Ágrip af sögu Vöku

Upphaf bræðra­félags

Um árabil höfðu Frímúr­ar­ar­bræður úr ýmsum stúkum verið búsettir á Austur­landi, en ekki haft með sér formlegan félagsskap. Þeim var mjög í mun að koma á starfsemi bræðra­félags frímúrara á Austurland, því vel á annan tug frímúrara var búsettur eystra.
Meðal þeirra sem höfðu forgöngu um þetta voru br. Steinþór Eiríksson og br. Valdimar Benediktsson, báðir búsettir á Egils­stöðum. Þeim var mjög í mun að koma á starfsemi bræðra­félags frímúrara á Austurland og voru alls ekki einir um það, því samkvæmt heimildum kynnti Stm. Reglunnar, á embætt­is­manna-fundi stúkuráðs þ. 4. nóvember 1976, bréf frá 7 frímúr­ara­bræðrum á Austur­landi sem óskuðu heimildar til stofnunar bræðra­félags. Ráðið hafði ákveðið að fela St. Jóh.st. Eddu undir­búning að stofnun félagsins.
Áfram leið tíminn og bræðrunum tókst ekki það ætlun­arverk sitt að stofna bræðra­félag, hvað sem olli því. Á árinu 1983 var gerð önnur atlaga að verkefninu og áhugi bræðra kannaður. Eitt var þó sem á stóð, en það var að Reglan gerði strangar kröfu um örugga varðveislu þeirra gagna sem félaginu yrðu send, svo sem siðbækur og fræðsluefni. Þetta var leyst snemma árs 1984 með sameig­in­legum innkaupum 3 bræðra á myndar­legum eld-og þjóftraustum peninga­skápum, en þá fékkst 4 skápurinn frítt og var ætlaður bræðra­fé­laginu. Sá gripur stendur nú í herbergi stólmeistara Vöku.
Þann 24. febrúar 1984 var haldinn fyrsti formlegi undir­bún­ings­fund­urinn að stofnun bræðra­fé­lagsins að viðstöddum 12 bræðrum. Þar var gengið frá ýmsum hlutum varðandi fjármál og skipulag starfsins og staðarval rætt án niður­stöðu, en til álita komu Reyðar­fjörður og Egils­staðir. Á fundi 3. mars sama ár, að viðstöddum 13 bræðrum, var kosið í embætti verðandi félags og Steinþór Eiríksson kjörinn fyrsti formaður þess.

Stofnun bræðra­félags

Þann 17. mars 1985 var haldinn stofn­fundur bræðra­félags frímúrara á Austur­landi. Sá fundur var haldinn á heimili Steinþórs að Hjarð­arhlíð 1, í 40 metra fjarlægð frá þeim stað er stúku­húsið stendur nú, en á neðri hæð í húsi Steinþórs innréttuðu bræðurnir aðstöðu fyrir starfsemi félagsins og héldu fundi þar næstu 5 árin.
Stofn­fundinum stjórnaði stm. Eddu, Guðmundur S. Jónsson, og með honum kom Borgþór Þórhallsson, frá Breiðavaði, Eddubróðir. Eddubræður, og einkanlega Guðmundur, höfðu verið tengi­liður við regluna á undir­bún­ings­tímanum. Embætt­ismenn Eddu voru óþreytandi í að aðstoða á allan hátt og verður ekki nógsamlega þakkað. Hafa verður í huga að enginn af austan­mönnum hafði starfað í bræðra­félagi og þeir því lítt undir komandi starf búnir. En viljinn til að eiga samfélag hver með öðrum og fá tækifæri og aðstöðu til fræðslu var hvatinn til þeirrar miklu vinnu sem félags­stofnunin útheimti.
Af litlum neista verður oft mikið bál. Og hér skíðlogaði áhuginn og viljinn til frekari verka. Í bræðra­fé­laginu voru margir stórhuga – og stórlyndir – menn og metnað­urinn mikill. Haldnar voru jólatrés­skemmtanir fyrir börn þeirra og annnarra, aðstaðan í félags­heim­ilinu sífellt bætt – og hugsað fram á við. Í bræðra­fé­lögum eru fundir ekki haldnir með sama sniði og í stúkum frímúrara og bræðurnir vildu geta haldið alvöru frímúr­ar­a­fundi með öllu sem þeim tilheyrir.

