Frímúrarastarf á Ísafirði er og hefur verið öflugt frá upphafi þess, formlegt og samfellt starf frímúrara á Ísafirði hefur staðið óslitið síðan 1925 en 22. júlí það ár tók fræðslustúkan Njála til starfa undir verndarvæng St. Jóh.st. Eddu.
Sagan er jafnvel lengri en þetta. Kannski hófst hún árið 1921 þegar Tryggvi Jóakimsson fluttist til Ísafjarðar frá New York, þar sem hann varð frímúrari 1917. Kannski 21. desember 1920, þegar Magnús Scheving Thorsteinsson, bankaútibússtjóri á Ísafirði, gekk í stúkuna Eddu í Reykjavík. Kannski er við hæfi að láta söguna hefjast árið 1923, þegar Sigurgeir Sigurðsson gerðist frímúrari.
Árið 1923 bættist hann í hóp frímúrara á Ísafirði, þessi maður sem varð mikil driffjöður í starfi. Mörgum árum síðar, í janúar 1939, kallaði Tryggvi Jóakimsson Sigurgeir föður stúkunnar við það tilefni að hann var að kveðja stúkuna, nýkjörinn biskup yfir Íslandi. Sigurgeir var forseti Njálu frá 1925 til ársins 1950. Á því tímabili varð hann bæði biskup og stólmeistari St. Jóh. st. nr. 1 Eddu. Á fyrstu árum þriðja áratugarins á nítjándu öldinni var alltént mikið í deiglunni sem leiddi til stofnunar fræðslustúkunnar Njálu árið 1925. Fyrstu árin var stúkan í íbúðarhúsi br. Tryggva Jóakimssonar að Aðalstræti 24. Húsið stóð reyndar spölkorn frá Aðalstræti eins og það er í dag og hefur nú fyrir löngu verið rifið.
Flutningur
Njála flutti þaðan árið 1933 í hús br. Helga Guðbjartssonar, kaupmanns og bíóstjóra. Árið 1935 var svo vígt nýtt heimili Njálu í húsi klæðskeranna br. Einars Guðmundssonar og br. Kristjáns Tryggvasonar. Þar var stúkan til ársins 1944 en fluttist þá aftur í hús Tryggva Jóakimssonar.
Fullgild stúka
Eftir að Frímúrarareglan á Íslandi varð sjálfstæð og tveimur árum síðar var Njála komin með alla neðri hæð húss Tryggva að Aðalstræti 24. Í því húsnæði var haldinn stofnfundur St. Jóh. st. Njálu nr. 4 þann 22. ágúst 1953. Þarna starfaði stúkan til ársins 1958.
Bræð¬urnir þurftu rýmra húsnæði en þetta. Eftir allmarga fundi og viðræður við ráða¬menn Lands-bankans á Ísafirði árið 1958, var ákveðið að ganga frá samn¬ingi um leigu húsnæðis á rishæð í nýbyggðu húsi Lands¬bankans. Vígsla húsnæð¬isins fór fram 11. október 1958. Í þessu húsnæði var stúkan í yfir aldar¬fjórðung.
Framtíðar húsnæði
Strax árið 1972 voru bræðurnir farnir að huga að framtíðarhúsnæði, enda þá aðeins nokkur ár eftir af samningnum við Landsbankann. Ýmislegt var skoðað í þeim efnum, en á fundi húsnæðisnefndar þann 6. júlí 1978 kom br. Guðmundur Guðmundsson með teikningu af nýju húsi sem fyrirhugað var að byggja við Kristjánsgötu, á vegum Olíusamlags Útvegsmanna. Þarna var komin hugmyndin að núverandi húsnæði Njálu í Hafnarhúsinu á Ísafirði. Það varð úr að fjárfesta í þessari eign. Fjöldi bræðra voru mjög rausnarlegir þegar kom að því að fullgera húsnæðið. Margir lögðu fram mikla vinnu. Sumir lögðu fram bæði efni, vinnu og peninga. Ný og núverandi salarkynni Njálu að Kristjánsgötu voru svo vígð á Jónsmessufundi árið 1985. Í þeim húsakynnum starfar einnig fullgild St.Andrésar stúkan Harpa.