Ágrip af sögu Gimlis

Undir­bún­ingur að stofnun

St. Jóhannesar stúkan Gimli var stofnuð hinn 2. nóvember 1957 og var þriðja St. Jóhannesar stúkan í Reykjavík, en hin fimmta á Íslandi.  Fyrir voru þá St. Jóhannesar stúkurnar Edda og Mímir í Reykjavík, Rún á Akureyri og Njála á Ísafirði.

Stofnskrá Gimli var gefin út af Stórmeistara Frímúr­ar­a­regl­unnar á Íslandi, Ólafi Lárussyni prófessor, þann 29. október 1957 og meðund­ir­rituð af I.V.R. Vilhjálmi Þór og St.R. Ólafi Gíslasyni.  Ástæða stofnunar nýrrar stúku er tilgreind í upphafi stofn­skrár.  Þar segir:

“Ég, Ólafur Lárusson, prófessor, dr. Jur. Og phil. Stórmeistari og æðsti stjórnandi Frímúr­ar­a­regl­unnar á Íslandi geri kunnugt:  Vegna þess, hve félagatala hinna tveggja starfandi St. Jóhannesar stúkna í Reykjavík, og þá fyrst og fremst St. Jóhannesar stúkunnar Eddu, er orðin há, og vegna þess hve margir mætir menn leita inngöngu í Frímúr­ar­a­regluna, hefi ég, Reglunni til þroska og bræðrunum til heilla, ákveðið að stofna skuli í Reykjavík nýja starfandi St. Jóhann­es­ar­stúku, er lúti hinni íslensku Stórstúku.”

Stofn­endur

Og í skipun­ar­bréfi stúkunnar voru eftir­taldir stofn­endur hennar skipaðir í embætti:

Stm. Einar Pálsson
Vstm,  Erlendur Einarsson
Estv. Victor Júlíus Gestsson
Ystv. Svavar Pálsson
RM. Þorsteinn Björnsson
SM. Guðjón Einarsson
R. Önundur Ásgeirsson
Skm. Jósef H. Sigurðsson
L. Ísak Sigur­geirsson

Stofn­endur stúkunnar voru 37 að tölu og komu þeir frá eftir­töldum St.Jóh.stúkum:

26 frá Eddu
5 frá Rún
5 frá Mími
1 frá Njálu.

Flest allir voru þessir bræður tiltölulega ungir að árum. 26 þeirra voru á aldrinum frá 29 ára til fertugs, 8 milli fertugs og fimmtugs, en aðeins þrír yfir fimmtugu.  En, stofn­end­urnir voru ekki aðeins ungir að aldri í árum talið.  Þeir voru einnig ungir að aldri í Reglunni. Enginn þeirra hafði hærra stig en VII. stig, en þeir sem það höfðu voru aðeins fjórir.  Hinir dreifðust nokkuð jafnt á III. til VI. stig, en tveir voru á II. stigi.  Ekki mun þó tiltölulega ungur aldur bræðranna og reynslu­leysi flestra í embætt­is­störfum hafa komið að sök, því bræðurnir voru samhentir og áhuga­samir og unnu störf sín af fyllstu alvöru.  Um þetta vitna ummæli br. Sveins Finns­sonar, þegar hann sem Stm. flutti ávarp sitt á 20 ára afmæli stúkunnar, en hann var einn af stofn­endum hennar.  Hann sagði:

“Ég hygg, að yfir embætt­is­störfum Gimli fyrstu árin, hafi hvílt ferskur röskleikablær ungra manna, enda töldu bræðurnir, að svo ætti að vera.  Ég vona, að sá röskleikablær hafi enst til dagsins í dag, en um það er ég að sjálf­sögðu ekki dómbær, þar sem mín augu hafa ekki verið augu gestisins í þessi tuttugu ár.”

Fyrstu árin

Gríðarlega mikil vinna liggur að baki, þegar komið er að endan­legum stofn­fundi stúku.  Sá sem bar hitann og þungann af stofnun stúkunnar var verðandi Stm. hennar, br. Einar Pálsson, en Stórmeistari Reglunnar hafði falið honum að að undirbúa stofnun hennar.  Br. Einar vann af miklum dugnaði og samviskusemi að undir­bún­ingnum.  Hann teiknaði sjálfur bæði skjald­ar­merki stúkunnar, svo og stúku­merkið.  Hann valdi henni einnig kjörorð.  Þeir bræður, sem með honum störfuðu þá, hafa minnst þessara verka hans og dugnaðar með þakklæti.

Árleg fjölgun stúku­bræðra hefur verið nokkuð jöfn, ef undan­skilin eru nokkur ár.  Til ársins 1970 voru upptökur yfirleitt undir 10 á ári að undan­skildu öðru starfs­árinu, en þá gengu 17 bræður í stúkuna.  Starfsárið 1970/71 fjölgaði umsóknum skyndilega, en það ár voru 15 bræður vígðir inn í stúkuna.  Hámarki náði aðsóknin starfsárið 1974/75 þegar 22 nývígðir bræður voru teknir upp í stúkuna.  Þessi fjölgun skóp vissan vanda, sem leystur var með aukafundum, þar sem inn voru teknir allt að fjórir innsækj­endur á sama fundi.  Þessi leið var ekki góð, en þó sú besta í stöðunni þar sem ekki þótti fært að hinir ágætu menn, sem leituðu upptöku í stúkuna, yrðu látnir bíða þess í langan tíma.  Var þá komin upp sambærileg staða og var, þegar St.Jóh.stúkan Gimli var stofnuð og brást Reglan við með sama hætti, að stúkum var fjölgað svo taka mætti við þeim stækkandi hópi mætra manna, sem sóttust eftir félagsskap og bræðralagi Frímúrara.  Síðustu ár hafa sex til níu nýir bræður verið teknir inn í stúkuna ár hvert.

Stúkufundir Gimli voru fyrstu árin haldnir á föstu­dögum.  Með breyttum tímum varð sá fundartími óhentugur og árið 1964 heimilaði Stúkuráð að fundir yrðu haldnir á mánudögum og hefur svo verið síðan.

Starfið

Starfið í Gimli hefur jafnan verið í all föstum skorðum og hafa bræðurnir alla tíð lagt sig fram við að inna það sem best af hendi.  Hafa þeir þar fylgt fordæmi frumkvöðlanna, sem getið er hér að framan og hefur það góða orðspor farið af stúkunni að starfið sé sérlega vel af hendi leyst og áhugasemi bræðranna við brugðið.

Við upphaf starfsárs 2016-2017, þegar stúkan fyllir fimmta áratuginn, eru 396 bræður skráðir í félagatal Gimli.  Þetta er svipaður fjöldi og undan­farin ár, en þó hefur Gimli­bræðrum fjölgað lítils­háttar þegar lengra er litið.  Frá stofnun Gimli til upphafs starfs­ársins 2016-2017 hafa samtals 736 bræður verið teknir inn í stúkuna, flestir nývígðir, en allnokkrir hafa flust frá öðrum stúkum.

Þá hafa bræður einnig flust til annarra stúkna eins og gerðist við stofnun St. Jóhann­es­ar­stúk­unnar Lilju árið 2012 en þá voru allnokkrir Gimli­bræður meðal stofn­félaga. Starfið í St. Jóhann­es­ar­stúkunni Gimli er með hefðbundnu sniði starfsárið 2016 – 2017 og er gert ráð fyrir að níu bræður verði vígðir inn í stúkuna á starfs­árinu.

Innskráning

Hver er mín R.kt.?