Öll starfsemi innan Frímúrarareglunnar tímabundin stöðvuð — Uppfært 7. nóvember Sjá nánar.

7°C frost og stilla!

Miðviku­dagspistill stólmeistara.

Góðan dag bróðir minn.
Í dag (18. nóv.) er 7° frost og stilla, bjart og fallegt veður og sólin fer að hækka aftur þann 21. desember en ég held að ég viti af hverju. Undir­ritaður fæddist nefnilega þann 20. desember. Að öllu gamni slepptu jú, þá fer sól hækkandi fljótlega og það lítur allt bjartara út á því herrans ári 2021. Þá hillir undir að við getum að öllum líkindum komið saman, þó það verði ekki strax í byrjun árs.
Ekkert ætti, nema máttar­völdin komi í veg fyrir það að við getum hafið störf um miðjan vetur, þegar sólin hækkar og hækkar og vorið nálgast með blóm í haga.

Næsta skref okkar verður, að við munum senda út á heimasíðu Reglunnar jólafund Njarðar föstu­daginn 4. desember. Ykkur verður send slóð inná þá útsendingu í tæka tíð. Haft verður samband við ykkur í byrjun næsta mánaðar til að minna á fundinn og við munum senda ykkur það sem til þarf svo hann megi vera sem bestur fyrir okkur öll.

Ég fór í langa og stranga fjall­göngu í gær þriðjudag, í svipuðu veðri og er í dag og verð ég að segja að þessi fjalla­stund mín var hreint óborg­anleg fyrir sálina, þó líkaminn sé stirður í dag.

Bræður mínir ég óska ykkur öllum alls hins best og að hátíðin sem styttist í, gefi ykkur og fjölskyldum ykkar gæfu og bjarta framtíð. Hlakka til að sjá ykkur sem fyrst.

Hér að neðan er hugleiðing frá Birni Inga Jósefssyni einum af Ræðumeisturum okkar.

Með bróður­legri kveðju
Ásgeir Magnússon

Kæru bræður.
Um þessar mundir er formlegt starf okkar frímúrara í biðstöðu. Það er næstum því eins og einhver hafi ýtt á pásutakkann á lykla­borði tilver­unnar. Ekki er nóg með að engir fundir séu haldnir og allar samkomur blásnar af heldur stara nú bræður úfnir og illa til hafnir í spegla (nema þeir sem hafa þegar fengið klippingu) og hugsa „hvenær taka þessi ósköp enda?“ En öll él styttir upp um síðir og vonumst við til þess að jólafund­urinn muni eiga sér stað, svo hægt verði að færa eld vinátt­unnar inn á heimili hvers og eins okkar.

Varðandi veirufárið, sem nú geisar, minnast margir þeirra faraldra sem áður hafa gengið yfir landið og lagt ótal marga að velli. Föðurafi minn lést í byrjun fjórða áratugs síðustu aldar úr lungnapest sem þá hafði gengið. Og fjöldi manns lést eða örkuml­aðist úr Akureyr­ar­veikinni um miðja öldin. Þannig að það er ekki eins og landanum sé ókunnugt um áhrif landlægra pesta. En við erum mun betur sett núna með alla þá þekkingu sem læknar og aðrir heilbrigð­is­starfsmenn hafa öðlast og miðla þjóðinni. Með samein­ing­ar­mætti hefur okkur að mestu tekist að vernda mannslíf fyrir veiru­fjáranum og er okkur orðið eðlilegt að gæta hrein­lætis og virða fjarlægð­armörk.

Nú hefur sóttvarn­ar­læknir rýmkað aðgerðir til sóttvarna og er þar að finna ákvæði um að börn í grunn­skóla upp að 8. bekk þurfa ekki lengur að bera grímu fyrir vitum sér í skólanum. Er það vel að gætt sé viðkvæmra sálna barna okkar. Nú fer aðventan að nálgast og síðan jólahá­tíðin með öllu sínu umstangi. Munum þá að gleði og von um betri daga eiga að hafa forgang, ekki kaup á mismunandi mikil­vægum hlutum. Einnig nálgast sá tími þegar sól fer að hækka á himni og daginn tekur að lengjast, og andi mannsins fer að lyftast eftir skamm­degið. Munum, bræður, að ef þessi tími hefur reynst erfiður, þá er bara að lyfta símtólinu og hringja í næsta bróður sér til hugar­hægðar. Vonandi verður frímúr­ara­starfið að vori með eðlilegum hætti.

Mig langar að minna á ljóð Magnúsar Stefáns­sonar (Örn Arnarson) sem heitir Sigling og birtist m.a. í Skóla­ljóðunum sællar minningar. Þetta var mitt uppáhaldsljóð þegar ég var yngri. Taka ber fram að þetta á ekki að skoðast sem hvatning til óhóflegra utanlands­ferða eftir Covid-19.

Hafið, bláa hafið, hugann dregur.
Hvað er bak við yztu sjónarrönd?
Þangað liggur beinn og breiður vegur.
Bíða mín þar æskudrauma lönd.
Beggja skauta byr
bauðst mér aldrei fyrr.
Bruna þú nú, bátur minn,
Svífðu seglum þöndum,
svífðu burt frá ströndum.
Fyrir stafni haf og himininn.

Lag: Friðrik Bjarnason. Texti: Örn Arnarsson

Með bróður­legri kveðju
Björn Ingi Jósefsson

Eldra efni

Innskráning

Hver er mín R.kt.?