Stjórn­endur Bræðra­félags frímúrara:
Steinþór Eiríksson 1985-1987,
Sigurður Helgason 1987-1988,
Aðalsteinn Valdi­marsson 1988-1990

Fræðslu­stúkan Vaka

Bræðurnir völdu verðandi stúku nafn og kjörorð og fengu br. Gunnar Einarsson til að gera tillögu að merki stúkunnar.
Þar kom að því að hluti af iðnað­ar­húsnæði, sem áður hýsti bygginga­fé­lagið Brúnás, en var komið í eigu br. Sölva Aðalbjarn­ar­sonar, var keypt í ágúst 1989 að fengnu samþykki stúkuráðs og hafist handa við að innrétta það: Um 150 m2 á tveimur hæðum að hluta, með alvöru fordyri, stúkusal, borðsal, bókasafni, setustofu, og öðru sem þurfti til, þannig að stofna mætti fræðslu­stúku.
Allt var hreinsað innan úr hinu nýja húsnæði áður en endur­bygging hófst, skipt um allar lagnir, veggir víða múraðir upp, sett hvolfþak í stúkusal; allt, bókstaflega allt innanhúss smíðað að nýju auk þess sem lóð umhverfis húsið og bílastæði voru endurgerð. Klukku­stundum og dögum saman stóðu bræðurnir, sem þá voru orðnir nær við 30 talsins, í ströngu við þessar framkvæmdir og linntu ekki fyrr en þeir gátu stoltir litast um og sagt: „Sjá , þetta er harla gott.“ Margir þeirra lögðu fram umtals­verða fjármuni og efni til smíðinnar auk þekkingar á bygging­ar­listinni og handverkinu.
Sem fyrr nutum við mikillar og elsku­legrar aðstoðar frá reglu­bræðrum annars staðar frá, sem útveguðu okkur ýmis aðföng, gáfu til okkar muni og jafnvel komu um langan veg til að leggja hönd á plóginn. Stólmeistarar Eddu voru okkar meistarar og greiddu götu okkar gagnvart því sem að stúkuráði snéri.
Hið nýja húsnæði, að Lyngási 11, Egils­stöðum, í 60 metra fjarlægð frá núverandi stúkuhúsi, var vígt og St. Jóh. fræðslu­stúkan Vaka stofnuð þann 17. nóvember 1990. Stólmeistari Eddu, Steinar J. Lúðvíksson, stýrði stofn­fundinum.
Þetta var stórkostleg upplifun fyrir bræðurna, sem nú höfðu í annað sinn á 5 árum gert sér viðunandi húsnæði og í þetta sinn í eigin húsi. Starfið í hinu nýja húsi hleypti kappi í bræðurna, starf­semin vakti athygli í samfé­laginu og innsækj­endur biðu. Fyrsta árið amk komu embætt­ismenn Eddu frá Reykjavík, stýrðu fundum og tóku inn nýja félaga, en fljótt rak að því að heimamenn sinntu öllum embættum og stjórnandi bróðir stúkunnar, sem jafnan var jafnframt varameistari í móður­stúkunni Eddu, annaðist inntökur nýrra félaga.
Fræðslu­stúkan Vaka var í miklu og góðu sambandi við móður­stúkuna Eddu, en átti einnig afar góð og mikli tengsl við frímúr­ara­stúk­urnar á Akureyri, Rún, Huld og Stúart­stúkuna. Fundir Vöku á III° voru til dæmis allir haldnir á Akureyri og lang flestir bræður sem frömun fengu til Andrésar – og Stúart­stiga fengu þau hjá Huld eða Stúart­stúkunni á Akureyri. Vökubræður tóku sig saman og fóru akandi á fundi norður, því þótt færð væri stundum erfið var hægt að fara fram og til baka á löngu síðdegi – sem stundum varði langt fram yfir miðnætti – og ólíkt hagkvæmara heldur en ferðast með áætlun­ar­flugi.
Sérstakt vináttu­samband komst á við fræðslu­stúkuna Draupni á Húsavík og mikið var um gagnkvæmar heimsóknir, bæði á fundi og systra­kvöld, sem stundum voru sameig­inleg. En brátt fór að þrengja að starfinu, stúku­húsið varð of lítið vegna mikillar aðsóknar og á fundum embætt­is­manna var oft rætt um möguleika á að byggja við húsið. Sérstakur velunnari Vöku, br. Gunnar Einarsson, arkitekt, gerði líkan að viðbyggingu sem hefði gjörð­breytt allri aðstöðu og var mjög til skoðunar.

