Heilbrigð­is­ráðu­neytið gefur út nýja reglugerð sem tók gildi 10. maí 2021 Sjá nánar.

Aðventan

Erindi br. Ægis K. Franz­sonar

Kæru bræður þegar kom að mér að skrifa pistil fór ég að velta fyrir mér Aðventunni, og komst þá að því, að ég vissi ósköp lítið um þetta, ég man ekki eftir Aðventu, ljósum og krönsum í minni æsku. Ég hef líklegast verið fleiri desember mánuði á sjó, en heima, mína starfsæfi og því þetta kannski farið svolítið fram hjá mér. En reglan hefur kennt mér að afla mér fræðslu og þekkingar á málum sem ég hafði lítt velt fyrir mér áður en ég gekk í Regluna. Því læt ég hér fylgja litla sögu um kertin fjögur, og velti fyrir mér við ákveðna athöfn hvort við erum kannski kertin fjögur?
Þetta er stutt þýsk sag höfundur ókunnur.
Sagan er á þessa leið.

Það var búið að kveikja á öllum fjórum kertunum á aðventukr­ansinum. Í kringum þau ríkti þögn. Ef einhver hefði verið nálægur, þá hefði hann heyrt kertin tala saman.

Fyrsta kertið andvarpaði og sagði: „Ég er friðar­kerti. Ljós mitt lýsir en fólkið býr ekki í friði hvert við annað. Fólkinu er alveg sama um mig!“ Ljósið á fyrsta kertinu varð minna og minna þangað til það slokknaði alveg.

Annað kertið flökti og sagði: „Ég heiti trú. En ég er algjör óþarfi. Fólkinu er alveg sama um Guð, það vill ekkert af honum vita. Það hefur engan tilgang að það sé ljós á mér.“ Kraft­urinn í kertinu sem nefndi sig trú var þrotinn. Lítill trekkur dugði til. Ljósið slokknaði.

Með lágri, dapurri röddu tók þriðja kertið til máls: „Ég heiti kærleikur. En ég hef enga orku til þess að láta ljós mitt skína. Fólkið er búið að ýta mér til hliðar. Það sér bara sig sjálft og ekki náungann sem þarf á kærleikanum að halda.“ Að þessum orðum mæltum slokknaði á þriðja kertinu.

Lítið barn kom inn í herbergið þar sem aðventukr­ansinn stóð á borðinu. Með tárin í augunum sagði það: „Mér finnst ekki gaman þegar það er slökkt á ykkur.“

Þá svaraði fjórða kertið: „Ekki vera hrætt, kæra barn. Meðan ljós er á mér getum við kveikt á hinum kertunum. Ég heiti von.“ Það var gleðisvipur á andliti barnsins þegar það notaði ljósið af vonar­kertinu til þess að kveikja á kærleikskertinu, trúar­kertinu og friðar­kertinu. Að því loknu sagði barnið eins og við sjálft sig: „Nú geta jólin komið í alvöru.“

Að lokum er kvæði eftir vin minn sem horfinn er..

Jólin nálgast.
Stendur nærri stystur dagur,
Stjörnu­himinn undurfagur,
Og ljósin braga í bylgjum skjótt
Opnast hugur andinn kætist,
Óttinn hverfur, vonin bætist,
Óskin rætist, allt er hljótt.

Opnum hjörtun, opnum hnefann,
Eignumst friðinn, öðrum gefann,
Þá kvöl og efi hverfur fljótt.
Sjáum jólaljósa ljómann,
Lausn­arann með kærleiks­blómann,
Heyrum hljóma á helgri nótt.

Gef oss faðir í dáð að duga,
Drengskap fylltan opinn huga,
Að yfirbuga óttans bál.
Oss kann að starfa í kærleiksanda,
Kristnum mönnum allra landa,
Og verja grandi veika sál.

Veit oss, Drottin, skyn að skilja
Og skapa með oss þrótt og vilja,
Að þola bylji, þraut og neyð.
Vinátt­unnar vernda gróður,
Og vera styrkur hverjum bróður
Er fetar slóðir fram á leið.

Höf. Páll Janus Þórðarson.

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?