Áramóta­kveðja Stm. St. Jóh.st. Njarðar

Góðan og kærleiks­ríkan dag bróðir minn.

Nú er síðasti dagur ársins 2021 að renna sitt skeið og nýtt ár 2022 er að koma með þeirri dulúð sem fylgir, en enginn veit hvað það ár ber í skauti sér. Margir okkar setja sér ný markmið og eru þau af ýmsu tagi, gott er að hafa markmið, en okkar markmið er jú að verða betri en í gær og það er líklegast eitt það göfugasta markmið sem við getum sett okkur, að verða betri menn en í gær.
Þetta göfuga markmið okkar er ekki einfalt, því það er margt sem glepur hugann á þessari öld sem við lifum á og eitt er öruggt að við sjáum ekki fyrir hvað gerist og verður næsta dag. Ró og ást til einstak­linga er gott veganesti fyrir okkur því kærleik­urinn er allstaðar ef við viljum taka á móti honum þá mun okkur farnast vel.
Gleymum ekki okkar nánustu og öllum þegnum þessa lands, hversu misjafnir sem þeir eru, fyrir­gefum og leyfum öllum að hafa sýnar skoðanir, hversu vitlausar okkur þykir þær, en jú það er ekki svo að við vitum allt og kannski hefur hinn rétt fyrir sér „hver veit“

Bróðir minn enginn veit sinn næturstað og enginn veit hvað kemur, en það að vakna af góðum nætur­svefni er guðs gjöf þó að einhverjir séu verkirnir, nýr dagur, ný áskorun og mögulega betri heimur, en heimurinn eru við.
Þó að það sé svalt og kalt úti núna bæði veður og annað, þá þurfum við að setja kassann fram og taka á okkur bylgju óveðurs og hamagangs og horfa með björtum augum fram á við því það styttir upp og birtir um síðir.
Gleðilegt ár bróðir og megi hinn hæsti vera með þér og fjölskyldu þinni um aldur og æfi.

Í minningu Péturs Björns og annara látinna bræðra okkar læt ég þessi orð um vináttuna fylgja með inn í nýtt og gæfuríkt ár.

Í grenndinni veit ég um vin, sem ég á,
í víðáttu stórborg­ar­innar.
En dagarnir æða mér óðfluga frá
og árin án vitundar minnar.

Og yfir til vinarins aldrei ég fer
enda í kappi við tímann.
Sjálfsagt þó veit hann ég vinur hans er,
því viðtöl við áttum í símann.

En yngri vorum við vinirnir þá,
af vinnunni þreyttir nú erum.
Hégómans takmarki hugðumst við ná
og hóflausan lífróður rérum.

„Ég hringi á morgun“, ég hugsaði þá,
„svo hug minn fái hann skilið,“
en morgundag­urinn endaði á
að ennþá jókst mill´ okkar bilið.

Dapurleg skilaboð dag einn ég fékk,
að dáinn sé vinurinn kæri.
Ég óskaði þess, er að gröf hans ég gekk,
að í grenndinni ennþá hann væri.

Sjálfur, ef vin þú átt góðan í grennd
gleymd´ ekki, hvað sem á dynur,
að albesta sending af himnunum send
er sannur og einlægur vinur.

Sjáumst heilir og sælir á nýju ári.
Með kærleiks­ríkri og bróður­legri kveðju,
Ásgeir Magnússon, Stm. Njarðar

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?