Ágrip af sögu Mímis

Upphafið

Árið 1950 voru tvær Jóhann­es­ar­stúkur starfandi á Íslandi.  St. Jóh. stúkan Edda í Reykjavík með 414 bræður sem er formóðir allra Jóhann­es­ar­stúkna á Íslandi en hún var stofnuð 6. janúar 1919 og er móður­stúka Mímis og svo var starfandi St. Jóh. stúkan Rún á Akureyri með 126 bræður, en Rún var stofnuð 5. ágúst 1932.  Fljótlega upp úr heimstyrj­öldinni síðari var farið að hreyfa við því að heppilegt myndi fyrir framgang Reglunnar að stofna aðra stúku í Reykjavík vegna þess að bræðurnir voru orðnir svo fjölmennir að húsnæðið, sem Reglan starfaði þá í, var löngu orðið of lítið og hafði það áhrif á fundarsókn bræðranna.   Þessi mikli fjöldi bræðra hafði einnig aðra ókosti í för með sér t.d. urðu kynni bræðra minni en æskilegt var og innsækj­endur í stúkuna þurftu að bíða í tvö og jafnvel þrjú ár eftir inngöngu.

Tilskipun um stofnun

Þáverandi Stórmeistara Frímúr­ar­a­regl­unnar á Íslandi, Sveini Björnssyni forseta var stofnun stúkunnar hjart­ansmál og 12. október 1951 ritaði Stjórn­stofa til Stúkuráðs um þá ákvörðun Stórmeist­arans, að hann hafi með heill og þrif Reglunnar fyrir augum ákveðið að í Reykjavík skyldi stofnuð ný St. Jóh. stúka.  Fimm dögum síðar var svo gefin út tilskipun um stofnun nýrrar St. Jóh. st. í Reykjavík.  Þeirri fyrstu sem stofnuð væri af Frímúr­ar­a­reglunni á Íslandi sem varð sjálfstæð þetta sama ár 1951 þ. 23. júní.   SMR Sveini Björnssyni auðnaðist ekki að verða vitni að þessum atburði en hann lést í janúar 1952.  Fráfall hans varð til þess að töf varð á stofnun stúkunnar fram í febrúar 1953.  Þá hafði prófessor Ólafur Lárusson tekið við sem Stórmeistari Frímúr­ar­a­regl­unnar á Íslandi og kom það í hans hlut að ganga frá stofnun stúkunnar Mímis.

Það gerði hann með bréfi dags. 30. desember 1952.  Í því bréfi kom fram hvert nafn stúkunnar yrði, einkunn­arorð, lýsing skjald­ar­merkis og litir stúkunnar.  Einkunn­arorð stúkunnar á latínu eru “Querite et Invenietis” sem gæti útlagst “Leitið og þér munuð finna”.  Ennfremur var tekið fram í þessu bréfi hver yrði stólmeistari stúkunnar og embætt­ismenn hennar, samtals 9 bræður.  En þeir voru:

Tómas Tómasson Stm.,
Elías Halldórsson vStm,
Eggert Kristjánsson E.Stv,
Valdimar Stefánsson Y.Stv,
Freysteinn Gunnarsson Km eins og Rm var nefndur þá,
Egill Guttormsson Sm,
Benedikt G. Waage R,
Jón Maríasson Skm, eins og Fh var nefndur þá
Guðmundur Þórðarson L.

Þessir bræður voru tilnefndir stofn­endur stúkunnar. Auk þeirra voru 12 bræður sem gerðust stofn­fé­lagar eða alls 21 bróðir og allir komu þeir frá St. Jóh. st Eddu.

Myndin er tekin af stofnefndum St. Jóh. St. Mímis 14. febrúar 1953. Í fyrstu röð talið frá vinstri: Benedikt Waage, Valdimar Stefánsson, Elías Halldórsson, Tómas Tómasson, Eggert Kristjánsson, Freysteinn Gunnarsson, Jón G. Maríasson. Í annarri röð frá vinstri: Erlendur Einarsson, Tryggvi Fr. Tryggvason, Sveinn Víkingur, Egill Guttormsson, Guðmundur Þórðarson, Esra Pétursson, Gunnar J. Möller. Í þriðju röð frá vinstri: Jón P. Emilsson, Ólafur Ág. Ólafsson, Jósafat J. Líndal, Alfreð Búason, Einar Pálsson, Henry A. Hálfdán­arson, Nikulás Jónsson.