Stjórn­endur Fræðslu­stúk­unnar Vöku

Aðalsteinn Valdi­marsson 1990-1995,
Reynir Sigur­þórsson 1995-1998,
Gísli Marteinsson 1998-2000,
Einar Rafn Haraldsson 2000-2006,
Jónas Þór Jóhannsson 2006-2010.

Og áfram skyldi haldið

En einn góðan veðurdag, í árslok 1996, barst sú fregn að eininga­verk­smiðjuhús bygging­ar­fé­lagsins Brúnáss að Miðási 11, u.þ.b 1.000 m2 bygging, á 2 hæðum að hluta til, væri til sölu. Að kvöldi sama dags hafði stj. br. Vöku tryggt stúkunni kauprétt að húsinu og ekki varð aftur snúið. Stúkuhús Vöku gekk upp í kaupin og fundinn var kaupandi að því; Samfrí­múr­ara­stúkan Eir á Egils­stöðum, sem hafði leigt aðstöðu hjá Vöku til funda­halda um 2ja ára skeið.
Aftur hófst bygging­ar­ferli sem áfram var drifið af miklu kappi, en að þessu sinni var nokkuð um aðkeypta vinnu við framkvæmdina, enda tímarammi þröngur. Br. Gunnar Einarsson gerði uppdrætti og flutti raunar austur í nokkra mánuði og vann að byggingunni. Innréttaður var mun stærri stúku­salur en áður með fordyri yfir steypu­skála hússinsog nær 100 manna borðsalur ásamt eldhúsi, embætt­is­manna-herbergjum og öllu því er tilheyrir slíkri byggingu. Húsið var vígt 4. október 1997 og var húsnæði stúkunnar um 500 m2 , en annað leigt út. Aðstaða í húsinu var mjög góð og jók enn á möguleika til fjölgunar bræðra.
Við kaupin á húsinu tók Vaka við lánum hjá Iðnlána­sjóði og verðbólga og vaxta­hækkanir gerðu bræðrunum erfitt fyrir. Fljótt kom í ljós að þrátt fyrir útleigu á nær 800 m2 verksmiðju­húsnæði og að fleiri greiddu árgjöld til stúkunnar en áður var hún ekki fær um að standa undir afborgunum og rekstri. Í ljósi vaxandi væntinga um byggingu Fljóts­dals­virkjunar og álvers á Reyðar­firði tókst að selja Malar­vinnslunni hf, öflugu verktaka­fyr­irtæki, stúku­húsið glæsilega og stóra og fá hluta söluverðsins í formi húsbygg­ingar fyrir stúkuna. Kaupsamn­ingur um söluna var undir­ritaður 10. mars 2003 og afsal gefið út 2. desember 2004.
Einn af stofn­endum bræðra­fé­lagsins, br. Páll Pétursson, sem átti iðnaðar- og versl­un­ar­húsnæði að Tjarn­arási 6, varð að láta af störfum vegna heilsu­brests og seldi það til Vöku. Malar­vinnslan byggði svo viðbyggingu við Pálshús, þann hluta núverandi stúkuhúss sem anddyri, fundar­salur og embætt­is­manna­her­bergi eru í.
Frá því að stúku­hús­næðið að Miðási 11 var afhent kaupanda árið 2004, og þar til nýtt húsnæði að Tjarn­arási 6 var tekið í notkun árið 2005, leigði Vaka aðstöðu hjá Samfrí­múr­ara­stúkunni Eir í sínu gamla húsi að Lyngási 11.
Í fjórða sinn hófst framkvæmda­ferli bræðra við gerð stúku­hús­næðis og enn unnu bræðurnir af dugnaði, ósérhlífni og alúð. Ekki þarf annað en svipast um í húsnæðinu til að sjá að vandað var til . Í sögu stúkunnar, þegar hún verður rituð, þarf að geta þeirra bræðra sem mest lögðu til verksins og verður aldrei nógsamlega þakkað. Meðal br. úr öðrum stúkum sem komu að hönnun nýbygg­ing­ar­innar verður að nefna br.Aðalstein Júlíusson, br. Birgi Ágústsson og br. Gunnar Einarsson, allir sannir velunnarar starfsins og stúkunnar.
Vaka tók við hinu nýja húsi fokheldu 2003 og innréttingu þess lauk að mestu 2004. Húsið var formlega vígt 22. janúar 2006. Til stóð að SMR framkvæmdi þá athöfn, en ekki var flugfært frá Rvík, þannig að í umboði SMR framkvæmdi vígsluna br. Eiríkur Sveinsson, Stm. Stúarts­stúk­unnar á Akureyri, sem hafði ekið hingað þann sama morgun ásamt fleiri góðum gestum að norðan.
Eins og áður hefur komið fram hafði Vaka haft samstarf um húsnæði við Samfrí­múr­ar­stúkuna Eir í ein 4 ár áður en þessi nýju húsakynni komu til sögunnar og ávallt gengið vel. Með samþykki SMR seldi Vaka því Eir fjórð­ungshlut í hinu nýja húsnæði og stúkurnar gerðu með sér helminga­skipta­samning um rekstur þess. Þetta er báðum til hagsbóta og eykur nýtingu hússins.

