Bréf til bræðra

Kæru bræður mínir. 

Ég vona að þið og ykkar fólk séuð við góða heilsu og að ykkur hafi tekist að forðast sýkingu. Við þurfum nú að hlýða Víði, fara varlega og gæta þess að fara eftir ýtrustu leiðbein­ingum. Við lifum nú sérstakan reynslu tíma sem vonandi tekur skjótt og vel enda þannig að við getum fljótt safnast saman á ný í musterinu við iðkun hinnar Konunglegu íþróttar. Íþróttar sem stunduð hefur verið öldum saman af bræðrum og verða stunduð áfram um komandi aldir. Þessi undarlegi tími mun líða og við hefja störf að nýju.  Það bíða nú þegar fjórir innsækj­endur eftir því að verða teknir inn í okkar góðu stúku og fjöldi umsókna eru í gangi.

Síðasti fundur okkar 10. mars var ánægju­legur og góður. Nýr áhuga­samur bróðir bættist í okkar traustu og ævafornu bræðra­keðju og var honum vel og innilega fagnað. Fundinn sóttu rétt rúmlega 50 bræður sem flokkast með fámennasta I° fundi Hamars um árabil, jafnvel þannig að yngstu bræður muna ekki annan slíkan. Daginn eftir var öllu starfi Reglunnar frestað til 27. apríl. Nú bíðum við eftir nánari fyrir­mælum Reglunnar um áfram­haldið. 

Bræðra­nefnd stúkunnar hefur skipulega haft samband við eldri bræður og hafa þeir það allir gott og eru þakklátir fyrir að samband er haft við þá. Ég hvet ykkur bræður mínir til að hafa samband hver við annan og sýna þannig mátt vináttu og bræðralags í verki. Þetta virkar ekki ef þú, bróðir minn, ætlar að sitja við símann og bíða eftir símtali, þú átt að hafa frumkvæði og hringja í bræðurna.  Eitt símtal getur lýst upp dapran huga. 

Í tilefni af tónlistar­fundi sem átti að vera í dag 30. mars munum við setja inn tónlist, sem við eigum, á netið fyrir ykkur að njóta. Við erum að skoða hvort við getum streymt páska­hug­vekju á netið næsta þriðjudag. Ef það tekst þá væri athugandi að streyma einnig tónlistar­fundi á netið. Hugsanlega getum við nýtt netið og verið í nánara sambandi t.d. í gegnum facebooksíðu okkar og Zoom. Þó þannig að farið sé að ýtrustu fyrir­mælum Reglunnar um þagmælsku og leynd. 

Á netinu hafa bræður minnst á þann sið breskra bræðra að skála fyrir fjarstöddum bræðrum við bróður­mál­tíðina klukkan 9.00. Ég hef tekið þátt í þessum skemmtilega sið. Getur þá fjarstaddur bróðir gripið glas eða bolla, þar sem hann er staddur, og skálað vitandi það að bræður á fundinum eru að skála fyrir honum og með honum. Við getum ekki verið með þessa ádrykkju kl. 9.00 þar sem við erum þá enn að störfum í musterinu. Við gætum hins vegar skálað kl. 10.00. Væri ekki gaman að taka þetta upp þar til við getum hist á ný og skála kl. 10.00 á þriðju­dögum fyrir fjarstöddum bræðrum en þessa daga erum við allir fjarstaddir bræður. 

Bræður mínir, ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar góðrar heilsu. Lifið í trú og gleði. Sjáið tækifæri í ógninni. Gætið varúðar, fylgið leiðbein­ingum og forðist smit. 

Ólafur Magnússon

Stm

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?