Stofn­fundur

Stofn­fundur St. Jóh. st. Mímis var haldinn samkvæmt fundar­gerðabók árið 1953 á fjórtánda degi annars mánaðar, sem var Valentínus­ar­messa.  Fundargerð stofn­fund­arins sem Benedikt G. Waage ritaði, segir frá upphafinu á mjög myndrænan hátt.

Embætt­ismenn og stofn­fé­lagar hinnar nýju stúku voru kallaðir fram fyrir altari stúkunnar og þeim afhent Stofnskrá St. Jóh. st. Mímis ásamt Skipun­ar­bréfi fyrir stúkuna.

Að því loknu lýsti Stórmeistari Reglunnar yfir að samkvæmt því, sem nú hafði verið birt bræðrunum, og af því valdi sem honum var veitt, þá væri  St. Jóh. st. Mímir  stofnuð.  Fyrsta Stólmeistara stúkunnar Tómasi Tómassyni var því næst afhent skipun­arbréf sitt og hann sór embættiseið sinn sem stólmeistari.

St. Jóh. st. Mímir var orðin að veruleika.

Ákveðið var að mánudagar skyldu vera fundar­dagar stúkunnar. Fyrsti upptökufundur stúkunnar var 30. mars 1953 og bróðir Pétur Andrésson var vígsluþegi.

Það sannaðist í upphafi að það var rétt sem sagt var um þörfina fyrir nýja stúku því strax á stofn­fundinun voru lagðar fram sex inntöku­beiðnir frá nýjum innsækj­endum.

Eins og áður sagði voru stofn­fé­lagar Mímis 21 að tölu.

Stólmeistarar Mímis

 1. Tómas Tómasson 14.02.1953 -25.04.1955
 2. Eggert Á Kristjánsson 25.04.1955 – 11.03.1963
 3. Gunnar J. Möller 11.03.1963 – 29.11.1971
 4. Valur Gíslason 29.11.1971 – 14.02.1975
 5. Einar Birnir 14.02.1975 – 06.04.1981
 6. Jóhann Ágústsson 06.04.1981 – 15.04.1985
 7. Jón Birgir Jónsson 15.04.1985 – 17.04.1989
 8. Magnús Ólafsson 17.04.1989 – 02.09.1990 sem lést í starfi eftir að hafa starfað sem Stm einungis í eitt og hálft ár
 9. Þórður Óskarsson 08.10.1990 – 30.11.1998
 10. Ólafur G. Karlsson 30.11.1998-23.10.2006
 11. Sveinn Grétar Jónsson 23.10.2006 – 02.04.2012
 12. Hákon Örn Arnþórsson 02.04.2012 -18.01.2016

Núverandi Stólmeistari Guðmundur Ragnar Magnússon frá 18.01.2016 –

Tveir af stofn­fé­lögum Mímis hafa orðið Stórmeistarar Reglunnar en það voru þeir Valdimar Stefánsson 1972-1973  og Gunnar J. Möller 24.09.1983 -06.06.1988 . Auk þessara stofn­félaga var Indriði Pálsson  Stórmeistari Reglunnar frá árinu 1988-1999.

Þannig að frá Mími hafa komið 3 af 9 Stórmeisturum Reglunnar frá árinu 1951.

Frá árinu 1953 hafa 14 bræður hlotið stig Riddara og Kommandöra Rauða Krossins, 6 þeirra eru á lífi og eru fyrrverandi embætt­ismenn og 8 hafa fengið Heiðurs­merki Reglunnar og eru tveir á lífi.

Í dag er fjöldi Mímis­bræðra 352 bræður. Í gegnum árið hafa verið höggvin skörð í fjölda bræðranna en margir bræður gerðust stofn­fé­lagar í St. Jóh. st Sindra árið 1978 sem var áður fræðslu­stúka í umsjá Mímis og einnig við stofnun St. Jóh. st. Fjölnis árið 1987 þar sem þó nokkrir stofn­félaga voru bræður úr Mími.  Einnig er það ekki umflúið að með hækkandi aldri stúkunnar hafa margir bræður fallið frá.

Hér hefur verið stiklað á stóru í sögu stúkunnar sem er ekki hár aldur í sögulegu samhengi. Það er von okkar Mímis­bræðra að stúkan Mímir njóti þeirrar blessunar sem hún hingað til hefur notið og bræður muni um ókomna tíð njóta  gæfu og gengis.

Innskráning

Hver er mín R.kt.?