Stofnun St. Jóh. stúkunnar Vöku

Síðasti St.br. fræðslu­stúk­unnar og fyrsti St.m. Jóhann­es­ar­stúk­unnar Vöku var br. Jónas Þór Jóhannsson og hann, eins og aðrir stjórn­endur starfsins hér, knúði afar fast á um stofnun fullkom­innar stúku og hlaut þá áheyrn sem málefnið átti skilið, bæði hjá Stm. Eddu, sem studdu hann með ráðum og dáð, og eins hjá SMR og stúkuráði.
Undir­bún­ings­vinna vegna stofn­un­ar­innar stóð yfir í um tvö ár og margir komu að henni. Handverks­meistarar stúkunnar smíðuðu tákn embætt­is­manna og bjuggu til nýjar embætt­is­manna­svuntur, – úr hrein­dýra­leðri að sjálf­sögðu – svo eitthvað sé nefnt. Með stofnun fullkom­innar Jóhann­es­ar­stúku var mjög mikil­vægum áfanga náð, eftir 34 ára starf frímúr­ara­bræðra í fjórð­ungnum að þessu markmiði. Það er mikill munur á starfs­vett­vangi fræðslu­stúku, sem starfar í skjóli annarra, og því starfi sem rekið er í fullkominni stúku. Stjórn­endur Vöku fundu strax fyrir því og voru fljótir að nýta þau tækifæri sem nú gáfust. Á starfs­árinu 2014-2015 voru fyrstu upptökufundir á meist­ara­gráðu haldnir í húsinu í tilheyrandi umhverfi og með öllum þeim áhöldum er tilheyra. Það er með ólíkindum hve vel hefur tekist til með þann búnað allan og hversu haganlega hann er gerður, því ekki þarf langan tíma til undir­búnings funda á meist­ara­stigi. Það er mikill léttir og gleði að geta haldið þessa fundi í eigin húsnæði, en jafnframt söknuður að hópferðum bræðranna til Akureyrar í þeim tilgangi. Til að gefa nokkra mynd af umsvifum starfsins hjá Vöku frá stofnun hennar 2010, skal eftir­farandi nefnt:
30 bræður hafa verið teknir inn í stúkuna, 94 hafa fengið hærra stig, 107 stúkufundir haldnir, þar af 12 á II°og 16 á III°, u.þ.b. 45 fræðslufundir og rúmlega 100 erindi verið flutt, systra­kvöld 6 og jólafundir 5.
Þann 06.01.2017 var bróðir nr. 107 tekinn í St. Jóhst.Vöku.

Stjórn­endur St.Jóhst. Vöku

Jónas Þór Jóhannsson 2010-2013,
Óskar Vignir Bjarnason 2013-

Innskráning

Hver er mín R.kt.?