Lag — Heimir Sindrason
Ljóð — Jón B. Stefánsson
Flutt af Frímúrarakórnum
Ljóðið var ort að undirlagi Guðna Jónssonar, þáverandi Stm. Fjölnis. Var það gert við undirbúning 10 ára afmælishátíðar Fjölnis 25. janúar 1997. Heimir Sindrason samdi lagið og var það frumflutt á afmælishátíðinni af Eiríki Hreini Helgasyni við undirleik Jónasar Þóris, en hann og Helgi Bragason útsettu lagið fyrir frumflutninginn.
Texti
Að aldagömlum erfðum býrð
þótt ung þín séu bönd
og um þig leikur ljóssins dýrð
og lífsins styrka hönd.
Í stúku vorri í von og trú,
með vinarþelið traust,
í kærleika vér byggjum brú
með bræðrum æðrulaust.
Af eljusemi vinnum við
hvert verk sem ljúka þarf
og biðjum hæstan höfuðsmið
um hjálp við þetta starf.
Í skauti þínu finnum frið
og fegurð, styrk og þrótt.
Þar þjáðum mönnum gefast grið
og gleymast raunir skjótt.
Til austurs bræðra liggur leið
um ljóss og sannleiks svið.
Þar endar þetta æviskeið
en eilífð tekur við.
Og hvort sem oss nú auðnist senn
að iðka hverja dyggð,
þá lúta, Fjölnir, ljúft þér menn
í lotning, þökk og tryggð.