Starfsemi innan Frímúrarareglunnar tímabundin stöðvuð — Uppfært 13. janúar 2021 Sjá nánar.

Dagarnir líða og Aðventan nálgast.

Miðviku­dagspistill stólmeistara Njarðar

Góðan dag bróðir minn.

Dagarnir líða og Aðventan nálgast óðfluga, tilhlökkun hjá ungviðinu og okkur líka. Börn sem fullorðnir gleðjast og líta björtum augum á framtíðina sem gefur okkur von um betri tíma. Bræður mínir, njótum Aðvent­unnar sem best og gleðjum okkar nánustu með því að gefa af okkur eins og við getum, gjafir eru ekki bara pakki eins og hefur komið fram, gjöf er líka að gefa af sér og sýna fólki hlýju, umhyggju og virðingu.

Í lok Aðventu fer sól að hækka og birtan að aukast hægt og bítandi, þá birtir til og við gleðjumst þegar sólin rís á ný í austri, hærra og hærra og yljar okkur um hjarta rætur og mýkir okkur. Nú erum við öll farin að setja út jólaljósin sem gleðja okkur og gefa okkur bjartara skammdegi, ljósin lýsa allt upp í kringum okkur, allavega er ég búi að setja upp mín ljós hvít rauð og blá, á þau tré sem næst mér eru.

Við Njarð­ar­bræður byrjum okkar jól þegar jólafund­urinn okkar hefst, en þar sem við getum ekki komið saman á þessu ári, vil ég minna ykkur á að við munum senda út jólafund á netinu þann 4. desember næstkomandi. Þá væri gaman að sem flestir ykkar ásamt fjölskyldum ykkar fylgdust með svo við getum hafið Aðventuna saman eins og áður að fornum og góðum sið. Elsku bræður, minnumst þess að við erum hér til að láta gott af okkur leiða hvern dag sem við njótum þess að vera hér og halda áfram okkar starfi í leitinni að betra lífi.

Hér að neðan fylgir kveðja og hugleiðing bræðra okkar Friðriks J. Hjartar og Egils Þórðar­sonar. Meðfylgjandi er einnig tengill á 15 ára gamla upptöku með Kapellunni: https://www.youtube.com/watch?v=t_kxNqEryBA

Bróðir minn ég óska þér góðs gengis og að við sjáumst sem fyrst.

Með bróður­legri kveðju
Ásgeir Magnússon
STM. Njarðar

Kveðja frá Friðrik J. Hjartar.

Geymdu með þér það góða. Mundu að það sem þú veitir athygli vex og dafnar.

Þess vegna er það frábær hugmynd að minnast þess góða sem hefur gerst í lífinu og muna eftir því jákvæða sem hefur verið sagt við þig eða gert fyrir þig.
Mundu líka eftir því sem þú hefur gert fyrir aðra.
Allt þetta eykur vellíðan.

Jólatréð táknar þig.
Jólakúl­urnar tákna allt það góða og jákvæða í lífi þínu.
Teiknaðu jólatré og skrifaðu eða teiknaðu það góða og jákvæða inn í kúlurnar.

Með bróður­legri kveðju
Friðrik J. Hjartar.

Hugleiðing, Egill Þórðarson.

DAGUR OG NÓTT
Hnígandi daginn að hafsins sæng
hvíslandi kvöld­blærinn leiðir,
en náttskugginn dökkofinn dularvæng
á dreym­andans hvílu breiðir.

Og senn kemur nóttin, og sorgarlín
hún sveipar að klökknandi barmi,
og deyjandi geislabros dagsins skín
í döggum á nætur hvarmi.

En hljóðlát er nóttin með harmþrungnar brár,
því heiðbjarma dagsins hún saknar,
og því er hún myrklynd og svipþung og sár,
hún svæfist, er dagurinn vaknar.

Því svo hafa örlög þeim ógnþung og sár
frá upphafi tímans mótast,
þau heilsast og kveðjast um eilífðarár
og unnast – en fá ekki að njótast.

Svo kvað frímúr­ara­skáldið Freysteinn Gunnarsson um hina eilífu umgjörð lífs okkar, daginn og nóttina sem eru sífellt að hittast, en er ekki ætlað að njóta samvista. Ljóðið vekur hughrif óendan­leikans og andstæðnanna sem hvorug getur án hinnar verið, án ljóssins skyldum við ekki myrkrið og án myrkursins þráðum við ekki ljósið. Án ástar væri engin sorg, en kærleik­urinn sefar sorgina. Við megum samt ekki elska að syrgja, því dagurinn fær ekki sameinast nóttinni.

Bróðir Freysteinn minnir okkur sem lifað höfum í deginum lengst af, á að við ráðum ekki öllu, við þurfum líka að takast á við rökkrið. Taka tillit hvert til annars og við þurfum að temja okkur að lifa með samhengi hlutanna, sköpuninni sjálfri sem við erum aðeins þátttak­endur í. Þátttak­endur í sífelldri leit að hinu góða í fari hvers og eins.

Með bróður­legri kveðju
Egill Þórðarson

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?