara­starfsins.“

Þremur árum eftir stofnun Fjölnis var Valur kall­aður til annarra starfa og Guðni varð Stm. Segist hann aldrei hafa kynnst eins sam­rýndum hópi innan Reglunnar og þeim embætt­is­mönnum
sem hann vann lengstum með.

„Við hittumst oft utan Reglu­heim­il­isins og einnig á sumrin. Almennir Fjöln­is­bræður voru ekki síður nánir og komu t.d. saman á lesstofunni á sunnu­dags­morgnum. Ég gerði mér far um að hitta þá þar. Eins fórum við á dansnám­skeið með systrunum — með misjöfnum árangri, eins og gengur.“

Guðni gegndi hinu háa embætti Stm. í sjö ár eða allt til 10 ára afmælis stúkunnar 1997.

„Afmælið var að mörgu leyti sögulegt. Rétt fyrir setn­ingu fundar sagði siðameistari mér að við yrðum að hinkra því að biðröð væri út á Skúla­götu. Tæp­lega 250 manns skráðu sig í borðhaldið. Þurfti skyndi­lega og fyrir­vara­laust að opna báða salina og dekka öll borð. Í tilefni afmæl­isins höfðum við látið gera 160 stimpluð leður­hulstur utan um félagatal og starfsskrá handa fundar­gestum en ég varð að til­kynna Fjölnis­bræðrum að þeir fengju ekki gjöfina fyrr en á næsta fundi þar á eftir. Við ættum ekki til hulstur nema handa gestunum og yrðum að útbúa fleiri.“

Guðni vill leggja áherslu á inntak frímúrara­starfsins. Ekki sé markmið í sjálfu sér að stúka vaxi. Gæði vegi þyngra en magn.

„Í minni tíð sem Stm. boðaði ég umsækj­endur á fund á skrif­stofu minni eftir lokun. Ég vildi spjalla við þá, gera mér grein fyrir erindi þeirra, átta mig á hvernig kröftum þeirra yrði best varið. Nokkrir lýstu áhuga sínum með því að segjast lesa allt um Regluna sem þeir kæmu höndum yfir. Ég varaði þá við því, sagði að það kæmi þeim sjálfum í koll. Mér finnst að Stm. eigi að gefa sér tíma í svona lagað. Umsækj­endur eru mismunandi og árgang­arnir stundum eins og í síldinni og þorskinum, sumir sterkari en aðrir, en allir þurfa styrka leiðsögn við fyrstu skrefin.“

Guðni segist vera af gamla skólanum og telja áhrif tíðar­andans á stúku­starfið ekki alltaf til bóta.

„Breyt­ingar verða að vera ígrundaðar og vand­aðar. Til dæmis er tvíbent að stytta fundi. Vissu­lega er hætta á því að fundarsókn verði lakari ef fundir standa lengi og borðhaldið fram yfir miðnætti. Þá var talað um að fundir stæðu í tvo daga. En bræðurnir verða að hafa tíma til að hittast og spjalla saman. Asi spillir yfirbragði fundanna.“

Spurður hvernig hann vilji að Fjölnir þróist segir hann mikilvægt að sýna metnað og hafa gömul og góð gildi í hávegum.

„Stúku­merkið vísar leiðina,“ segir hann. „Hlekk­irnir 39 orka sterkt á mig, einn fyrir hvern stofn­­félaga. Engin keðja er sterkari en veikasti hlekk­­ur­inn. Við þurfum að halda hópinn og styðja við bakið hver á öðrum. Gera má meira af því að hafa uppi á bræðrum ef þeir eru hættir að mæta og bjóðast þá til að sækja þá eða aðstoða á annan hátt. Sjálfur hef ég ekki mætt vel undan­farin ár vegna veikinda. Stundum dugar eitt símtal. Persónuleg samskipti treysta bræðra­böndin. Ég sagði alltaf að „Fjölnir klikkar ekki á smáat­riðunum“. Það eru þessi smáatriði sem mega ekki gleymast, að hringja í þá sem finnst þeir aldrei heyra í neinum, styðja þá sem þurfa á stuðningi að halda og vitja þeirra sem eru veikir. Þannig sýnum við í verki að við virðum einkunn­arorð stúkunnar, Caritate.“

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?