Ágrip af sögu Mælifells

Upphafið

Áður en frímúr­arastarf hófst á Sauðár­króki höfðu nokkrir frímúr­ara­bræður verið búsettir í Skaga­firði.  Fyrsti frímúr­arinn búsettur á Sauðár­króki, var Fredrik Ludvig Popp fæddur 28. febrúar 1831 og lést 10. mars 1893.  Hann gekk í Z og F í Kaupmannahöfn árið 1886 sama ár og hann flutti til Sauðár­króks.

Stofnunin

Það má segja að eiginlegt frímúr­arastarf hefjist á Sauðár­króki árið 1965.

Fram að þeim tíma höfðu nokkrir bræður verið búsettir hér í bænum og héraðinu, en ekki munu hafa verið nein samtök um fundarsókn milli þeirra.  Voru þeir 12 talsins og var móður­stúka þeirra í upphafi St. Jóh. St. Edda.

Fyrsti fundur í Bræðra­fé­laginu var haldinn 14. október 1967 á heimili Eyþórs Stefáns­sonar, Fögruhlíð. Félaginu var gefið nafnið Mælifell og félags­svæðið náði yfir Skaga­fjarð­ar­sýslu, Húnavatns­sýslu og Stranda­sýslu. Móður­stúka var St. Jóh. St. Rún.

Keypt var Aðalgata 15 og fóru kaupin fram 18. júlí 1968.  Síðan var farið út í geysi­mikla vinnu við að stand­setja húsið.

10. mars 1969 var síðasti fundurinn haldinn hjá Eyþóri Stefánssyni í Fögru­hlíðinni og næsti fundur bræðranna var haldinn mánudaginn 10. maí 1969 í nýja húsinu að Aðalgötu 15.

Lokafundur bræðra­fé­lagsins var haldinn 6.desember 1970 og í beinu framhaldi var haldinn stofn­fundur Fræðslu­stúk­unnar Mælifells. Stofn­fé­lagar voru 11.

Í árslok 1980 voru Mælifells­bræður orðnir 26 og farið að þrengja að þeim bæði í stúkusal og ekki síður á loftinu þar sem bróður­mál­tíðir voru haldnar.

Því var í árslok 1981 ráðist í kaup á fyrstu tveimur hæðum hússins að Skógargötu 1. Fyrsti fundur í húsinu var haldinn 15.maí 1982.

Fullkomin Santi Jóhann­es­ar­stúka var stofnuð sunnu­daginn 6.maí 2001 og voru stofn­fé­lagar 64.  Rétt er að taka fram að þó að stofndag­urinn sé 6.maí þá er hátíð­is­dagur stúkunnar 26.apríl.

Stofn­fund­urinn var haldinn í Stúku­húsinu, Skógargötu 1, og hófst kl. 10:30  og var 141 bróðir á fundinum. Hátíðar og veislu­stúkan fór svo fram í Ljósheimum.

Húsnæðið

Það var ljóst að mjög var orðið þröngt um starf­semina á Skógar­götunni og því var farið að leita að hentugra og stærra húsnæði.  Gerður var kaupsamn­ingur í upphafi árs 2001 um núverandi húsnæði Mælifells á Borgarmýri 1A.

Hófst þá framkvæmdalota sem segja má að staðið hafi óslitið til vors 2006.  Stúku­salur, forgarður, herbergi embætt­is­manna, snyrt­ingar, eldhús og sameig­inleg rými voru tekin í notkun 5. nóvember 2005 er stúku­sal­urinn var vígður af Stórmeistara Frímúr­ar­a­regl­unnar á Íslandi Sigurði Erni Einarssyni.

Borðsal­urinn var frágenginn fyrir lokafund vorið 2006 en hornsteinninn var lagður haustið eftir þann 29.október 2006.

Það var enn og aftur Stórmeistari Frímúr­ar­a­regl­unnar á Íslandi, Sigurður Örn Einarsson sem framkvæmdi þá athöfn sem fór fram að viðstöddu fjölmenni, bæði bræðrum og fólki utan reglunnar sem um leið gafst tækifæri á að skoða húsakynnin.

Tókst þar vel til og hafði þessi viðburður verulega góð áhrif á viðhorf samfé­lagsins til frímúr­ara­starfsins.

Lyftu var komið fyrir í húsinu árið 2015.

Innskráning

Hver er mín R.kt.?