Sunnudaginn 3. apríl sl. var haldin opin og efnismikil fræðsluráðstefna um Alzheimer og aðra heilabilunarsjúkdóma í Regluheiminu í Reykjavík, undir forystu Fræðslunefndar Frímúrarareglunnar í samstarfi við Alzheimersamtökin. Frímúrarareglan hefur látið sig heilabilunarsjúkdóma varða.
Margir bræður þekkja þennan sjúkdóm, sem er ein helsta áskorun heilbrigðisþjónustu okkar tíma. Ráðstefnan var því opin öllum bræðrum, fjölskyldum þeirra og vinum. Fjallað var um viðfangsefnið út frá fjórum sjónarhornum, sem endurspeglaðist í vali á frummælendum – sjá nánar í kynningu hér: https://frimurarareglan.is/frettir/radstefna-um-alzheimer-sjukdominn-2/. Erindi frummælenda voru fróðleg og áhrifamikil og snertu svo sannarlega við tilfinningum áheyrenda.
Um 270 manns sóttu ráðstefnuna í Regluheimilinu í Reykjavík, þar var húsfyllir. Einnig fylgdust um 95 manns með ráðstefnunni í streymi í fimm stúkuhúsum á landsbyggðinni; á Akureyri, Egilsstöðum, Sauðárkróki, Siglufirði og í Stykkishólmi. Alls 365 manns, en auk þess fylgdist fjöldi bræðra með ráðstefnunni á netinu í þeim tilvikum að stúkur gátu ekki efnt til samkomu í stúkuhúsum sínum, bræður voru veikir heima eða staddir erlendis, og fengu því sendan hlekk til að sitja ráðstefnuna í rauntíma. Því má varlega ætla að alls 400 manns hafi sótt ráðstefnuna.
Að loknum framsöguerindum sátu frummælendur fyrir svörum. Ársæll Guðmundsson stýrði pallborðsumræðum og tók á móti fyrirspurnum úr sal, en formaður Fræðslunefndar, Einar Kristinn Jónsson, ráðstefnustjóri, var í beinu sambandi við tengiliði stúkna út á landi og lagði spurningar þeirra fyrir pallborðið, sem var svarað greiðlega og skilmerkilega.
Hvernig getum við frímúrarabræður brugðist við ef einhver bræðra okkar greinist með Alzheimer? Þetta var ein fjölmargra spurninga frá áheyrendum. Eitt svarið var: Takið eftir því hverjir eru hættir að mæta á fundi, það eru oft einkennin, draga sig í skel. Hringið í þá, hvetjið þá til að koma, sækið þá og takið með ykkur á fund, keyrið þá heim aftur, ekki láta þá detta úr félagslegum tengslum.
Ráðstefnan var tímamótaviðburður. Í fyrsta lagi var hér langfjölmennasti viðburður á vegum Reglunnar í mörg ár. Í öðru lagi var þessari stóru ráðstefnu streymt til margra staða í senn þannig að bræður, fjölskyldur þeirra og vinir, gætu hist í stúkuhúsum víða um land – og var því góð kynning fyrir Regluna út á við. Í þriðja lagi höfðu frummælendur orð á því hve metnaðarfull dagskráin var, þar sem sérfræðingar og leikmenn fjölluðu um sjúkdóminn út frá fjórum sjónarhornum samtímis.
Undir lok ráðstefnunnar las Arnar Hauksson, læknir, upp greinina: Lærdómur, sem birtist nýlega í Læknablaðinu, eftir Magnús Karl Magnússon, lækni og aðstandanda (eiginmann), og má segja að hafi rammað inn umræðuefni dagsins á áhrifríkan hátt, en Magnús var meðal ráðstefnugesta.
Guðmundur Kr. Tómasson, YAR, oddviti Fræðaráðs, setti ráðstefnuna og rakti m.a. framlög Frímúrarasjóðsins til ýmissa verkefna, s.s. tengdum heilabilunarsjúkdómum. Gunnar Þórólfsson, SRMR, sleit henni með lokaávarpi. Fyrirlesurum voru færðir blómvendir sem þakklætisvott fyrir framlag þeirra.
Ráðstefnan þótti takast einstaklega vel og hafa Fræðslunefndinni borist í kjölfarið fallegar kveðjur og þakkir frá bræðrum. Tæknisvið Reglunnar notaði m.a. 5 myndavélar og 6 hljóðnema í beinu streymi ráðstefnunnar og tók hana um leið upp. Myndbandið er nú í eftirvinnslu og verður fljótlega aðgengilegt.
57 bræður komu að undirbúningi og störfum við sjálfa ráðstefnuna og streymið frá henni, þ.a. 41 í Regluheimilinu í Reykjavík og 16 úti á landi. Fræðslunefnd færir öllum þessum bræðrum innilegar þakkir. Þá færir Fræðslunefndin bestu þakkir öllum þeim sem lögðu fram fyrirspurnir, sem auðguðu umræðuefnið, sem og yfirstjórn Reglunnar og Stjórnstofu fyrir mikilvæga aðstoð og stuðning.
Hér má sjá nokkrar myndir frá þessari áhugaverðu ráðstefnu.

Alzheimer málþing
Myndir frá málþingi um Alzheimer sjúkdóminn, sem var haldinn í Regluheimilinu á vordögum 2022.