Ágrip af sögu Fjölnis

Fjölnir verður til - Stofndagur

St. Jóh.stúkan Fjölnir var stofnuð að skipan þáverandi SMR Gunnars J. Möller.

Stofndagur var 25. janúar 1987.  Ákvörðunin um stofn­unina var tekin á fundi ÆR Frímúr­ar­a­regl­unnar þann 17. september 1985. Undir­bún­ing­urinn var falinn br. Vali Valssyni og valdi hann með sér bræður sem störfuðu að þessu markmiði með honum.

Stofn­endur stúkunnar voru 39 talsins.  Þessi tala kemur svo fram í merki stúkunnar sem 39 hlekkir í órjúf­an­legri keðju.

Stofnendur Fjölnis 1987

Megin­hluti bræðra við stofnun komu úr St. Jóh.st. Mími en segja má að bræður hafi komið úr því sem næst öllum starfandi St. Jóh.st. innan Frímúr­ar­a­regl­unnar.

Við stofnun St. Jóh.st. Fjölnis sagði Valur Valsson, sem var fyrsti Stm. stúkunnar:

Eitt íslenskt skáld átti sér þessa bæn til lífsins: „Hafir þú eitthvert smáhlutverk, þar sem maður leitar sannleikans, viltu þá lofa mér að leika það?“ Reglan hefur nú falið okkur mikilvægt hlutverk, þar sem maður  leitar sannleikans. Okkar er að leika það svo, að verði Reglunni til þroska og bræðrunum til heilla. Í okkar umsjá er nú nýgræð­ingur. Það er skylda okkar að annast hann af bróður­legri umhyggju, veita honum skjól, birtu og yl, svo að af honum vaxi voldugt tré.“

SMR, Gunnar Möller, fylgdi St. Jóh.stúkunni úr hlaði með góðum óskum um velfarnað í bráð og lengd:

„Ég lýsti því í inngangs­orðunum, að mikilvægt væri að fá hæfan leiðtoga. En í öllum stúkum er hver bróðir mikil­vægur hlekkur og alveg sérstaklega liggur það í augum uppi í fámennu liði, eins og því sem hér ýtir úr vör.“

Fyrsta starfsárið voru eingöngu þrír umsækj­endur teknir inn í stúkuna en síðan að jafnaði sjö á hverju starfsári.

Vissar hefðir hafa skapast í tímans rás við störf innan stúkunnar.  Utan fjárhags­stúkufundar og lokafundar eru ekki teknir inn innsækj­endur á H&V stúkufundi, jólafundi og fundi sem er að jafnaði haldinn í dymbilviku fyrir páska.  Þá er fastur siður að lesin er Fjall­ræðan og meira er um tónlist en endranær.

Eftir að ákvörðun um stofnun nýrrar stúku í Reykjavík var samþykkt á fundi ÆR Frímúr­ar­a­regl­unnar á Íslandi árið 1985 hófst vinna við að finna nafn á stúkuna, merki og kjörorð.  Ákveðið var að nýja stúkan skyldi heita Fjölnir, byggja á kærleika og merki hennar vísa til heitis hennar, kjörorðs, bræðra­lagsins og fjölda stofnenda stúkunnar.

Nafnið Fjölnir er sótt í Snorra-Eddu eins og nöfn flestra annarra St. Jóh.stúkna hér á landi. Nafnið er alföð­ur­kenning í Gylfag­inningu.  Þar segir frá því að alfaðir hafi átt 12 nöfn í Ásgarði hinum forna, hið fimmta þeirra var Fjölnir.  Hér er líka vísað til þess að Fjölnir er fimmta St. Jóh. stúkan í Reykjavík.

Caritate

Einkunn­arorð eða kjörorð stúkunnar er CARITATE, sem er latína og þýðir „í kærleika“.  Það lýsir trausti á algóðan kærleika HHHHoJ og bróðurkær­leika sem vera skal undir­staða stúku­starfsins.  Eldurinn í skjald­ar­merkinu táknar orðið.

Á skjald­ar­merki stúkunnar er gyllt hringlaga keðja á bláum fleti og innan hennar hvítur jafnhliða þríhyrn­ingur utan um tendrað ljós.

Einkunn­ar­orðið stendur neðst á hvítri gullbryddaðri umgjörð ásamt heiti stúkunnar og aðsetri hennar, Reykjavík.

Innskráning

Hver er mín R.kt.?