Upphaf frímúrarastarfs hér í Vestmannaeyjum má rekja aftur til ársins 1965, en þá fóru tveir frímúrarar, er hér bjuggu, að hittast og ræða hina sameginlegu reynslu sína sem frímúrarabræður. Eftir eldgosið 1973 komu nokkrir reglubræður til Eyja og heimamenn gengu í Regluna. Árið 1976 voru brr. orðnir sjö og þá kominn grunnur fyrir stofnun bræðrafélags. St. Jóh. st. Edda tók að sér hlutverk verndarsúku og stofnaði Stm. hennar bræðrafélag frímúrara í Vestmannaeyjum hinn 18.12. 1976. Fyrr á sama ári festu þessir sömu brr. kaup á húsi sem stendur við Kirkjubæjarbraut 17 hér í Eyjum, en það stendur við nýja hraunkantinn. Húsið var í algjörri niðurnýðslu, gluggalaust og fullt af vikri, þakið var ónýtt en flestar sperrur voru á sínum stað og því nothæfar. Húsið var svo gert upp af miklum dugnaði þessara fáu bræðra, sem nutu góðrar aðstoðar Eddubræðra og annara velunnara.
Fræðslustúkan
Fræðslustúkan Hlér var stofnuð í Eyjum þ 16.11. 1985 og fljótlega var þá gerð aðstaða fyrir upptöku ókunns leitanda. Embættismenn Eddu komu þá til Eyja til að sjá um vígslu þeirra hér og gerði það starfið strax innihaldsríkt. Árið 1993 fékk Stjbr. Hlés leyfi SMR til að vígja brr. í Regluna og hafa embættismenn Hlés annast það síðan. Þá um vorið var fest kaup á stóru húsi undir starfsemina að Geirseyri á Básaskersbryggju 9 og var það gert fundarklárt um sumarið. Jólafundur var sá fyrsti sem haldin var í því húsi. Nýja húsið var svo formlega vígt þ 23.02. 1994 með upptökufundi þar sem Stm Eddu og fjöldi brr. úr móðurstúkunni voru viðstaddir.
Fullgild stúka
Þann 15.11. 2014 var Fræðslustúkunni Hlé breytt í fullgilda St. Jóh. Stúku sem Hersir Reglunnar annaðist, en mikill fjöldi bræðra kom víða að og var viðstaddur þá athöfn. Eftir það gat móðurstúkan Edda endanlega sleppt af okkur beislinu, enda brr. orðnir um 70 og starfið með miklum blóma hér í Eyjum.