Erinda­flutningi um dyggðir frímúrara er nú lokið

Fjórða erindið fjallaði um miskunn­semina

Það var br. okkar Þórarinn Þórar­insson sem lokaði hringnum í flokki erinda um þær dyggðir sem sérhverjum frámúrara er skylt að iðka. Í erindinu komu fram ýmsar óvæntar hugmyndir höfundar og segja má að margir bræður hafi gripið andann á lofti yfir sumu af því sem fram kom í erindi br. Þórarins. Enda hugsun hans frjó og hvetur menn að feta nýjar brautir í skilningi á fræðum og leynd­ar­dómum Frímúr­ar­a­regl­unnar.

Dagskráin að loknum fyrir­lestrinum var með hliðstæðum hætti og undan­farið. Og endaði með óform­legum rabbfundi á Bókasafninu þar sem m. a. voru til staðar þrír af fjórum fyrir­lesurum í þessum erinda­flokki. Og umræð­urnar voru í samræmi við það. Dyggð­irnar voru lagðar á vogar­skálar og tengingar þeirra á milli ræddar af bræðrum. Það er ljóst að frímúr­ara­starfið er að mörgu leiti persónulegt mat hvers og eins bróður í leit hans að ljósi og sannleika.

Þessari morgun­stund lauk því í samræmi við upplifun okkar sem vorum svo lánsamir að vera til staðar í Bókasafninu.

Og að lokum:

Þegar bræðra­nefnd Fjölnis fékk hugmyndina um erinda­flutn­inginn hefði hún verið fárra fiska virði ef ekki hefði komið til frábær flutn­ingur þeirra fjögurra bræðra sem hlupu undir bagga með okkur og lýstu dyggðunum fjórum með alveg sérstökum hætti og hver með sínu lagi. Þetta voru brr. Guðmundur Kr. Tómasson, Arnar Þór Jónsson, Þórarinn Þórar­insson og Leifur Franzson. Þeir dýpkuðu skilning okkar allra á þagmælskunni, varúðinni, hófseminni og miskunn­seminni. Og við urðum ríkari fyrir bragðið. Fyrir það ber að þakka.

Þá viljum við þakka bræðrum okkar í Bræðra­stofunni sem ávallt hafa verið reiðu­búnir að veita okkur lið, hvort sem um var að ræða að snúa Bræðra­stofunni á haus eða smyrja ofan í okkur alla og hella upp á kaffi og te.

Bræður í Bókasafninu fá sérstakar þakkir fyrir að veita okkur afnot af safninu til að ræða óformlega saman í morgunlok. Allir áttum við þar ánægjulega stund og bókaverðir, af tómri kurteisi, byrjuðu ekki að blikka á okkur ljósin fyrr en við vorum komnir vel fram yfir þann tíma sem okkur var ætlaður.

Tækni­bræður fá miklar þakkir fyrir að setja upp tól og tæki ásamt því að tengja þetta allt saman svo fyrir­lesarar gætu kastað upp á tjald myndum sem fylgdu sumum þessara fyrir­lestra. Og ræðupúltið er nú búið að fara í all nokkrar lyftu­ferðir fram og til baka.

Og síðast en ekki síst þakkir til allra bræðranna sem komu í Bræðra­stofuna hvern sunnu­daginn á fætur öðrum til að auðga andann, njóta samvista og þakka fyrir að við skulum vera hluti af jafn merkilegu hugverki sem Frímúr­ar­a­reglan er. Við erum sannarlega heppnir menn.

Fjórir Fjölnisbræður sem sáu um flutning erindanna. Guðmundur Kr. Tómasson, Þórarinn Þórarinsson, Leifur Franzson og Arnar Þór Jónsson.

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?